Kirkjan er akkeri trúarlífs, góðra gilda og mannræktar í landinu

26. október 2024

Kirkjan er akkeri trúarlífs, góðra gilda og mannræktar í landinu

Dómsmálaráðherra, forseti kirkjuþings og biskup Íslands

Kirkjuþing var sett í morgun 26. október í Háteigskirkju í Reykjavík.

Hófst það með helgistund í umsjá biskups Íslands Guðrúnar Karls Helgudóttur.

Þá flutti Drífa Hjartardóttir forseti kirkjuþings ávarp og setti þingið.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra ávarpaði þingið og að lokum flutti biskup Íslands ávarp.

Á milli ávarpanna flutti sönghópurinn Kyrja dásamlega fallegan söng.

Hér mun verða stiklað á stóru á því sem fram kom í ávörpum þeim sem flutt voru við setningarathöfnina.

Forseti kirkjuþings, Drífa Hjartardóttir sagði í ávarpi sínu frá því að á þessu kirkjuþingi væri áhersla á æskulýðsmál, stöðu og vettvang leikmanna í kirkjunni, fræðslumál, skipulagsmál o.fl.

Hún sagði:

„Í Þjóðkirkjunni eru nú rúmlega 223 þúsund manns og við sem erum kjörin til að sitja á kirkjuþingi erum fulltrúar þeirra.

Safnaðarfólkið er undirstaðan í kirkjunni og í raun kirkjan sjálf.

Við sem kjörin erum til kirkjuþings komum af öllu landinu, með ólíkan bakgrunn og höfum ólík viðhorf og sjónarmið til þeirra verkefna sem bíða okkar á þessu kirkjuþingi.

Við munum takast á með orðum, rökræða, taka rökum, vera sammála eða ósammála.

Kirkjuþing er sá vettvangur þar sem vígðir og leikmenn geta rætt saman með lögformlegum hætti“ sagði Drífa og bætti við:

„Í þessu sambandi er vert að nefna að ánægjulegt er að málefni æskulýðsins skuli hafa, bæði hjá kirkjuþingi en ekki síður hjá biskupi Íslands og víðar, fengið þá áherslu, athygli og umfjöllun innan kirkjunnar undanfarin ár, sem raun ber vitni.

Það er bæði mikilvægt og réttmætt.“

Þá ræddi forseti um kirkjudaga þjóðkirkjunnar sem haldnir voru í lok ágúst og sagði:

„Kirkjudagar voru haldnir í lok ágúst mánaðar undir yfirskriftinni Sælir eru friðflytjendur.

Dagskrá var fjölbreytt og metnaðarfull.

Vel tókst til í alla staði og þátttaka í hinum ýmsu viðburðum góð“

segir hún og bætir við:

„Sérstaklega var ánægjulegt að 250 félagar úr kirkjukórum um land allt, sem sungið hafa í 30 ár eða lengur hlutu heiðursviðurkenninguna Liljuna.

Kirkjudögum lauk með einstaklega hátíðlegri vígslu nýkjörins biskups Íslands, Guðrúnar Karls Helgudóttur.“

Sagðist forseti vera sannfærð um að vígsluathöfnin, innihald hennar og umgjörð, slái tóninn fyrir gifturíka framtíð biskups og þar með þjóðkirkjunnar allrar.

Í lok máls síns ræddi forseti um sílækkandi sóknargjöld sem hún telur óviðunandi og sagði:

„Friðaðar kirkjur eru nú um 215 talsins og langflestar í eigu og á ábyrgð safnaða. Sjálfboðin þjónusta þjóðkirkjufólksins er lykilatriði við rækslu þessara samfélagsverkefna.

Hver væri staðan ef þessa framlags þjóðkirkjufólks nyti ekki við?

Þjóðfélagið allt stendur í mikilli þakkarskuld við allt það fólk sem sýnt hefur þessa ábyrgð og hollustu við samfélag sitt.

Vegna þessara sérstöku viðbótarskyldna þjóðkirkjunnar sem felst í lögboðinni þjónustuskyldu hennar, varðveisluskyldu menningarverðmæta og veitingar almannaþjónustu kirkjugarða, renna sóknargjöld hennar bæði til almennrar kirkjulegrar starfsemi en einnig til þessara sérstöku viðbótarskyldna sömuleiðis.

