Manneskjan er flóknasti og fallegasti leyndardómur tilverunnar.

20. nóvember 2024

Manneskjan er flóknasti og fallegasti leyndardómur tilverunnar.

Prestarnir Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir og Toshiki Toma ásamt Olgu Khodos

Málefni innflytjenda hafa mjög borið á góma að undanförnu.

Lítið hefur verið rætt um þann auð sem innflytjendur hafa gefið landi og þjóð, en sá auður er mikill.

Innflytjendur eru ekki aðeins vinnuafl, heldur hafa mörg þeirra auðgað menningu okkar og trú.

Toshiki Toma prestur innflytjenda á Íslandi benti fréttaritara kirkjan.is á að taka viðtal við Olgu Khodos, sem þjónar fólki sem hefur flúið frá heimalandi hennar Úkraínu.

Fyrsta spurningin sem lögð var fyrir Olgu var:

 

Þú ert sálfræðingur og ert að vinna við að hjálpa fólki sem hefur orðið fyrir miklu álagi.

Það hlýtur að vera mjög erfitt.

Geturðu sagt mér frá vinnu þinni og hvernig áhrif hún hefur á þig?

„Það er mjög erfitt að veita fólki sem hefur flúið hefur stríðsátök sálfræðiaðstoð.

Það er sérstaklega sársaukafullt vegna þess að fólk er að flýja stríð sem braust út á stað sem ég lít á sem paradís bernsku minnar, heimili mitt, þar sem foreldrar mínir og vinir búa, þar sem ég er fædd og upp alin, á stað sem ég elska óendanlega mikið.

Allt þetta fólk, mæður og börn koma til mín og segja mér frá dauða og ofbeldi.

Þau segja mér frá nágrönnum sem hafa verið myrtir og jarðaðir á leikvöllum.

Við tölum sama tungumálið, notum sömu orðin, þekkjum samhengið og skiljum hvert annað fullkomlega.

Á slíkum stundum getur andrúmsloftið orðið þungt, eins og steinn, því í þessum fjöldamorðum urðu ættingjar mínir eftir.

Mamma mín hefur orðið að sofa nótt eftir nótt við sírenuvæl og pabbi minn dó úr hjartaáfalli þegar stríðið byrjaði.

Vinir mínir og ættingjar fóru í stríðið eða gerðust sjálboðaliðar og gleymdu sjálfum sér.

Ég þjáðist mjög til að byrja með, en gerði mér svo fljótlega grein fyrir því að ég gæti gert eitthvað skapandi í þessum niðurbrjótandi aðstæðum.

Þetta er afstaða mín, eins og hermanns eða öllu heldur herlæknis.

Hugsunin var þessi: Gerðu það sem þú ert góð í.

Miðlaðu æðruleysi og seiglu, sem er mjög mikilvægt í starfi mínu.

Það er lykilatriði að vera sterk fyrir hina veiku og láta ekki eigin tilfinningar og sorg ganga yfir þau sem hafa upplifað þjáningar stríðsins.

Það hjálpar líka að ég er sálgreinir og mannfræðingur.

Ég hef lagt stund á að kynnast manneskjunni af því að mínu mati er manneskjan flóknasti og fallegasti leyndardómur tilverunnar.

Vísindaleg sýn á manneskjuna á erfiðum tímum eykur ómetanlega þekkingu um mannssálina og eðli ofbeldis.

Það gefur okkur tækifæri til að sjá hversu flókin og falleg mannssálin er og hvernig hún er uppbyggð.

Þessi reynsla kennir okkur þolinmæði, þekkingu á okkur sjálfum og sjálfsaga.

Hún kennir okkur að hlutsta vel hvert á annað og sjá hvert annað sem einstakar manneskjur og samþykkja öll eins og þau eru, án undantekninga.

Ég er núna að skrifa bók um það sem ég sé og heyri og upplifi í samskiptum mínum við aðra.

Það gerir mér kleift að hugsa um sjálfa mig og lýsa þessari hræðilegu reynslu um stríðið sem fléttast inn í líf mitt.“

 

Nú ert þú að vinna innan kirkjunnar, í Fíladelfíu, Áskirkju og Neskirkju.

Hefur það haft áhrif á þjónustuna við aðra og þig sjálfa?

„Afstaða prestanna sem hafa hjálpað mér, uppfyllir orð ritningarinnar „gjaldið keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er“.

Kirkjan blandar sér ekki í starf mitt og mér hefur aldrei fundist trú og vísindi stangast á eða að það hafi verið gerð tilraun til að gera lítið úr sálfræðinni.

