Stórglæsileg vika framundan í Hallgrímskirkju í Reykjavík

17. október 2024

Stórglæsileg vika framundan í Hallgrímskirkju í Reykjavík

Hallgrímskirkja á Skólavörðuholti - mynd: hsh

Nú fer að líða að 350. ártíð sálmaskáldsins Hallgríms Péturssonar.

Víða í kirkjum landsins verður haldið upp á það með ýmsum hætti.

Er það sérstaklega á þeim stöðum þar sem sálmaskáldið þjónaði sem prestur, en það var suður með sjó og á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.

En í Hallgrímskirkju í Reykjavík er ártíðarinna einnig minnst enda kirkjan byggð til minningar um sálmaskáldið.

Hallgrímshátíð á Minningarári Hallgríms Péturssonar.

Sunnudaginn 20. september hefst þar dagskrá Hallgrímshátíðar á Minningarári Hallgríms Péturssonar.

Dagskráin er afar fjölbreytt og reyndar stórglæsileg.

Sunnudaginn 20. október kl. 17:00 er dagskrá sem nefnist Tvær hliðar Hallgríms.

Tónlistarhópurinn Umbra Ensemble mun vinna með valið efni úr bókinni Hvað verður fegra fundið?, en bókin kemur út í október fyrir Minningarár Hallgríms Péturssonar.

Meðal annars er frumsamið efni.

Finna má nánar um viðburðinn hér. 

Þriðjudaginn 22. október kl. 12:00 verður fræðsluerindi sem nefnist Hallgrímur í tónum.

Sigurður Sævarsson tónskáld og skólastjóri og Björn Steinar Sólbergsson tónlistarstjóri Hallgrímskirkju og organisti fjalla um Hallgrímspassíu Sigurðar og tónlist á Minningarári Hallgríms.

Finna má nánar um viðburðinn hér. 


Miðvikudaginn 23. október kl. 12:00 verða umræður og ganga um sýninguna Hallgrímshorfur.

Hallgrímshorfur er myndlistarsýning Hallgerðar Hallgrímsdóttur, sem unnin er út frá lífi og list Hallgríms Péturssonar og samþætt sex kirkjustöðum sem tengjast honum.

Augnablik sem veita áhorfendum aðgang að hugleiðingum um líf og list tveggja einstaklinga mjög svo ólíkra tímaskeiða þar sem Hallgrímur er fæddur árið 1614 en Hallgerður 370 árum síðar.

List hans liggur í tungumálinu en hennar í ljósmyndun.

Finna má nánar um viðburðinn hér.

 

Fimmtudaginn 24. október kl. 20:00 verður Hallgrímsmessa.

Kór Breiðholtskirkju syngur undir stjórn Arnar Magnússonar.

Sungið er messutón úr Graduale frá Hólum (1594) og inn í það fléttað sálmum meðal annars eftir Hallgrím Pétursson og Jón Þorsteinsson píslarvott.

Ekkert hljóðfæri er notað við messugjörðina.

Finna má nánar um viðburðinn hér.

 

Föstudaginn 25. október kl. 17:00 verður útgáfuhóf Hvað verður fegra fundið?

Tvímálaútgáfa á 50 völdum textum úr verkum Hallgríms Péturssonar á ensku og íslensku.

Valið hafa sr. Irma Sjöfn Óskarsdóttir, Steinunn Jóhannesdóttir, Svanhildur Óskarsdóttir og Margrét Eggertsdóttir, sem einnig er ritstjóri útgáfunnar.

Léttar veitingar og skemmtilegar uppákomur verða í útgáfuhófinu.

Finna má nánar um viðburðinn hér.


Sunnudaginn 27. október kl. 11:00 verður hátíðarmessa vegna vígsluafmælis Hallgrímskirkju.

Þar verður frumflutt verk Daníels Þorsteinssonar, Toccata yfir Gefðu að móðurmálið mitt, í tilefni af 350 ára ártíð Hallgríms Péturssonar.

Þennan sama sunnudag 27. október kl. 17:00 verður lokaviðburður Hallgrímshátíðar.

Það er flutningur á Hallgrímspassíu, sem er 70 mínútna óratoría eftir íslenska tónskáldið Sigurð Sævarsson.

Flytjendur eru Kór Hallgrímskirkju og Kammersveit Reykjavíkur.

Konsertmeistari Kammersveitarinnar er Una Sveinbjarnardóttir.

