Kyrrðardagar á Kríunesi
Kyrrðarbænarsamtökin á Íslandi standa fyrir kyrrðardögum 23.-26. janúar 2025 á Hótel Kríunesi í Kópavogi.
Fyrirlesari verður Mary Dwyer en hún lærði hjá Thomas Keating og hefur iðkað bænaaðferðir úr hugleiðsluhefð kristinnar trúar frá því að hún var ung kona.
Mary er virk í Contemplative Outreach, alþjóðlegu kyrrðarbænarsamtökunum, og var á tímabili formaður samtakanna.
Er það því mikill fengur að fá hana til Íslands enda hefur hún verðið einn helsti kennari samtakanna og leitt kyrrðardaga og haldið námskeið víðs vegar.
Yfirskrift daganna AÐ UMVEFJA ALLT SEM ER vísa í fagnaðarbænina en hún ryður úr vegi hindrunum og gerir okkur kleift að umvefja allt sem mætir okkur í lífinu.
Í frétt frá Kyrrðarbænasamtökunum segir að kyrrðardagarnir séu einstakt tækifæri til að taka frá tíma og hlúa að trúarlífi sínu.
„Fagnaðarbænin tengir okkur við líkama okkar og tilfinningar.
Hún snýst um að gefast Guði í dagsins önn t.d. þegar við komumst í tilfinningalegt uppnám eða finnum til í líkamanum.
Mary kennir hvernig fagnaðarbæn og ferli fyrirgefningar getur stutt við iðkendur kyrrðarbænar (eða annarra hugleiðsuaðferða) í því umbreytingarferli sem fer af stað við reglulega iðkun.
Mary kennir á ensku og hluti daganna fer fram í kyrrð og við iðkun kyrrðarbænarinnar.
Námskeiðið hentar jafnt byrjendum sem lengra komnum og enn eru nokkur pláss laus.
Kyrrðarbænarsamtökin á Íslandi halda úti öflugri fræðslu og hópastarfi auk þess að skipuleggja reglulega kyrrðardaga víða um landið, meðal annars í Skálholti, Sólheimum í Grímsnesi og að Löngumýri í Skagafirði.
Samtökin voru stofnuð til að stuðla að útbreiðslu kyrrðarbænar og annarra íhugunar og bænaaðferða úr kristinni hugleiðsluhefð.
Það gera þau með bænahópum í kirkjum og á netinu, kyrrðardögum, kennsluefni, námskeiðum, fyrirlestrum o.fl.
Þetta er í fyrsta skipti sem Kyrrðarbænasamtökin halda kyrrðardaga á Hótel Kríunesi, í fallegu umhverfi þar sem aðstaðan er öll eins og best verður á kosið og nálægðin við náttúruna er einstök.
Einnig er þetta fyrsta skipti sem samtökin halda kyrrðardaga af þessu tagi á höfuðborgarsvæðinu og í fyrsta sinn sem Mary Dwyer kemur til landsins.
Nánari upplýsingar um kyrrðardagana og öflugt starf Kyrrðarbænasamtakanna má finna á heimasíðu þeirra: www.kyrrdarbaen.is.
Einnig má senda fyrirspurnir á kyrrdarbaen@kyrrdarbaen.is eða hringja í síma: 661 7719.“
Að lokum er í fréttinni vitnað í orð Mary Dwyer:
„Engin bæn er jafnmikil áskorun og fagnaðarbænin gagnvart því hvort ég trúi að Guð sé nálægur og elski mig.
Að gefast á vald er einn hluti iðkunarinnar, en þetta snýst í raun og sann um óbilandi traust, trú á að jáið okkar sé heyrt og meðtekið og við elskuð til lífs.
Það byggist á þeirri fullvissu að Guð hið innra með þér sé nálægur og búi í sérhverri frumu veru þinnar og að hann elski þig til lífsins.
Þetta er sú gjöf sem þú ert að opna dyrnar fyrir - og hún er nú þegar hér.“
slg