Fyrir það er ég öllum prestunum óendanlega þakklát sem hafa sýnt mér og starfi mínu fullkomið traust.

Allar þrjár kirkjurnar hafa lánað mér herbergi endurgjaldslaust og í Áskirkju nota ég einfalt geymslurými fyrir viðtölin.

Þetta er lítið herbergi sem er fullt af alls konar hlutum, hljóðfærum, leikföngum, brúðuleikhúsum, yogamottum og fleiru af því tagi.

Allt þetta minnir á hluti sem tengjast minningum okkar og það að fá að vinna í þessu herbergi er ótrúlega þægilegt og táknrænt og ég leyfi mér að segja, hjálplegt því það er auðvelt fyrir fólk að kalla fram góðar minningar, skilja fortíðina og byggja upp nýtt samhengi í ljósi lífsreynslunnar.

Það er fleira sem er svo gott að fá að vinna í kirkjunum.

Mikilvægustu stundir lífsins upplifir fólk í kirkjunni, allt þetta sem gerist frá því við erum skírð og þar til við erum kvödd í kirkju.

Á sama tíma kemur fólk til mín og ræðir breytingarnar í öllu sínu lífi bæði hvað þau sjálf varðar og félagslega í þessum flóknu aðstæðum.

Þú getur ímyndað þér þessa stöðu:

Manneskja kemur til mín og talar um þessar róttæku breytingar í lífinu til dæmis að breytast úr unglingi í fullorðinn stríðsmann.

Eða kona kemur og talar um að breytast úr því að lifa í dótturhlutverki í að vera í móðurhlutverki og þá heyrum við söng Sinatra "My Way" á efri hæðinni í Neskirkju þar sem fram fer útför, þar sem verið er að kveðja líf einhvers.

Á sama tíma heyrum við börn hlæja á leikvellinum fyrir utan.

Og á kvöldin kemur fólk, sem hefur flúið, í kirkjuna að fá notuð föt.

Þetta er mjög flókið, en líka fallegt, þó orðin flókið og fallegt gætu líka verið andstæður.

Þetta er lífið sjálft og ég er glöð yfir því að fá þessa reynslu.


Kirkjur á Íslandi eru vafalaust ólíkar þeim sem þú þekkir frá heimalandi þínu.

Hver er aðalmunurinn að þínu mati?

Úkraína er sem betur fer mjög frjálsleg hvað varðar trúarbrögð og kirkjudeildir.

Þar er trúfrelsi svo það getur verið erfitt að svara þessu á einfaldan hátt.

Fyrir mér þá finn ég ekki mikinn mun, en allt þetta samræmist því sem ég tel mikilvægt.

Í sóknarkirkjunum hér er áhugavert að undir sama þaki er fermingarfræðsla, yogatímar, sálfræðingur að störfum, AA fundir og sjálfboðaliðar að safna fötum fyrir flóttafólk.

Þetta er líkt því sem var í orþódox kirkjunni í Kiew á meðan Euromaidan (sem voru mótmæli og uppreisn í Kiew í nóvember 2013) stóð og svo aftur núna í stríðinu.

Þá voru og eru kirkjur ekki aðeins að framkvæma trúarlegar athafnir, heldur einnig að stunda hjálparstarf til fólks í ýmsum aðstæðum.“

 

Nú hefur þú ákveðið að gerast lúthersk og ganga í þjóðkirkjuna.

Geturðu sagt okkur frá þeirri ákvörðun?

„Allt breyttist um leið og stríðið byrjaði.

Það er eins og ég hafi lifað hundrað líf áður en þetta tímabil hófst.

Ég hef lært mikið, fengið ýmislegt en lagt af annað og nú skil ég sumt sem ég skildi ekki áður.

Raunveruleikinn ruddist inn um dyrnar hjá okkur inn í þægilegan einkaheim hverrar manneskju og varð sumum þeirra að bana.

Orðið „við“ fékk alveg nýja merkingu.

Orðið stækkaði langt út fyrir ramma fjölskyldu eða þjóðar.

„Við“ erum eitthvað leyndardómsfullt af því að það varð til mjög skyndilega og óviðbúið við óvenjulegar aðstæður.

Á síðustu þremur árum birtist fólk í kringum mig og við urðum „við“.

Fólk sem á hljóðlátan hátt, af hógværð og trausti birtist við hlið mér, studdi mig þegar hlutirnir urðu óbærilega erfiðir og gáfu mér rými fyrir vinnu mína, glöddust þegar mér gekk vel, gáfu mér ráð þegar eitthvað var erfitt og þau deildu með mér vinnunni.

