Mikið um dýrðir í Skálholti um síðastliðna helgi

29. október 2024

Mikið um dýrðir í Skálholti um síðastliðna helgi

Nokkur mættu í Valgerðartísku á fyrirlesturinn

Laugardaginn 26. október var að vanda leiðsögn um Skálholtsdómkirkju og staðinn.

Að þessu sinni var boðið upp á vandaðan fyrirlestur Halldóru Kristinsdóttur um skörunginn og snillinginn Valgerði Jónsdóttur (1771-1856), biskupsfrú í Skálholti.

Á sunnudaginn var svo 350 ára ártíð Hallgríms Péturssonar minnst í hámessu, með sérstakri áherslu á sálminn ástkæra Um dauðans óvissa tíma, sem tengist staðnum órjúfanlegum böndum.

Halldóra er sérfræðingur á handritasafni Landsbókasafnsins og hefur rannsakað ævi og störf Valgerðar, sérstaklega út frá bréfum sem hún skrifaði sjálf og þeim sem henni voru send.

Í fyrirlestrinum kom Halldóra inn á umsvif og atvinnurekstur Valgerðar, sem og fjölbreytt og stórbrotið lífshlaup hennar en hún giftist tveimur biskupum, þeim Hannesi Finnssyni og Steingrími Jónssyni.

Mikill aldursmunur var á þeim Hannesi og varð Valgerður ekkja eftir hann aðeins 25 ára gömul.

Þá stóð Valgerður ein fyrir búi í Skálholti um áratugs skeið áður en hún giftist Steingrími, sem síðar varð biskup yfir Íslandi.

Í fyrirlestrinum kom fram að Valgerður var yfirstéttarkona, af ríkum ættum, vel menntuð og gáfuð.

Hún safnaði miklum auði, stóð í viðskiptum og var ein ríkasta kona Íslands á sínum tíma.

En hún var líka dóttir, eiginkona, móðir og amma.

Heimildir um Valgerði sýna líka vel tíðaranda og aðstæður allar á fyrri hluta 19. aldar á Íslandi.

Fyrirlestrasalurinn í Skálholtsskóla var þéttsetinn, bæði af heimafólki og lengra að komnum.

Að fyrirlestrinum loknum var haldið til kirkjunnar sjálfrar og minjar tengdar Valgerði skoðaðar.

Á sunnudeginum var svo haldin Hallgrímsmessa í tilefni af 350 ára ártíð Hallgríms Péturssonar, eins og á svo mörgum stöðum.

Í Skálholti var athyglinni sérstaklega beint að sálminum ástkæra Um dauðans óvissa tíma sem Hallgrímur gaf Ragnheiði Brynjólfsdóttur í eiginhandriti, og hefur síðan verið sunginn við útfarir og kveðjustundir flestra Íslendinga.

Í prédikun voru vers sálmsins íhuguð og útlögð.

Sungnir voru aðrir sálmar eftir Hallgrím enda mikill fjársjóður í því safni.

Kristín Þórunn Tómasdóttir er sóknarprestur í Skálholtsprestakalli.

“Það er alltaf stórkostlegt að fá að þjóna í Skálholtsdómkirkju og þar finnum við kall hjartans til að mætast í tilbeiðslu og lofsöng.

Það var sérstaklega gefandi að geta lyft upp minningu Hallgríms Péturssonar á þessum degi og fá að þakka fyrir gjafir hans sem hafa nært trúarlíf okkar Íslendinga, í söng, íhugun og bænum”

segir sr. Kristín Þórunn.

Messað er hvern helgan dag í Skálholtsdómkirkju, kl. 11:00 á sunnudögum.

 

slg



Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Menning

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Fræðsla

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar