Kærleiksþjónustan er forsenda þess að kirkjan lifi

24. október 2024

Kærleiksþjónustan er forsenda þess að kirkjan lifi

Unnur Halldórsdóttir djákni

Unnur Halldórsdóttir er fyrsti menntaði djákninn sem fékk vígslu hér á landi og fyrsta konan sem hlaut slíka vígslu.

Hún var vígð í Dómkirkjunni í Reykjavík þann 28. nóvember árið 1965 og því verða 60 ár á næsta ári frá því hún fékk vígslu.

Fréttaritari kirkjan.is lagði leið sína á heimli Unnar og sr. Tómasar Sveinssonar sem þjónaði lengst af sem sóknarprestur við Háteigskirkju í Reykjavík.

Fyrsta spurningin sem lögð var fyrir Unni var:


Nú ert þú fyrsti menntaði djákninn sem fékk vígslu á Íslandi og fyrsta konan.

Hvað varð til þess að þú fórst í djáknanám og hvar gastu lært þessi fræði?

„Þegar ég var búin með fóstrunám þá fór ég að vinna inni á Kleppi og var búin að vera mikið í starfi hjá KFUK.

Það var annar tími þá.

Það var ósköp ömurlegt að upplifa starfið á Kleppi og þar sá ég aðra hlið á mannlífinu en ég hafði séð áður.

Það rótaði svolítið upp í mér og það opnuðust augu mín fyrir margbreytileika lífsins þannig að það læddist að mér þessi hugsun hvort það væri ekki einhver flötur innan kirkjunnar þar sem að ég gæti lagt svo málum lið.

Sérstaklega varðandi mannlega reisn og hjálp og stuðning við fólk sem þurfti á því að halda.

Einar Sigurbjörnsson var á svipuðu reki og ég og við höfðum kynnst í KSS og þetta berst í tal okkar á milli með þessa löngun mína.

Hann bar þetta í föður sinn sem verður til þess að boltinn fer að rúlla.“

 

Hvaða ár var þetta?

„Þetta var árið 1963.

Þetta leiðir eitt af öðru og hann hafði áhuga á því að ég færi í djáknanám því hann þekkti það frá Svíþjóð.

Hann þekkti vel Bengt Ture Molander sem hafði starfað í Genf hjá Lútherska heimssambandinu til margra ára en var á þessum tíma forstöðumaður á Samariterhemmet sem var m.a. menntastofnun fyrir verðandi djákna.

Það var sem sagt fyrir orð Sigurbjörns biskups að ég fór á Samariterhemmet í Uppsölum og lenti þar með úrvals fólki sem tók mér opnum örmum og leiddi mig í gegnum allt prógramið þar.“

 

Hvað var þetta langt nám?

„Af því að ég var búin með fóstruskólann, þá var þetta aðeins eitt ár til viðbótar.

Það var lagt upp með það að við þurftum að hafa einhverja starfsmenntun.

Venjulegast voru þetta kennarar, hjúkrunarfræðingar, félagsráðgjafar og nokkrir guðfræðingar.

Þarna eignaðist ég vini til lífstíðar.“

 

Þú varst vígð til þjónustu við Hallgrímskirkju.

Hvernig kom það til?

„Svo kom ég heim og talaði við Sigurbjörn biskup.

Hann vildi að ég kæmi til starfa og tæki vígslu.

Söfnuðir voru fátækir þá, en hann bar Hallgrímssöfnuð sérstaklega fyrir brjósti og hlutaðist til um að ég færi þangað.

Til þess að mæta því þá var ég ráðin í hálft starf hjá æskulýðsstarfi kirkjunnar og í hálft starf hjá Hallgrímssöfnuði.

Ég átti að sjá um barnastarfið og húsvitjanir.

Og svo var ég á æskulýðsskrifstofunni.

Þetta æxlaðist þannig að ég var meira yfir veturinn í Hallgrímskirkju og yfir sumarið í æskulýðsstarfinu og vann þá í sumarbúðum þjóðkirkjunnar.“

 

Barnastarf og heimsóknir til aldraðra var aðalstarf þitt í Hallgrímskirkju?

„Já en það var svo miklu meira.

Ég kom á fót aldursskiptu starfi fyrir börn.

Ég var með litla hópa sem var skráð var inní, 12-14 börn á síðasta ári fyrir skóla á virkum dögum.