Þarna er augljós mismunun milli trúfélaga.

Fjárhagslegar skuldbindingar þjóðkirkjunnar eru miklu meiri en annarra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga.“

Í lokaorðum sínum vitnaði Drífa í ljóð eftir Sigurbjörn Þorkelsson og sagði:

„Megi störf þingsins og samfélag okkar hér vera blessað af Guði og kirkjunni til heilla.“

 

Eftir söng sönghópsins Kyrju flutti dómsmálaráðherra Guðrún Hafsteinsdóttir ávarp og sagði meðal annars:

„Kirkjan hefur um aldir gegnt lykilhlutverki í menntun og uppfræðslu.

Á vettvangi hennar og fyrir áhrif hennar var stuðlað að lestrarfæri og ritfærni.

Kristin trú hafði og hefur enn áhrif á gildi sem tengjast uppeldi og menntun, samkennd og ábyrgð.

Nú í seinni tíð er hins vegar kappkostað að skilja á milli kirkjulegs starfs annars vegar og starfs grunnskólans hins vegar.

Það þykir mér mjög miður.

Hvernig má það vera að heimsókn barna í kirkju á aðventunni sé ekki lengur talið til góðs?“

Hún lagði áherslu á áhrif kristinnar trúar á menningarlíf okkar þjóðar og sagði:

„Kristin trú og kirkjuleg áhrif birtast í bókmenntum, listum, tónlist og raunar hvarvetna í menningu okkar og menningararfi.

Mikið af helstu verkum íslenskrar bókmenntasögu, eins og sögulegar frásagnir, ljóð og sálmar, eru tengd kristnum trúarhugmyndum.

Kirkjutónlist og trúarleg listaverk hafa líka verið mikilvægur hluti af menningararfinum.

Kristin trú hafði og hefur enn áhrif á gildi sem tengjast uppeldi og menntun, samkennd og ábyrgð.

Nú í seinni tíð er hins vegar kappkostað að skilja á milli kirkjulegs starfs annars vegar og starfs grunnskólans hins vegar.

Það þykir mér mjög miður.

Hvernig má það vera að heimsókn barna í kirkju á aðventunni sé ekki lengur talið til góðs?“

Þá vék hún að fjármálum kirkjunnar og sagði:

„Ég hef reynt að leggja mitt af mörkum til að greiða úr ágreiningi ríkis og kirkju um fjárveitingar ríkisins.

Til dæmis skipaði ég starfshóp sem hefur það hlutverk að endurskoða fyrirkomulag sóknargjalda, sem er að mínu mati afar brýnt verkefni.

Niðurskurður sóknargjalda hefur verið viðvarandi síðustu ár og frá árinu 2008 hafa árlega komið inn bráðabirgðaákvæði í lög sem kveða á um lægri sóknargjöld en ákvæði laga um sóknargjöld gera ráð fyrir.

Það er auðséð að núverandi fyrirkomulag gengur ekki til lengdar og því mun hópurinn t.d. athuga hvort nauðsynlegt sé að breyta lögum eða framkvæmdinni, og eftir atvikum gera tillögur að fjárhæð sóknargjalda með hliðsjón af þörfum trúfélaga og lífsskoðunarfélaga en einnig rekstri ríkissjóðs.“

Lokaorð dómsmálaráðherra voru þessi:

„ Látum trúna vera leiðarljós og notum hana til að efla samstöðu, stuðning og samhug í samfélaginu okkar.“

 

Í lok setningarathafnarinnar flutti biskup Íslands ávarp þar sem hún sagði meðal annars:

"Ég er bjartsýn fyrir hönd kirkjunnar og þessi bjartsýni eykst með hverjum degi á biskupsstóli.

Ég tel mig reyndar hafa góða ástæðu fyrir bjartsýni því ýmis teikn eru á lofti um bætta stöðu þjóðkirkjunnar í samfélaginu.

