Kristniboðsdagurinn haldinn hátíðlegur um allt land

8. nóvember 2024

Kristniboðsdagurinn haldinn hátíðlegur um allt land

Fjórir prédikarar ferðast saman á hjóli

Sunnudaginn 10. nóvember er kristniboðsdagurinn haldinn hátíðlegur í kirkjum landsins.

Þennan dag verða kristniboðar og starfsfólk SÍK víða í kirkjum og segja frá starfinu og prédika.

Sigríður Schram sem er nú að búa sig undir að taka við stöðu framkvæmdastjóra SÍK mun tala í útvarpsguðsþjónustu sem send verður út frá Dómkirkjunni í Reykjavík kl. 11:00.

Elínborg Sturludóttir dómkirkjuprestur þjónar fyrir altari.

Guðlaugur Gunnarsson kristniboði prédikar í Hallgrímskirkju kl. 11:00, Kjartan Jónsson kristniboði prédikar í Seltjarnarneskirkju kl. 11:00 og verður með kynningu á kristniboðsstarfinu í Lindakirkju kl. 20:00.

Ásta B. Schram formaður SÍK verður á Akureyri og talar í fjölskylduguðsþjónustu í Glerárkirkju kl. 11:00.

Hún tekur einnig þátt í samveru í kirkjunni seinnipartinn og mun hitta kristniboðshópinn á Akureyri.

Á Álftanesi er haldið upp á kristniboðsdaginn viku seinna eða 17. nóvember.

Þar verður gestur frá SÍK, en hann verður auglýstur síðar.

Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri SÍK er staddur í Keníu og verður þar fram í miðjan nóvember.

Þar er hann m.a. að kenna leiðtogum kirkjunnar.

Með í ferðinni er Bryndís Róbertsdóttir móttökuritari skrifstofunnar.

Hægt er að fylgjast með ferðum þeirra á samfélagsmiðlum.

Kristniboðsdagurinn er helgaður köllun kirkjunnar til boðunar fagnaðarerindisins, ekki síst meðal annarra þjóða og þjóðarbrota sem hafa ekki haft tækifæri til að heyra fagnaðarerindið eða viðbrögð við því verið takmörkuð.

Kristinboðsstarfið einkennist af boðun og fræðslu annars vegar og kærleiksþjónustu hins vegar.

Kristniboðssambandið er 95 ára og að baki er kristniboðsstarf í Kína, Eþíópíu og Keníu.

Ekki eru kristniboðar frá Íslandi að störfum í þessum löndum eins og er, en stutt er við starfið í Afríkuríkjunum fjárhagslega, með samskiptum á netinu og reglulegum heimsóknum og þátttöku í uppfræðslu.

Starf Íslendinga í Konsó í Eþíópíu á sér nú 70 ára sögu og var nýútkominni Biblíu á konsómáli með latnesku letri fagnað í febrúar sem leið.

Bæði Biblíufélagið og Kristniboðssambandið studdu þá þýðingarvinnu.

Í Pókotsýslu í vestanverðri Keníu er uppbygging við fjóra framhaldsskóla í gangi með stuðningi utanríkisráðuneytisins.

Ein hjón eru að störfum í Japan og önnur í London.

Með vaxandi veraldarhyggju og fjölgun innflytjanda verður Evrópa æ mikilvægari kristniboðsakur.

Starfið í London miðar að því að ná til farsimælandi innflytjenda, einkum frá Íran, og er þar þegar dágóður söfnuður fyrir hendi.

Síðan er Kristniboðssambandið einnig samstarfsaðili Sat7 sem er fjölmiðlastarf til Norður-Afríku og Mið-Austurlanda.

Myndver eru í Kaíró og Beirút, en aðalstöðvar starfsins eru á Kýpur.

Megnið af sjónvarpsefninu er framleitt á svæðinu af heimamönnum og sent út á farsi, arabísku og tyrknesku.

Kristniboðssambandið styður einnig við Pak7 sem starfar í Pakistan og boðun með útvarpi til einangraðra svæða í Kína.

Fyrir utan samkomur, fundi og rekstur Basarsins býður Kristniboðssambandið tíunda árið í röð upp á ókeypis íslenskukennslu fyrir útlendinga tvo morgna í viku.

Gjafareikningur Kristniboðssambandsins er 0117-26-002800 og kennitalan 550269-4149 fyrir þau sem vilja styrkja starfið.

Forsíðumyndin sýnir prédikara, sem ferðast fjórir saman á sunnudegi og hoppa af hver á sínum stað til að boða fagnaðarerindið og sá sem fer lengst tekur þá upp á leið til baka.

Hér fyrir neðan má sjá einn af mörgum ánægðum nemendum í skólum í Keníu sem utanríkisráðuneytið hefur styrkt.

 

slg


Myndir með frétt

  • Biblían

  • Fræðsla

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustarf

  • Prestar og djáknar

  • Samstarf

  • Trúin

  • Alþjóðastarf

Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju
Orgelnemendur við Klais orgelið

Börn fengu að að spila á Klais orgelið

19. des. 2024
...jólatónleikar Tónskóla Þjóðkirkjunnar