Fyrsta prestsvígsla Guðrúnar biskups

16. desember 2024

Fyrsta prestsvígsla Guðrúnar biskups

Sr. Þorgeir ásamt biskupi og vígsluvottum

Í gær á þriðja sunnudegi í aðventu fór fram prestsvígsla í Dómkirkjunni í Reykjavík.

Var þetta fyrsta prestsvígsla biskups Íslands Guðrúnar Karls Helgudóttur.

Biskup vígði Þorgeir Albert Elíesersson til þjónustu á Landspítala Háskólasjúkrahúsi.

Var athöfin öll hin hátíðlegasta.

Vígsluvottar voru Bragi Ingibergsson sóknarprestur í Víðistaðakirkju, Gunnar Rúnar Matthíasson sjúkrahúsprestur, Sveinn Valgeirsson sóknarprestur við Dómkirkjuna í Reykjavík og Þorvaldur Víðsson prestur í Fossvogsprestakalli og prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra, en sérþjónustuprestar heyra undir hans prófastsdæmi.

Þorvaldur lýsti einnig vígslu.

Presturinn

Þorgeir Albert Elíesersson er fæddur á Landspítala þann 17. október árið 1979, en ólst upp á Egilsstöðum fram til tvítugs.

Hann er kvæntur Hildi Dís Kristjánsdóttur, hjúkrunarfræðingi, sem er fædd árið 1983.

Saman eiga þau soninn Svein Rúnar Þorgeirsson, fæddan árið 2013.

Þorgeir útskrifaðist stúdent frá Menntaskólanum á Egilsstöðum árið 1999.

Árið 2000 hóf hann störf í Lögreglunni í Reykjavík.

Hann útskrifaðist úr Lögregluskóla ríkisins árið 2001 og starfaði sem lögreglumaður á Ísafirði í tvö og hálft ár eftir að hann lauk námi í Lögregluskólanum.

Árið 2004 flutti hann aftur til höfðborgarsvæðisins til þess að starfa í lögreglunni og var starfandi lögreglumaður, síðar varðstjóri til ársins 2022.

Árið 2015 innritaðist hann í nám í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands þar sem hann lauk BA gráðu í guðfræði árið 2018 og síðan mag. theol gráðu, embættisprófi í guðfræði, vorið 2020.

Þorgeir var í starfsnámi presta í Víðistaðakirkju hjá sr. Braga J. Ingibergssyni 2019-2020.

Vorið 2022 útskrifaðist hann með diplómagráðu í sálgæslu hjá Endurmenntun Háskóla Íslands.

Um miðjan maí 2023 flutti hann ásamt eiginkonu sinni og syni til Clearwater í Flórída í Bandaríkjunum þar sem hann hóf nám í klínískri sálgæslu, Clinical Pastoral Education (CPE), á Morton Plant Hospital Association Inc. sem er hluti af BayCare Health Care System í Tampa Bay í Flórída.

Á Morton Plant Hospital lauk hann bæði Internship og Residency.

Hann útskrifaðist úr CPE náminu í lok ágúst 2024 og var síðan ráðinn í stöðu sjúkrahúsprests á Landspítala um miðjan október þar sem hann hefur verið starfandi síðan þá.

 

slg


Myndir með frétt

  • Guðfræði

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Samstarf

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Vígsla

  • Biskup

Altari Guðríðarkirkju

Þrjátíu ár frá snjóflóðunum í Súðavík

16. jan. 2025
...minningarstund í Guðríðarkirkju í kvöld, 16. janúar, kl 20:00
Sr. Örn og sr. Sigríður Kristín við upphaf guðsþjónustunnar

Stórskemmtileg stemmning í troðfullri Bústaðakirkju

16. jan. 2025
...Glitnisbræður í heimsókn