Mikil ánægja með skólaheimsóknir á aðventunni um allt land
Það er mikið um það rætt á aðventunni hve mikil eftirsjá er af því að skólabörn og leikskólabörn komi í kirkjuheimsóknir fyrir jólin.
Í fyrra grennslaðist fréttaritari kirkjan.is um það hvort skólarnir væru ekki að koma í kirkjurnar.
Kom þá í ljós að kirkjuheimsóknir á aðventunni voru miklu algengari en fólk almennt hélt fram.
Nú fór fréttaritari aftur á stúfana og þá kom þetta í ljós:
Ingimar Helgason sóknarprestur á Kirkjubæjarklaustri segir:
„Leikskólakrakkarnir komu til mín í Minningarkapelluna fyrir nokkrum dögum.
Við kveiktum á aðventukransi, sungum jólasálma og lög, lásum fæðingarfrásögnina og spjölluðum heilan helling um hana.
Svo að lokum leysti ég þau út með piparkökum áður en þau gengu aftur á leikskólann.
Svo var mér boðið að koma í skólann og lesa jólaguðspjallið og vera með smá hugvekju fyrir krakkana á litlu jólunum þeirra, sem ég sannarlega þáði.
Mér hefur alltaf verið boðið að koma í skólann og samstarf okkar á milli hefur alltaf verið ákaflega gott“
segir Ingimar.
Þorvaldur Víðisson prestur í Fossvogsprestakalli segir:
„Í Fossvogsprestakalli eru tengsl kirkju og skóla í ágætum farvegi.
Leikskólinn Austurborg hefur sinn árlega helgileik í Grensáskirkju.
Þau leiða þá stund alveg sjálf, við komum ekkert að þeirri dagskrá, sem byggist á áralangri hefð.
Svo hafa Fossvogsskóli og Kvistaborg þegar komið í skólaheimsóknir á aðventunni í Bústaðakirkju og Breiðagerðisskóli kemur einnig til okkar.
Í Bústaðakirkju koma því um 1000 skólabörn í aðventuheimsókn núna fyrir jólin.
Þær stundir leiðum við prestarnir, þar sem Jónas Þórir organistinn okkar er á flyglinum og nemendur taka virkan þátt með söng, lestri og öðru.
Hvert sæti er setið þegar nemendur grunnskólanna tveggja koma til okkar, kirkjan er þá troðfull.
Ánægja hefur verið á báða bóga með samstarfið og dagskrána“
segir Þorvaldur og bætir við:
„Til viðbótar við þetta þá hélt Skólakór Álftamýrarskóla jólatónleika í Grensáskirkju í vikunni.
Fréttastofa RÚV fékk einmitt að koma og mynda þann viðburð hjá okkur og birtist frétt um málið í tíufréttum RÚV í vikunni.
Kirkjur Fossvogsprestakalls, Bústaðakirkja og Grensáskirkja, eru því mjög miðlægar og virkar í sínu nærumhverfi í aðdraganda jóla.
Það er smá munur á því hvort við prestar og starfsfólkið tökum þátt í viðburðunum eða hvort kennarar og aðrir sjái bara um dagskrána.
En hvort heldur sem er, þá eru kirkjurnar mikið nýttar í aðdraganda jóla“
segir Þorvaldur.
Þuríður Björg Wiium Árnadóttir prestur í Hafnarfjarðarprestakalli segir:
„Grunnskólabörnum í Hafnarfirði er boðið til samveru í kirkjum Hafnarfjarðar á aðventunni.
Skiptast þessar heimsóknir niður á kirkjurnar fjórar, Hafnarfjarðarkirkju, Víðistaðakirkju, Ástjarnarkirkju og Fríkirkjuna í Hafnarfirði, og eru vel sóttar.
Í Hafnarfjarðarkirkju taka prestar kirkjunnar, organisti og æskulýðsfulltrúi, sem hefur yfirumsjón með heimsóknunum, á móti hópunum.
Þau fá að kynnast orgelum kirkjunnar og syngja jólalög, heyra sögu og kynnast jólaguðspjallinu samhliða því að kveikja á kertunum á aðventukransinum.
