Skoðuðu aðstæður sem frelsarinn fæddist við

16. desember 2024

Skoðuðu aðstæður sem frelsarinn fæddist við

Börn í fjárhúsinu á Sléttu

Það er líf og fjör í kirkjum landsins á aðventu eins og alla aðra daga.

Aðventuhátíðir eru haldnar um allt land og eru alls staðar afar vel sóttar, enda mjög vönduð dagskrá í boði bæði í tali og tónum.

Fréttaritari kirkjan.is hefur leitast við að fá fréttir sem víðast að af landinu og eftirfarandi frétt sendi Benjamín Hrafn Böðvarsson prestur í Austfjarðaprestakalli.

Hann þjónar aðallega á Eskifirði, Reyðarfirði og Norðfirði, en prestakallið nær allt frá Hofi í Álftafirði norður í Mjóafjörð.

Benjamín Hrafn segir:

"Í kirkjunum hér á fjörðunum hefur verið líf og fjör á aðventunni.

Aðventustundir fjölskyldunnar, sem eru fjölskylduguðsþjónustur, hafa verið haldnar í söfnuðum prestakallsins.

Á aðventustundunum kveikjum við á aðventukertunum, syngjum jólalög, fræðumst um sögu jólanna og biðjum fyrir þeim sem eiga erfitt á aðventunni og um jólin.

Í lok stundanna er boðið upp á heitt kakó, börnin skreyta piparkökur og fólk á yndislegt samfélag í safnaðarheimilum kirkjunnar.

Á Reyðarfirði var í gær boðið upp á samveru í fjárhúsunum á bóndabænum Sléttu, í Reyðarfirði, þar sem jólaguðspjallið var lesið, jólalög sungin og börnin fengu að skoða sig um í fjárhúsunum og skoða svipaðar aðstæður og frelsarinn fæddist í.

Þrjár sóknir í prestakallinu, Norðfjarðar, Eskifjarðar og Reyðarfjarðarsóknir styðja þétt við bakið á tónlistar og menningarstarfi í Fjarðabyggð.

Fjöldi kórafólks um alla Fjarðabyggð sameinast undir merkjum Kórs Fjarðabyggðar og halda m.a. árlega jólatónleika, á aðventunni, í Eskifjarðarkirkju.

Á tónleikunum í ár komu fram, ásamt Kór Fjarðabyggðar, barnakórar úr Fjarðabyggð, en kirkjan heldur úti barnakórum í þessum þremur sóknum.

Sérstakur gestur á jólatónleikunum í ár var söngkonan Guðrún Árný ásamt strengjaleikurum.

Stjórnandi Kórs Fjarðabyggðar er Kaido Tani, organisti sóknanna þriggja, en stjórnandi barnakóranna er söngkonan Karítas Harpa Davíðsdóttir.

Haldnir voru tvennir tónleikar 7. desember síðastliðinn sem heppnuðust einstaklega vel.

Kirkjuheimsóknir eru fastur liður bæði hjá leikskólum og grunnskólum í prestakallinu.

Á Reyðarfirði heimsækir, elsta deildin á leikskólanum Lyngholti, kirkjuna og með þeim í för eru fimmtu bekkingar grunnskólans á Reyðarfirði.

Börnin fá stutta fræðslu um hefðir kirkjunnar um aðventuna og jólin, kveikt er á aðventukertunum, sungin jólalög og í lok stundarinnar er boðið upp á djús og piparkökur.

Svipað er uppi á teningnum á Eskifirði, en þar koma tvær deildir úr leikskólanum Dalborg í heimsókn.

Í Norðfjarðarsókn er það áralöng hefð að elsta deildin á leikskólanum Eyravöllum kemur og flytur helgileik í kirkjunni fyrir gesti, þar sem öllu er tjaldað til.

Þar fá börnin á næst elstu deildinni ásamt foreldrum og fjölskyldum, starfsfólki deildanna ásamt presti að njóta sýningarinnar.

Ósjaldan er presturinn fenginn til að spila á gítar og syngja með börnunum jólalög.

Í Austfjarðaprestakalli er hefð, á aðventunni, að halda ljósastundir í kirkjugarðinum.

Þar kemur fólk saman til þess að heiðra minningu látinna ástvina.

Prestar í prestakallinu leiða stundirnar, flytja bænir og stuttar hugvekjur.

Kirkjukórarnir syngja jóla- og aðventusálma.

Stundinni lýkur á því að söfnuðurinn tendrar á útikertum við leiði látinna ástvina.

Þau sem eiga ástvini, sem jarðsett eru annars staðar, eiga kost á því að tendra á ljósi við minningarreiti í kirkjugörðunum.

Þann 20. desember kl. 17:00 verður haldin minningarstund í Norðfjarðarkirkju en tilefnið er að 50 ár eru liðin frá snjóflóðunum í Neskaupstað 1974.

Benjamín Hrafn Böðvarsson og Jóna Kristín Þorvaldsdóttir sóknarprestur í Austfjarðaprestakalli leiða stundina.

Kór Norðfjarðarkirkju ásamt tónlistarfólki úr Neskaupstað munu sjá um tónlistina ásamt Kaido Tani, organista.

Eftir stundina verður safnast saman við minningarreitin um snjófljóðin sem staðsettur er við rætur varnagarðanna, innar í bænum.

Þar mun Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar, flytja ávarp.

Í kjölfarið býðst fólki að tendra á útiljósum við varnargarðanna.

Eftir stundina verður svo ganga meðfram varnargörðunum að safnahúsinu í Neskaupstað.

Helgihald um jól er býsna hefðbundið, en aftansöngur verður sungin á aðfangadagskvöld í sjö kirkjum prestakallsins.

Einnig verður messað á öðrum degi jóla í fáeinum kirkjum og síðan verða haldnar hátíðarhelgistundir á hjúkrunarheimilum í prestakallinu“

segir Benjamín Hrafn að lokum.

 

slg



Myndir með frétt

  • Barnastarf

  • Fræðsla

  • Heimsókn

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Menning

  • Prestar og djáknar

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

Altari Guðríðarkirkju

Þrjátíu ár frá snjóflóðunum í Súðavík

16. jan. 2025
...minningarstund í Guðríðarkirkju í kvöld, 16. janúar, kl 20:00
Sr. Örn og sr. Sigríður Kristín við upphaf guðsþjónustunnar

Stórskemmtileg stemmning í troðfullri Bústaðakirkju

16. jan. 2025
...Glitnisbræður í heimsókn