Þetta er reynsla sem er mér ómetanleg.

Í Fíladelfíu er fólk sem er mjög ólíkt, en á sama tíma líkt.

Þetta var í upphafi stríðsins og það var mjög margt flóttafólk þar í opnu húsi sem voru hlaupandi um eins og íkornar í hjóli, allan daginn.

Á þessum tíma var maðurinn minn á gjörgæslu og pabbi var nýdáinn af hjartaáfalli.

Einmitt þegar mér fannst eins og heimurinn væri að farast gekk ég inn í salinn í Fíladelfíu og horfði á Toshiki Toma gefa börnunum að borða, snýta þeim, tala við hrædda konu og hafa auga með öllu á sinn rólega hátt.

Hann var eins og Fuji fjallið fyrir mér, uppspretta friðar og trausts.

Á slíkum stundum hugsaði ég:

Toshiki er hér, Fulji stendur enn róleg eins og eilífðin.

Veröldin hrynur ekki ofan á höfuðið á mér.

Ég get gert hvað sem er.

Og svo fórum við hljóðlega að þrífa klósett, hreinsa salinn og undirbúa næsta dag.

Þetta er það sem gerir okkur að „við“ að lifa í sameiginlegri tilveru.


Var ekki erfitt að yfirgefa orþódox kirkjuna?

Er hún ekki svo stór þáttur í menningu ykkar?

„Þegar ég var barn var ég skírð í orþódox kirkjunni.

Þetta var hluti af menningu okkar, ekkert annað.

Fjölskylda mín var trúuð, en ekki kirkjurækin.

Þrátt fyrir það að frændi minn hafi verið prestur, var fjölskylda mín ekki kirkjurækin og  foreldrar mínir viðurkenndu  ekki að það þyrfti millilið milli Guðs og manns og að það þyrfti kirkjulega athöfn til að fá fyrirgefningu syndanna.

Ég er ekki viss um að foreldrar mínir hafi vitað um það hvar kertunum er komið fyrir í orþódoxkirkjunni, en þau sögðu: „notaðu hugann, stundaðu kærleika og gerðu eitthvað skapandi.“

Foreldrar mínir sýndu með lífi sínu að manneskjan ber ábyrgð á lífi sínu og samtal fólks við Guð þyrfti ekki að vera á hugleiðslunótum.

Svo ég get ekki sagt að að ég hafi yfirgefið neitt, miklu heldur að ég hafi valið eftir því sem ég sjálf vil.

Ég hef ekki hætt að vera afkomandi forfeðra minn og mæðra, en ég er fyrst og fremst einstaklingur og í öðru lagi hluti af hóp.“

 

Hvers væntir þú af þjóðkirkjunni í framtíðinni?

„Ég hef engar persónulegar væntingar.

Ég er hamingjusöm sem manneskja og að vera hluti af þessari heild.

Ég vil trúa því að þjóðkirkjan verði alltaf öllum opin.“

Viltu segja eitthvað við þjóðkirkjufólk?

„Heimurinn er síbreytilegur hvað varðar efni, viðburði og hugmyndir.

Stundum vekur sú staðreynd ótta hjá okkur því það er eins og við höfum þá ekki fast land undir fótum og við vitum ekki hvað er í vændum og það fyllir okkur kvíða.

En svo er hægt að horfa á þetta frá annarri hlið:

Ef það eru engir fordómar þá getum við fært heiminum mikla fegurð, við höfum val til að skapa okkar eigin hugsun, gert tilraunir og reynt hluti og þannig skapað traustan grunn í lífi okkar og það er að vera frjáls.

Mig langar að minna fólk á að fangelsi og frelsi byrja í höfðum okkar og við getum valið á milli þeirra.“

 

slg


Myndir með frétt

  • Biblían

  • Flóttafólk

  • Hjálparstarf

  • Kærleiksþjónusta

  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Sálgæsla

  • Samstarf

  • Sjálfboðaliðar

  • Þjóðkirkjan

  • Trúin

  • Úkraína

  • Alþjóðastarf

Grensáskirkja gnæfir yfir byggðina

Jólaaðstoð Hjálparstarfsins kynnt

20. nóv. 2024
...hjá Vinum Hjálparstarfsins
Hrönn Guðjónsdóttir

Mikilvægt að nudda ungbörnin

19. nóv. 2024
...fræðslumorgunn á foreldramorgni
Biskup og prófastur ásamt kirkjukór í Hrunakirkju

„Við erum kirkja í sóknarhug, það er bjart framundan!"

18. nóv. 2024
...segir hinn nýi prófastur Suðurlandspróafastsdæmis