Þetta voru tveir til þrír hópar fimm og sex ára barna sem voru í svona tvo tíma og ég kenndi þeim biblíusögur, bænir og barnasálmana okkar fallegu.

Á þessum fjórum árum voru tvö börn sem tóku þátt í starfinu sem misstu foreldri sitt.

Og þá fann ég hvað ég gat gert mikið gagn.

Ég var fjögur ár í Hallgrímskirkju og fimm ár hjá æskulýðsstarfinu.

Þetta var mjög sérstakur tími.

Þá var ekkert húsnæði annað en kjallarinn sem er undir kór kirkjunnar, en þar fóru messur fram og allt annað starf í söfnuðinum.

Þar var sunnudagaskólinn og hann var mjög vel sóttur.

Og svo byrjaði ég með þessa litlu hópa og það voru allir morgnar sem ég var í því og tvo eftirmiðdaga.

Til þess að geta það þá fengum við húsnæði lánað hjá múrarafélaginu.

Þeir áttu félgasheimili upp á Freyjugötu.

Þeir lánuðu okkur húsnæðið endurgjaldslaust, en svo fór kirkjan smám saman að koma uppúr jörðinni og þá byrjaði ég með starf fyrir 6-9 ára og 10-12 ára og svo æskulýðsfélag.

Á vegum æskulýðsstarfs kirkjunnar fór ég svolítið í ferðir út á land.

Fólk úti á landi vildi koma upp sunnudagaskóla og það var verið að stofna æskulýðsfélög og þá vildi fólk að ég kæmi og reyndi að peppa það upp og svo voru það sumarbúðirnar í fjögur sumur.“

 

Þetta hefur nú verið svolítið meira en hálft starf.

„Já, en það var ekkert barnastarf í Hallgrímskirkju yfir sumarið og svo skaraðist þetta við æskulýðsstarfið og þegar maður er ungur og áhugasamur og hefur ekkert annað að hugsa um þá er maður ekki að telja tímana.

En yfir veturinn var mjög mikið starf í kirkjunni.

Kirkjan fór smám saman að koma upp úr jörðinni og þá gátum við farið að vera inni í norður salnum, en þetta var allt undir stillönsum, en það hafði sinn sjarma og var ótrúlega vel sótt.

Í hverjum hópi voru á milli 50 og 80 börn nema í æskulýðsfélaginu þar voru þau um 30.

Og þetta var allt á virkum dögum.

Sunnudagaskólinn var kl. 10:00 á sunnudagsmorgnum og var afar vel sóttur og þá komu afarnir gjarnan með.

Þetta er fyrir tíma sjónvarpsins svo það var ekkert betra við að vera.“



Nú hófst djáknanám við Háskóla Íslands í lok síðustu aldar.

Hvað finnst þér um námið þar?

„Við vorum þrjú í nefnd til að undirbúa námið.

Það var Ragnehiður Sverrisdóttir, Einar Sigurbjörnssson og ég.

Það var Ólafur Skúlason biskup sem setti þá nefnd á koppinn og studdi við það mjög dyggilega.

 

Var það fyrir þína hvatningu?

„Ég hugsa að það hafi ekkert spillt.

Við hvöttum öll þessi þrjú til þess að þetta yrði.

Þá var Ragnheiður Sverrisdóttir komin heim, hún vígðist til djáknaþjónustu í Uppsölum og starfaði þar um árabil.

Síðan fer Jóhanna Sigmarsdóttir í djáknanám á Samariterhemmet þar sem bæði ég og Ragnheiður lærðum.

Jóhanna vígðist aldrei sem djákni, en lærði síðan guðfræði og vígðist sem prestur.“

 

Hvað finnst þér um námið í dag?

„Mér fannst við hafa sett þetta vel af stað að því leyti að leggja áherslu á að fólk væri með sérmenntun og bætti djáknanáminu við.

Mér finnst það enn í dag vera rétt leið því þá getur fólk breikkað sérfræðiþekkingu starfsfólks innan safnaðarins.

Og mér finnst liggja í augum uppi að þannig veiti kirkjan breiðari og betri þjónustu, með því að hafa fjölbreyttari menntun starfsfólks.

Það hefur farið, að mínu mati, of mikið í að fólk fari í þetta þriggja ára nám og þá er það ekki alltaf með neina sérmenntun þegar það kemur í djáknanámið, engin kennslufræði, engin hjúkrun eða neitt slíkt.

