Fylgjum stjörnunni

17. desember 2024

Fylgjum stjörnunni

Stjarnan og vitringarnir eftir eftir Tee Justine frá Nigeriu

Henrik Stubkjær forseti Lútherska heimssambandsins og biskup í dönsku kirkjunni hefur sent eftirfrandi jólakveðju frá sambandinu:

„Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var.

Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög.“ Matt. 2:9-10


Saga vitringanna sem fylgdu stjörnunni, fundu barnið í fjárhúsinu í Betlehem og færðu því gull, reykelsi og myrru er ein þekktasta og elskaðasta saga biblíunnar.

Ef til vill löðumst við að þessari sögu vegna þess hve myndræn hún er.

Við endursköpum þessa mynd á hverjum jólum á jólakortum og fjárhúsum á heimilum okkar og í kirkjum og jafnvel í almannarýminu.

Allt frá barnæsku okkar getum við séð fyrir okkur stjörnuna, þessar þrjár leyndardómsfullu mannverur, gjafirnar og barnið í jötunni.

Þessar myndir minna okkur á hvernig Guð opinberast okkur bæði á venjulegan og óvenjulegan hátt.

En kanski löðumst við að þessari sögu af því að hún minnir okkur á hvað það merkir að vera kirkja; að færa ljós og líf inn í heiminn.

Ég skal útskýra þetta.

Sem lútheranar, þá trúum við því að allt helgihald okkar, starf okkar og allt okkar líf eigi að benda á Krist, eins og Lúther benti á Krist á hinni þekktu altaristöflu sem Lucas Cranach málaði á 16. öld.

Þessi Kristmiðlægi vitnisburður kallar okkur til íhugunar og góðra verka.

Við erum líka kölluð til að vera skínandi ljós, jafnvel í dimmustu aðstæðum, og leiða aðra til trúar á Krist barnið í jötunni.

Eins og vitringarnir áttuðu sig á að þetta ferðalg gæti leitt þá í óvænta átt, á óvenjulega staði, gegnum erfiða vegi þá verðum við stundum að velja nýja leið í lífi okkar.

Það er köllun okkar að fylgja handleiðslu Guðs, að sjá og hlusta, skynja tákn tímanna og svara neyð þeirra sem á vegi okkar verða jafnvel þó það kunni að hafa áhættu í för með sér og leiða okkur út fyrir þægindarammann.

Hvert er stjarnan að leiða mig og þig í dag?

Við erum kölluð til þess að standa með þeim sem eru úti á jaðrinum, gefa mat og drykk þeim sem hungrar og þyrstir, klæða þau sem engin klæði eiga og bjóða ókunnugum inn til okkar eða heimsækja sjúka og þau sem eru í fangelsum. Matt. 25.

Í starfi mínu sem forseti Lútherska heimssambandsins hef ég á síðasta ári verið þess heiðurs aðnjótandi að heimsækja margar kirkjur sambandsins um allan heim þar sem fólk og samfélög benda á Krist og vitna um fagnaðarerindið á svo fjölbreyttan hátt.

Nýlega var ég í Hong Kong, þar sem ég heimsótti kirkju, þar sem verið var að tala um trúfrelsi.

Þar er unnið að því að sýna samstöðu og boða von þeim sem þjást vegna stríðsátaka og uppreisna.

Í Brasilíu varð ég vitni að styrkleika kirknanna sem einbeita sér að friði og réttlæti, standa vörð um sköpun Guðs og hjálpa þeim sem sem eru yst úti á jaðrinum í samfélagi þeirra.

Fyrr á árinu heimsótti ég Tanzaníu og Eþjópíu og upplifði styrkleika kirknanna þar.

Þær reka skóla og háskóla, sjúkrahús og stunda alls kyns þjónustu eins og fæðuöryggi og umhyggju fyrir börnum með sérþarfir.

Í heimsóknum til Úkraínu og Póllands sá ég með eigin augum kirkjur við víglínuna, sem standa með og hjálpa þeim sem eru í neyð og þarfnast vonar á flótta sínum frá innrás Rússa.

Í þessari þjónustu skína kirkjur og söfnuðir með ljósi stjörnunnar, sem fyrst skein yfir fjárhúsinu í Betlehem og vísaði vitringunum að gleðinni og undrinu sem fyrsta jólanóttin bar með sér.

Eins og stjarnan, þá beina þær okkur að Krists barninu, sem kemur með von og lækningu inn í hina særðu veröld okkar.

Í Betlehem, á Gaza, um öll Miðaustulönd og á svo mörgum öðrum stöðum, skulum við biðja um að Guð geri okkur heil, biðjum fyrir friði og fyrir endalokum átaka og þjáningar.

Hvar sem þú verður á jólunum, þá óska ég þér og ástvinum þínum blessaðra jóla.

Henrik Stubkjær forseti Lútherska heimssambandsins.

Forsíðumyndin er eftir Tee Justine, hönnuð frá Nigeriu, sem er í lúthersku Kristskirkjunni í Nigeriu.

Myndin hér fyrir neðan er af Henrik Stubkjær á heimþinginu í Kráká í september 2023.

 

slg


Myndir með frétt

  • Biblían

  • Erlend frétt

  • Flóttafólk

  • Guðfræði

  • Lútherska heimssambandið

  • Samstarf

  • Trúin

  • Alþjóðastarf

Altari Guðríðarkirkju

Þrjátíu ár frá snjóflóðunum í Súðavík

16. jan. 2025
...minningarstund í Guðríðarkirkju í kvöld, 16. janúar, kl 20:00
Sr. Örn og sr. Sigríður Kristín við upphaf guðsþjónustunnar

Stórskemmtileg stemmning í troðfullri Bústaðakirkju

16. jan. 2025
...Glitnisbræður í heimsókn