Góð þátttaka í fjölbreyttum fermingarstörfum

8. október 2024

Góð þátttaka í fjölbreyttum fermingarstörfum

Háteigskirkja

Nú eru fermingarstörfin komin í fullan gang í kirkjum landsins og fréttaritari kirkjan.is hefur komist á snoðir um að þátttakan sé óvenjugóð í ár.

En söfnuðirnir hafa ólíka tilhögun á starfinu.

Sumir söfnuðir bjóða börnunum á viku námskeið áður en skólarnir hefjast þar sem fræðsluefni vetrarins er kennt.

Fara þessi vikunámskeið annað hvort fram í heimakirkjunum eða í Vatnaskógi.

Samt sem áður eru þó nokkrir söfnuðir sem halda í þann gamla sið að hitta fermingarbörnin einu sinni í viku.

Á næstu vikum mun verða sagt frá hinu fjölbreytta fermingarstarfi kirkjunnar á kirkjan.is

Fréttaritari grennslaðist fyrir um það hvernig fermingarstörfunum er háttað í Háteigskirkju í Reykjavík.

Helga Soffía Konráðsdóttir sóknarprestur og Ása Laufey Sæmundsdóttir prestur eru með fasta dagskrá fyrir veturinn þannig að börnin vita nákvæmlega hvað á að taka fyrir í hverjum tíma.

Síðan mæta þau í messu á sunnudögum.

Sunnudaginn 25. ágúst var skráningarmessa þar sem börnin komu í fylgd foreldra sinna.

Í fyrsta tímanum sem er á fimmtudögum var farið yfir hvað ætti að gera í vetur.

Næstu þrjá fimmtudaga var farið yfir Faðir vorið og bænina, altarisgönguna og skírnina.

Þann 26. september kom organistinn Erla Rut Káradóttir í heimsókn og talaði við börnin um tónlist og tilfinningar og hvað tónlistin skiptir miklu máli í helgihaldinu.

Hún sýndi þeim orgelið og leyfði þeim að koma við það og átta sig á hinum ýmsu röddum þess.

Að lokum spilaði hún óskalög barnanna á orgelið.

Þann 3. október komu tveir gestir í heimsókn þeir Páll Skaftason og Óskar Hraundal Tryggvason frá Orðinu sem áður hét Gideonfélagið.

Þeir afhentu börnunum Nýja testamentið með Sálmunum og Orðskviðunum og kenndu þeim að fletta upp í þessari mikilvægu bók.

Næstu tvo tíma munu prestarnir fjalla um Biblíuna.

Í síðasta tímanum í október er heimsókn frá Hjálparstarfi kirkjunnar á dagskrá því að í næsta tíma á eftir taka börnin þátt í söfnun Hjálparstarfsins og fá pizzuveislu á eftir.

Síðustu þrjá tímana í nóvember verður farið í trúarjátninguna, fyrsti tíminn er um föðurinn, annar um soninn og þriðji um heilagan anda.

Fermingarstörfin hefjast svo aftur eftir áramót þann 16. janúar og í fyrstu fjórum tímunum á nýju ári verður farið yfir boðorðin tíu.

Helgina 31. janúar til 2. febrúar verður ferð í Vatnaskóg.

Fimmtudaginn 13. febrúar verður fjallað um kristniboðið og í næsta tíma þar á eftir um sorg og dauða í lífi manns.

Síðasti tíminn í febrúar verður um píslasöguna og síðan verður upprisan til umræðu í fyrsta tímanum í mars.

Síðustu tímarnir fjalla síðan um kirkjuna í heiminum, siði og venjur og hátíðir kirkjuársins.

Fermingar í Háteigskirkju fara fram sunnudaginn 6. apríl, 13. apríl og 21. apríl.

 

slg


  • Biblían

  • Ferming

  • Fræðsla

  • Heimsókn

  • Hjálparstarf

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

HAìDEGISTOìNLEIKAR copy.png - mynd

Ertu búin/n að Bach-a fyrir jólin?

03. des. 2024
...hádegistónleikar í Hallgrímskirkju
Prestur og biskup Íslands

Gamalli hefð haldið við

02. des. 2024
...messa í Háskólakapellunni á fullveldisdaginn
Barokkbandið Brák

Aðventuhátíðir um allt land

29. nóv. 2024
...Bach á aðventunni í Hallgrímskirkju