Steinar Logi Helgason stjórnar og Björn Steinar Sólbergsson leikur á orgel.

Einsöng syngja Jóhann Smári Sævarsson bassi, Fjölnir Ólafsson barítón, Stefán Sigurjónsson bassi, Þorsteinn Freyr Sigurðsson tenór, Þorbjörn Rúnarsson tenór og Hildigunnur Einarsdóttir alt.

Finna má nánar um viðburðinn hér og á heimasíðu Hallgrímskirkju.



HALLGRÍMUR PÉTURSSON 1614–1674

Hallgrímur er þekktasta sálmaskáld Íslands, en hann orti einnig mikið af veraldlegum ljóðum og vísum.

Passíusálmarnir, hans helsta verk, hafa verið gefnir út oftar en nokkur önnur íslensk bók og þýddir á fjölda erlendra tungumála.

Óháð trú og lífsskoðunum hefur fólk hrifist af þeim og notið þeirra.

Enn þann dag í dag veita þeir ólíkum listamönnum innblástur til frekari sköpunar. Eiginhandarrit Hallgríms Péturssonar að Passíusálmunum er varðveitt í Þjóðarbókhlöðunni og er á heimsminjaskrá UNESCO.

Hallgrímur er talinn fæddur á bæ afa síns og ömmu í Gröf á Höfðaströnd.

Hann fluttist þaðan á biskupssetrið að Hólum í Hjaltadal þar sem faðir hans þjónaði sem hringjari.

Hallgrímur gekk um hríð í Hólaskóla en fór ungur að heiman til Glückstad, sem er nú í Norður-Þýskalandi, og þaðan til Kaupmannahafnar.

Þar lærði hann í fyrstu til járnsmiðs en Brynjólfur Sveinsson, þá konrektor í Hróarskeldu, kom honum í Vor-Frúarskóla.

Þegar Hallgrímur var á síðasta ári í náminu var hann fenginn til að hafa umsjón með hópi Íslendinga sem kominn var til Kaupmannahafnar eftir að hafa verið leystur úr margra ára ánauð í Alsír.

Hátt í 400 Íslendingar voru herleiddir í Tyrkjaráninu svokallaða 1627 en aðeins um tíundi hluti þeirra átti afturkvæmt til Íslands.

Meðal hinna útleystu var Guðríður Símonardóttir (1598 – 1682).

Milli Hallgríms og hennar tókust ástir og fljótlega var Guðríður orðin barnshafandi.

Í kjölfarið sigldu þau til Íslands án þess að Hallgrímur næði að ljúka námi.

Í nokkur ár bjuggu þau við sára fátækt á Suðurnesjum uns Brynjólfur, sem þá var orðinn Skálholtsbiskup, tók aftur til sinna ráða og vígði Hallgrím til prests í Hvalsnesi árið 1644.

Það ögraði sumum að snauðum manninum væri þannig lyft upp í raðir embættismanna, en með visku sinni, trú og ræðusnilld náði Hallgrímur að sýna hvað í honum bjó.

Árið 1651 fékk Hallgrímur veitingu fyrir Saurbæ á Hvalfjarðarströnd sem var gott brauð á þeirrar tíðar mælikvarða.

Þar blómstraði Hallgrímur og orti flest af því sem hann er kunnastur fyrir.

Þeim Guðríði fæddust nokkur börn en þó náði aðeins frumburðurinn Eyjólfur fullorðinsaldri, giftist og eignaðist afkomendur.

Steinunn dóttir þeirra lést á fjórða ári og það var Hallgrími mikill harmur eins og lesa má í ljóðum sem hann orti eftir barnið.

Þekktur er einnig steinn sem hann hjó nafn hennar í og er nú varðveittur í Hvalsneskirkju.

 

slg


  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Trúin

  • Útgáfa

  • Viðburður

  • Kirkjustaðir

Sandgerðiskirkja

Jazzverk um Allt eins og blómstrið eina

17. okt. 2024
... Hallgrímshátíð í Sandgerðiskirkju
Hvalsneskirkja

Hallgrímshátíð í Hvalsneskirkju

17. okt. 2024
...í tilefni af 350. ártíð Hallgríms Péturssonar
Mynd með frétt austurland.jpg - mynd

Biskup Íslands á Austurlandi

16. okt. 2024
...skrifstofa biskups verður reglulega á landsbyggðinni