Nýjustu tölur frá Þjóðskrá Íslands benda til viðsnúnings í skráningum í Þjóðkirkjuna, en nú hafa í fyrsta sinn í mörg ár fleiri skráð sig í kirkjuna er úr.“

 

Þá vék hún að skipulagsmálum innan þjóðkirkjunnar og sagði:

„Biskupafundur er nú að hefja vinnu við að endurskoða og endurmeta vígða þjónustu kirkjunnar um landið allt.

Það gerum við með það að leiðarljósi að veita gæðaþjónustu á sem flestum stöðum þrátt fyrir að við horfum nú fram á skort á prestum.

Það er ekki til neins að loka augunum fyrir þeim vandamálum er við okkur blasa og við verðum að vera óhrædd við að horfast í augu við þau og taka á þeim.

Við stöndum nú frammi fyrir prestaskorti og þeirri staðreynd að sumar stöður er erfiðara að manna en aðrar.

Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti og nú er komið að því að huga að þjónustu kirkjunnar með skapandi hætti og jafnvel fara nýjar leiðir í þjónustunni á þeim stöðum sem erfitt hefur verið að manna“

sagði hún og bætti við:

„Ég lít á það sem eitt af hlutverkum biskups að lyfta kirkjunni upp í samfélaginu og auka sýnileika hennar, en það geri ég sannarlega ekki ein heldur með kirkjufólki um land allt, með ykkur.

Til þess að sinna þessu hlutverki tel ég nauðsynlegt að biskup og starfsfólk Biskupsstofu sé í beinu og milliliðalausu sambandi við sem flest kirkjufólk vítt og breitt um landið.

Hluti af þessu er sú nýbreytni í þjónustu biskups að bjóða upp á færanlega skrifstofu með reglulegu millibili í hverjum landshluta.

Fyrsta skrifstofan var á Austurlandi í síðustu viku og var sú ferð ákaflega vel heppnuð.

Næst á dagskrá er ferð á Suðurlandið í nóvember, á Norðurland í janúar og á Vestfirði í maí.

Það er nauðsynlegt fyrir biskup að vera í tengslum við kirkjufólk um landið og að kynnast veruleika þeirra er starfa við ólíkar aðstæður.

Þá er ekki síður mikilvægt fyrir fólk um allt land að hafa eins greiðan aðgang að biskupi og mögulegt er.“

Að lokum vék biskup að störfum kirkjuþings og sagði:

„Kirkjuþingið verður að vera kjarkmikið og óhrætt þegar kemur að því að móta framtíð kirkjunnar og ekki síst treysta Guði sem gerir veg um eyðimörkina og fljót í auðninni.

Kirkjufólk um land allt fylgist með kirkjuþingi því hér eru teknar ákvarðanir er varða framtíð kirkjunnar.

Því er svo mikilvægt að kirkjuþing gangi á undan með góðu fordæmi er varðar samvinnu, traust og virðingu fyrir náunganum.

Traust kemur ekki sjálfkrafa heldur er það er áunnið.

Viðmót, ákvörðun, heiðarleiki og góð sjálfsþekking er grundvöllur góðrar samvinnu.“

Að lokum þakkaði biskup kirkjuþingsfulltrúum fyrir störf þeirra og bætti við:

„Þá vil ég nota þetta tækifæri til þess að þakka forvera mínum frú Agnesi M Sigurðardóttur fyrir hennar dyggu og trúu þjónustu við Þjóðkirkju Íslands.“


slg


Myndir með frétt

Dómsmálaráðherra, forseti kirkjuþings og biskup Íslands
  • Biskup

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Kirkjuþing

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Prestarnir Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir og Toshiki Toma ásamt Olgu Khodos

Manneskjan er flóknasti og fallegasti leyndardómur tilverunnar.

20. nóv. 2024
...segir Olga Khodos sálfræðingur frá Úkraínu
Grensáskirkja gnæfir yfir byggðina

Jólaaðstoð Hjálparstarfsins kynnt

20. nóv. 2024
...hjá Vinum Hjálparstarfsins
Hrönn Guðjónsdóttir

Mikilvægt að nudda ungbörnin

19. nóv. 2024
...fræðslumorgunn á foreldramorgni