Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. desember 2024

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Í dag, þann 20. desember eru 110 ár liðin frá því að Hafnarfjarðarkirkja var vígð, árið 1914.

Af því tilefni var Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, boðið að halda hátíðarræðu á aðventukvöldi síðast liðinn sunnudag.

Að sögn Jónínu Ólafsdóttur sóknarprests í Hafnarfjarðarkirkju „voru þau afar þakklát að hún gaf sér tíma til að eiga þessa stund með söfnuðinum á aðventu.

Það er venjan á jólavöku kirkjunnar“ segir Jónína „að kórar kirkjunnar syngi en við erum rík af kórum og það voru Barbörukórinn, Ungmennakórinn Bergmál og Unglingakór Hafnarfjarðarkirkju sem sungu undir stjórn Kára Þormar organista og Brynhildar Auðbjargardóttur kórstjóra.

Í lok stundar báru fermingarbörn ljós af altarinu og allir kirkjugestir fengu logandi ljós á meðan kirkjan var myrkvuð og sunginn sálmurinn „Er jólaljósin óma“.

Hafnarfjarðarkirkja var reist undir Hamrinum, við höfn og sjó og hefur tengst hafnfirsku mannlífi í blíðu og stríðu í meira en heila öld.

Hafnarfjarðarkirkja ber nafn bæjarfélags síns eins og venja var með fyrstu kirkju þjóðkirkjusafnaðar í kaupstað.

Vorið 1914 hófst byggingarvinnan sem gekk það vel að henni lauk á jólaföstu sama ár.

Yfirsmiður kirkjunnar var Guðni Þorláksson en Rögnvaldur Ólafsson arkitekt teiknaði kirkjuna.

Þórhallur Bjarnason biskup vígði Hafnarfjarðarkirkju og séra Árni Björnsson sem kjörinn hafði verið sóknarprestur Garðasóknar árið áður, var fyrsti prestur hinnar nýju kirkju.

Kvenfélag Hafnarfjarðarkirkju, sem enn í dag lifir góðu lífi, hafði forgöngu um smíði og uppsetningu 20 steindra glugga og lauk því verki árið 1971.

Árið 2001 taldi sóknarnefndin tímabært að undirbúa víðtækar endurbætur á kirkjunni, auk aðkallandi viðhahlds á safnaðarheimilinu.

Árið 2007 var svo ákveðið að endurgera kirkjuna að innan.

Vinnu við endurgerðina lauk árið 2008 en árinu áður hafði sóknarnefnd fjárfest í tveimur nýjum orgelum – stærra á söngloftinu, 25 radda orgel í þýskum síðrómantískum stíl og minna niðri í kirkjunni, 12 radda orgel í barrokkstíl.

Bæði orgelin hafa síðan verið eitt af táknum Hafnarfjarðarkirkju.

„Á tímamótum sem þessum“ segir Jónína „er þakklæti okkur efst í huga, þegar við hugsum til allra þeirra sem komið hafa við sögu kirkjunnar henni til gagns og heilla.

Við hugsum einnig til þeirra allra sem komið hafa saman inni í þessum helgidómi bæði í gleði og sorg.“

Myndirnar hér fyrir neðan eru frá afmælishátíðinni á þriðja sunnudegi í aðventu.

slg


Myndir með frétt

  • Kirkjustaðir

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Viðburður

  • Heimsókn

Altari Guðríðarkirkju

Þrjátíu ár frá snjóflóðunum í Súðavík

16. jan. 2025
...minningarstund í Guðríðarkirkju í kvöld, 16. janúar, kl 20:00
Sr. Örn og sr. Sigríður Kristín við upphaf guðsþjónustunnar

Stórskemmtileg stemmning í troðfullri Bústaðakirkju

16. jan. 2025
...Glitnisbræður í heimsókn