Samvera fyrir syrgjendur
Landspítali og þjóðkirkjan bjóða til samveru fyrir syrgjendur í Háteigskirkju fimmtudaginn 28. nóvember kl. 20:00.
Tilgangur samverunnar er að koma saman og eiga nærandi stund, hlusta á fallega tónlist og uppörvandi texta.
Dagskráin er á þann veg að Arna Dögg Einarsdóttir yfirlæknir á líknardeild Landspítalans fer með ljóð.
Ragnheiður Gröndal syngur nokkur lög og Gunnar Rúnar Matthíasson sjúkrahúsprestur flytur hugvekju.
Ritningarlestrar verða fluttir og Kordía, kór Háteigskirkju, flytur fallega tónlist.
Stjórnandi kórsins er Erla Rut Káradóttir.
Kirkjugestum gefst tækifæri á að tendra kertaljós á minningarstund.
Ingólfur Hartvigsson sjúkrahúsprestur stýrir samverunni.
Samveran verður táknmálstúlkuð.
Léttar veitingar verða eftir samveruna.
Guðlaug Helga Ásgeirsdóttir sjúkrahúsprestur hefur skrifað grein á Vísi um hve sorgin geti níst sárt í kringum hátíðar og sérstaklega á aðventu og um jól.
Greinin fer hér á eftir:
„Skammdegið hefur gengið í garð með sínu alltumlykjandi myrkri þar sem dagsbirtan er af skornum skammti.
Á þessum tíma sem nú fer í hönd, aðventunni, þar sem við undirbúum jólahátíðina byrjum við að prýða umhverfi okkar, tendra ljós, innan- sem utandyra og leggjum áherslu á samveru með því fólki sem okkur þykir vænt um.
Ljósin gleðja og samveran yljar og við tengjum við góðar og uppbyggilegar tilfinningar.
Aðventan sem og jólahátíðín sjálf er þó ekki endilega ætíð tilhlökkunarefni heldur getur sannarlega vakið með sér kvíða, áhyggjur og almenna vanlíðan.
Ástæður þess geta verið margs konar þar sem t.d. áföll sem við höfum orðið fyrir í lífinu hafa getað mótað hvernig við upplifum þennan árstíma og haft þau áhrif að við sem manneskjur finnum fyrir sársauka fremur en gleði, friði eða jákvæðum og gefandi tilfinningum.
Þegar við stöndum frammi fyrir ástvinamissi getur tími jóla og aðventu jafnvel frekar haft í för með sér vanlíðan svo sem kvíða og sorg heldur en tilfinningar tengdar tilhlökkun, eftirvæntingu eða gleði.
Sorgin verður einhvern veginn áþreifanlegri en ella og við finnum sárt fyrir því að það vantar í hópinn kæran ástvin, vin eða vinkonu.
Við myndum vilja gera allt til þess að við fengjum enn ein jólin með þeim, enn einn jólaundirbúninginn og að við hefðum þau í kringum okkur.
Fengjum að njóta nærveru þeirra.
Þegar við erum í þessum sporum skiptir máli að við tökum tillit til tilfinninga okkar og bregðumst við þeim.
Það getum við gert t.d. með því að einfalda jólaundirbúninginn og jólahald okkar og hugsanlega skapað nýjar hefðir þar sem við minnumst á sérstakan hátt þeirra sem við syrgjum.
Margar fjölskyldur og vinahópar safnast t.d. saman á aðventu, Þorláksmessu eða aðfangadag við gröf þess sem saknað er og aðrir leggja áherslu á að tendra ljós á heimilum sínum og eiga sérstaka minningarstund.
Að skapa hefðir og geta fengið farveg fyrir sorgina er gríðarlega mikilvægt.
Til að mæta fólki sem er að takast á við sorg og ástvinamissi í aðdraganda jóla hefur um áratugaskeið verið haldin samvera á aðventu fyrir syrgjendur í samstarfi Landspítala og Þjóðkirkjunnar.
Að þessu sinni verður samveran haldin 28. nóvember n.k. kl. 20:00 í Háteigskirkju.
Áhersla er lögð á fallega tónlist og uppörvandi texta auk þess sem sérstök minningarstund er í samverunni þar sem ljós eru tendruð.
Samveran hefur í gegnum áratugina einkennst af mikilli hlýju, virðingu og samkennd og er opin öllum þeim sem á þurfa að halda.“
slg