Biskup Íslands á Austurlandi

16. október 2024

Biskup Íslands á Austurlandi

Skrifstofa biskups Íslands verður reglulega á landsbyggðinni í nokkra daga í senn.

Í lok þessarar viku og komandi helgi verður Guðrúnar Karls Helgudóttir, biskup á Austurlandi.

Biskup mun bjóða upp á opna viðtalstíma á milli kl. 10:00 og 15:00 á föstudag, en hægt er að bóka viðtal með því að senda póst á veffangið: biskup@kirkjan.is

Þá býður biskup til opins súpufundar milli kl. 12:00 og 14:00 á laugardag í safnaðarheimili Egilsstaðakirkju.

Með biskupi í för verður biskupsritari, Eva Björk Valdimarsdóttir.

Skrifstofa biskups verður nokkra daga á ári í hverjum landshluta og er það liður í því að efla tengsl innan kirkjunnar og stytta boðleiðir milli kirkjufólks vítt og breitt um landið og biskups.

Aðspurð hvernig henni lítist á ferðalagið austur svarar Guðrún því til að hún hlakki mikið til.

„Þessi hugmynd kviknaði fyrir töluverðu síðan og þetta er í fyrsta skipti sem við prófum þetta svo ég er auðvitað orðin mjög spennt að hefja þetta verkefni.

Ég er líka alveg sérstaklega spennt fyrir því að fyrsta færanlega skrifstofan verði á Austurlandi.“

Skrifstofa Guðrúnar verður í safnaðarheimili Egilsstaðakirkju, en það er þó ekki eini áfangastaðurinn, eða hvað?

„Nei, síður en svo,“ svarar hún.

„Við komum víða við þessa daga og á sunnudaginn tek ég svo þátt í guðsþjónustu í Þórshafnarkirkju, en þá verða 25 ár liðin frá vígslu kirkjunnar, svo við verðum þarna á góðum bíl og ég hlakka til að koma sem víðast við og hitta sem flest fólk þrátt fyrir að þetta sé ekki hefðbundin vísitasía“

segir Guðrún að lokum.

Guðrún hvetur öll þau sem vilja, að bóka sér viðtalstíma á föstudag eða líta við í súpu á laugardaginn.

Þess má að lokum geta að biskup Íslands mun verða á Suðurlandi í nokkra daga í nóvember, á Norðurlandi í janúar og á Vesturlandi í maí.


slg








  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Nýjung

  • Prestar og djáknar

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Biskup

Hildur Björk Hörpudóttir

Sr. Hildur Björk ráðin

22. nóv. 2024
...prestur við Glerárkirkju
Halldór Bjarki Arnarson

Tónlist fyrir okkar eirðarlausu tíma

22. nóv. 2024
... Halldór Bjarki Arnarson semballeikari
Kári Þormar og Hólmfríður Jóhannesdóttir

Heiðursgesturinn átti 80 ára fermingarafmæli

21. nóv. 2024
...fermingarafmælishátíð í Hafnarfjarðarkirkju