Þorláksmessa í Skálholti

23. desember 2024

Þorláksmessa í Skálholti

Vígslubiskup og sóknarpestur ásamt sóknarbarni

Það var 10 stiga frost og dásamlega fallegt vetrarveður þegar hringt var til messu í Skálholtsdómkirkju í gær á fjórða sunnudegi í aðventu.

Organistinn Jón Bjarnason og flautuleikarinn Eyjólfur Eyjólfsson hófu stundina með fallegu forspili.

Boðað hafði verið til messunnar til minningar um Þorlák helga sem var biskup í Skálholti á 12. öld.

Þorláksmessur eru tvær á ári önnur að sumri og þá er að venju haldin hin mikla Skálholtshátíð.

Hin er að vetri 23. desember, sem þekktari er af þjóðinni, þó fólk þekki ekki mikið til þess Þorláks sem messan er kennd við.

Kristín Þórunn Tómasdóttir sóknarprestur í Skálholtsprestakalli þjónaði fyrir altari og Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti prédikaði.

Fyrir prédikun söng flautuleikarinn og tenórinn Eyjólfur Eyjólfsson Panis Angelicus eftir César Franck við texta sem byggður er á sálmi eftir Tomas Aquinas.

Áður en kom að altarisgöngu gekk söfnuðurinn út í frostið og inn í Þorláksbúð þar sem útdeiling altarissakramentisins fór fram.

Þar léku Jón organisti og Eyjólfur flautuleikari á harmóníum og langspil.

Að lokum var sunginn elsti sálmur sálmabókarinnar Heyr himnasmiður eftir Kolbein Tumason og Þorkel Sigurbjörnsson.

Að messu lokinni tók söfnuðurinn upp kaffibrúsa sína og hlýjuðu sér á heitu innihaldi þeirra áður en haldið var út í frostið á ný.

 

Þorlákur Þórhallsson helgi (1133 – 23. desember 1193) vígðist ungur sem prestur og menntaðist síðan í mörg ár erlendis.

Hann innleiddi á Íslandi reglu Ágústínusarkanoka og gerðist ábóti en var síðast biskup í Skálholti frá 1178.

Hann vann að siðbót á Íslandi og reyndi að innleiða lög og venjur, sem kirkjan beitti sér fyrir í öðrum löndum.

Hann var árið 1198 tekinn í helgra manna tölu á Alþingi, og árið 1984 útnefndi páfastóll hann verndardýrling Íslands.

Þorlákur var kjörinn biskup á Alþingi 1174, eftir að erkibiskup gerði orð, að kjósa skyldi nýjan Skálholtsbiskup.

Þorlákur var ekki vígður fyrr en í Niðarósi 2. júlí 1178.

Hann tók biskupsvígslu af Eysteini Erlendssyni erkibiskupi, en auk hans tóku þátt í henni Eiríkur Ívarsson biskup í Stafangri, sem síðar varð erkibiskup, og Páll biskup í Björgvin.

Eftir að Þorlákur kom aftur í Skálholt, var fyrsta verk hans „að semja þá af nýju heimamanna siði og hýbýla háttu, þá er héldust um hans daga vel í mörgu lagi".

Þótt orðinn væri biskup, hélt hann nálega í öllu kanokareglu, bæði í klæðabúnaði, vökum, föstum og bænahaldi.

Á morgnana var vani Þorláks að syngja „fyrst Credo og Pater noster eftir það, er hann hafði signt sig, og hymnann Jesu nostra redemptio.

Þá söng hann Gregoriusbæn, á meðan hann klæddi sig, og þar eftir hinn fyrsta sálm úr Davíðssálmum.

En er hann kom til kirkju, söng hann fyrst lof Heilagri Þrenningu.

Eftir það lofaði hann með söngvum þá heilaga menn, er kirkjan var vígð, sú er þá var hann í.

Síðan las hann Maríutíðir, og eftir það lagðist hann niður fyrir altari allur til jarðar, þá er eigi var heilagt, og bað lengi fyrir allri Guðs kristni, og hvern dag söng hann þriðjung Saltara umfram vanasöng sinn, hvort sem hann var heima eða eigi, og söng fleira milli sálma en aðrir menn.

Hann söng fyrst Gloria Patri af Heilagri Þrenningu, þá næst Miserere mei Deus, þá Salvum fac Pater et Domine yfir öllu kristnu fólki.

 

slg


Myndir með frétt

  • Kirkjustarf

  • List og kirkja

  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Þjóðkirkjan

  • Tónlist

  • Trúin

  • Viðburður

  • Vígslubiskup

  • Kirkjustaðir

Altarið í Kirkjuselinu.jpg - mynd

Aðventa í Egilsstaðaprestakalli

23. des. 2024
...fjölbreytt dagská í boði
Hof í Vopnafirði

Laust starf organista

21. des. 2024
...við Hofsprestakall
Jólastemmning í Hafnarfjarðarkirkju

Forseti Íslands á jólavöku kirkjunnar

20. des. 2024
... haldið uppá 110 ára vígsluafmæli Hafnarfjarðarkirkju