„Við erum kirkja í sóknarhug, það er bjart framundan!"

18. nóvember 2024

„Við erum kirkja í sóknarhug, það er bjart framundan!"

Biskup og prófastur ásamt kirkjukór í Hrunakirkju

Sólríkur, stilltur og fallegur dagur var í gær, þegar Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands var mætt í Hruna til að setja inn nýjan prófast í Suðurprófastsdæmi, Óskar Hafstein Óskarsson, sóknarprest í Hrunaprestakalli.

Kirkjukórar prestakallsins sungu undir stjórn organistanna Þorbjargar Jóhannsdóttur og Eyrúnar Jónasdóttur.

Að sög Óskars Hafsteins var umtalað hve söngurinn var kröftugur og fallegur í kirkjunni.

„Formenn sóknanna fjögurra í Hrunaprestakalli lásu almenna kirkjubæn, Íris Sigurðardóttir, fullrúi í héraðsnefnd prófastsdæmisins og Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings lásu ritningarlestra“

segir Óskar Hafsteinn.

„Fermingarbörn úr prestakallinu báru síðan friðarkveðju út til allra í kirkjunni sem var afar áhrifaríkt.

Guðrún biskup talaði fallega til safnaðarins og nýja prófastsins og lagði áherslu á að mæta óttanum sem við öll glímum við með hugrekki.

Marta Esther Hjaltadóttir og Ninna Sif Svavarsdóttir sóknarprestur Hveragerðisprestakalls voru sérstakir vottar við innsetningarathöfnina og lögðu hendur yfir prófast ásamt biskupi í bæn“

segir hinn nýi prófastur.

Að athöfn lokinni buðu sóknirnar í Hrunaprestakalli til kaffisamsætis í félagsheimilinu á Flúðum en veitingarnar voru í umsjá Kvenfélags Hrunamannahrepps.

Í kaffisamsætinu ávarpaði Óskar Hafsteinn viðstadda og sagði m.a.:

,,Það er gott að vera umvafin góðu fólki eins og í dag.

Ég er bæði hrærður og þakklátur fyrir mætinguna.

Það gleður mig ósegjanlega að sjá ykkur öll, komandi úr ýmsum áttum og sum um langan veg.

Nærvera ykkar er mér ótrúlega mikils virði.

Það eru margar hendur og margar raddir sem koma að undirbúningi á svona degi.

Þá finnur maður svo vel hvað er gott að búa í góðu samfélagi þar sem við hjálpumst að. Hjartans þakkir þið öll sem lögðuð gott til í undirbúningnum.

Vandi fylgir vegsemd hverri; en með gott fólk allt um kring er ég sannfærður um að allir vegir eru færir.

Fallega fólk, vinir mínir!

Erindi kirkjunnar er mikilvægt sem aldrei fyrr og við búum yfir góðum mannauði á akrinum hér á Suðurlandi.

Saman, með Guðs hjálp, skulum við halda áfram að þétta raðirnar, vaxa og eflast.

Við erum kirkja í sóknarhug, það er bjart framundan!"

 

slg



  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Biskup

Fjölskylda Karls biskups

Erindið var alltaf skýrt

18. nóv. 2024
...fjölmenni við minningarmessu
hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.