Heimsóknin er svo toppuð með piparkökum og kakói hjá Ottó kirkjuverði“
segir Þuríður og bætir við:
„Við erum gjarnan kvödd með þeim orðum að þeim hafi þótt notalegt að koma í kirkju, enda er það kannski tilgangurinn; að þeim líði vel, finni sig velkomin og fái að heyra fallegan boðskap og fræðast um menningararf kirkju og þjóðar á aðventunni.“
Jóhanna Magnúsdóttir sóknarprestur í Vík í Mýrdal segir að sextíu börn úr Víkurskóla hafi komið í heimsókn í Víkurkirkju þann 4. desember síðast liðinn.
„Þau komu í þremur hollum og áttum við ánægjulega samveru“
segir Jóhanna og bætir við:
„Það er mjög gott samstarf kirkju og grunnskóla í Vík.“
Ólöf Margrét Snorradóttir prestur í Garða og Saurbæjarprestakalli segir að leikskólinn komi í heimsókn í Akraneskirkju.
Þráinn Haraldsson sóknarprestur og Hilmar Agnarsson organisti taka á móti þeim“
segir hún og bætir við:
„Svo fer Þráinn í heimsókn á leikskólann Vallasel hér á Akranesi.
Svo komu nokkrir punktar frá Þorgeiri Arasyni sóknarpresti í Egilsstaðaprestakalli.
Hann segir:
„Fyrsti til annar bekkur í Egilsstaðaskóla sem telja 82 börn komu í Egilsstaðakirkju.
Einnig komu þriðji og fjórði bekkur, sem telja 105 börnn í kirkjuna.
Nemendur leikskólans Tjarnarskógur hér á Egilsstöðum komu í Egilsstaðakirkju, en þau eru 93 talsins og 36 nemendur leikskólans Hádegishöfða í Fellabæ komu í Kirkjuselið Fellabæ.
Alls voru þetta yfir 300 börn auk kennara og starfsfólks.
Börnin sáu söngleik sem Barnakór og Barnahljómsveit Egilsstaðakirkju settu upp.
Söngleikurinn heitir "Týndu jólasveinarnir" og er höfundur og leikstjóri organistinn okkar Sándor Kerekes.
Í söngleiknum fengu jólasveinarnir að heyra jólaguðspjallið og læra um Jesú Krist.
Söngleikurinn verður sýndur 20. desember og verður öllum opinn.
Á þessum samverum var svo mikið sungið, kveikt á aðventukertunum, jólaguðspjallið var rifjað upp, jólasaga sögð eða brúðuleikhús sýnt.
Hluti barnanna kom samkvæmt hefð færandi hendi með framlag í Jólasjóð Múlaþings.
Þau föndra jólakort sem foreldrarnir "kaupa".
Öll fengu djús og piparkökur í lokin“
segir Þorgeir og bætir við:
„Börnin voru ákaflega dugleg, söngvinn og hlustuðu vel og ekki annað að finna en mikil jákvæðni og gleði einkenndi þessar kirkjuheimsóknir.“
Seyðisfjörður er hluti af Egilsstaðaprestakalli og þar þjónar Sigríður Rún Tryggvadóttir prófastur Austurlandsprófastsdæmis.
Hún segir að samkvæmt hefð þá komi allir nemendur Grunnskóladeildar Seyðisfjarðarskóla í heimsókn í kirkjuna á ,,litlu-jólunum.
Nemendur tónlistarskólans flytja tónlistaratriði og 7. bekkur les jólasögu“
segir hún og bætir við:
„Það verður leyniteikning, jólagetraun, jólasaga og við syngjum saman jólasálma.“
Hildur Sigurðardóttir prestur í Digranes og Hjallaprestakalli í Kópavogi segir að þau fái heimsóknir frá skólunum og leikskólunum í prestakallinu og það samstarf gangi mjög vel.
Jón Ómar Gunnarsson sóknarprestur í Breiðholtsprestakalli segir að þau í Fella-og Hólakirkju fái heimsóknir frá leikskólum í hverfinu og Fellaskóli komi í fræðsluheimsókn á aðventu.
slg