Ég er enn svolítið hrædd um að það ruglist saman starf prests og starf djákna.

Þetta er sitt hvort.“

 

Hver er aðalmunurinn?

„Mjög einfaldlega að prestarnir vinna prédikunarstarfið og djáknarnir halda utan um kærleiksþjónustuna.

 

Finnst þér að djáknar eigi ekki að prédika?

„Að öllu jafna finnst mér það ekki.“



Hvernig finnst þér djáknaþjónustan hafa þróast í þjóðkirkjunni?

Mér finnst hún stundum fara aðeins of mikið í að ganga í hefðbundin störf prestsins í stað þess að auka við og þróa meiri uppbyggingu og fjölbreytni í starfi kirkjunnar.

Margt er vel gert bæði á stofnunum og í söfnuðum.

Í mér er uggur um að þessum störfum sé blandað of mikið saman.

En saman vinna prestar og djáknar að því að gera kirkjuna sýnilega og leiða fólk til trúar.


Hver er að þínu mati framtíð díakoníunnar í þjóðkirkjunni?

Ég sé fyrir mér djákna fyrst og fremst beita sér fyrir og vinna að virkri og breiðri kærleiksþjónustu í söfnuðunum og leiða fólk saman til góðra verka og uppbyggingar.

 

Nú stöndum við frammi fyrir prestaskorti!

„Já, og mér finnst það ekki megi leysast með því að taka djákna í það.

Ég hjó eftir því þegar ég hlustaði á biskupskandidatana í vor að prestaskortinum mætti mæta með djáknum.

Það vantar líka svo miklu meira leikmannastarf í söfnuðunum í Reykjavík og það kemur ekkert af sjálfu sér.

Það þarf einhver að leiðbeina og hvetja sem kann til verka.

Og þegar það er komið fleira starfsfólk þá þarf að vera einhver tengiliður á milli starfsfólks og leikmanna og það finnst mér vera hlutverk djákna, að virkja leikmenn betur.

Það er nóg fyrir prestinn að gera í sinni boðun og sinni þjónustu.“


Nú hefur þú starfað alla ævi innan kirkjunnar.

Geturðu sagt mér frá eftirminnilegum atvikum úr starfinu?

„Þetta hefur allt verið mjög skemmtilegt.

Og svo þegar maður er orðinn leiður þá fær maður klapp á bakið.

Þá kemur einhver og segir eitthvað gott við mann.

Það var einu sinni gömul kona sem kom til mín á Löngumýri.

Hún sagði að dóttir hennar hefði verið hjá mér í barna og unglingastarfinu í Hallgrímssókn.

Þessi stúlka lést síðan af slysförum og gamla konan sagði að það hefði verið svo gott að vita af því að hún hefði verið í kirkjustarfi.

Það var okkur svo mikil huggun að hún hefði verið í starfinu, sagði hún.

Svona eru ýmis atvik sem gera mann upplitsdjarfari.

 

Að lokum: Eftirminnilegt fólk sem þú hefur kynnst!

„Já, það er náttúrulega svo mikið af þessum krökkum með alls kyns hæfileika og athugasemdir.

Svo voru það kennarar mínir úti í Uppsölum sem ég hélt sambandi við alla tíð.

Það er mér allt mjög eftirminnilegt og svo auðvitað Sigurbjörn Einarsson sem studdi mjög vel við mig og reyndist mér vel.

Það er afskaplega margt fólk sem ég hef kynnst á lífsleiðinni einmitt í gegnum þetta starf, bæði í prestastétt, djáknastétt, organistum og ekki síst kvenfélagskonum, sem er afskaplega merkilegur hópur.

Mér var mjög vel tekið þegar ég kom hérna kornung og vígslan í Dómkirkjunni vakti töluverða athygli og það komu myndir í blöðunum og viðtöl við mig í útvarpi.

Þetta vakti þannig eftirtekt að öll þessi fjögur ár var ég beðin um að koma í safnaðarfélög, saumaklúbba og alls konar samkomur til að kynna starfið.

Ég tel að kærleiksþjónustan sé forsenda þess að kirkjan lifi“

segir Unnur Halldórsdóttir djákni að lokum.

 

slg



  • Barnastarf

  • Eldri borgarar

  • Fræðsla

  • Kærleiksþjónusta

  • Leikmenn

  • Prestar og djáknar

  • Sálgæsla

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar