Laust starf prests
Biskup Íslands óskar eftir presti til starfa hjá íslenska söfnuðinum i Noregi.
Miðað er við að viðkomandi getið hafið störf 1. ágúst 2025.
Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf nr. 17/2021-2022 og starfsreglna um presta nr. 6/2023-2024.
Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.
Vísað er til þarfagreiningar fyrir starfið varðandi frekari upplýsingar.
Starfinu fylgja viðbótarskyldur við Þjóðkirkjuna og önnur kirkjuleg stjórnvöld.
Allar gildar umsóknir fara til valnefndar sem fer yfir umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.
Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.
Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.
Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.
Heimilt er að óska eftir því að almennar prestskosningar fari fram samkvæmt 13. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.
Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.
Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini ásamt einkunum, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.
Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.
Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni.
Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.
Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.
Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.
Tengil á eyðublaðið er að finna hér.
Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.
Er einkum vísað til starfsreglna um presta.
Biskupafundur hefur unnið að breytingum á skipan prestsþjónustu þjóðkirkjunnar.
Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að vera má að biskupafundur leggi tillögur fyrir kirkjuþing sem kunna að leiða til breytinga á skipan prestsþjónustu þjóðkirkjunnar hljóti þær samþykki kirkjuþings.
Bryndís Malla Elídóttir, prófastur við ráðningarferli þetta, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 892 2901 eða á netfangið bryndis.malla.elidottir@kirkjan.is
Einnig er hægt að leita nánari upplýsinga, t.d. hvað varðar starfskjör og helstu reglur og skyldur varðandi starfið, hjá Þjóðkirkjunni, s. 528 4000, eða á netfangið jona@kirkjan.is eða ragnhilduras@kirkjan.is.
Umsóknarfrestur er til miðnættis 18. febrúar 2025.
Sækja ber rafrænt um starfið á hér á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.
Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.
Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti.
Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.
Verði farið fram á almennar prestskosningar er þó ekki hægt að halda nafnleynd.
Þarfagreining fyrir starf prests við Íslensku kirkjuna í Noregi
Stefna og starf Íslensku kirkjunnar í Noregi.
Íslenska kirkjan í Noregi er opin og frjálslynd, umburðarlynd og framsækin, með rætur í hefðinni en óhrædd að vaxa og dafna á nýjum tímum.
Íslenska kirkjan í Noregi vill reynast íslendingum í Noregi sem stór, umburðarlynd og elskandi fjölskylda sem fagnar fjölbreytileika og samstöðu.
Íslenska kirkjan í Noregi er hluti af þjóðkirkju Íslands.
Söfnuðurinn deilir grunngildum og markmiðum starfsins með íslensku þjóðkirkjunni þó með þá sérstöðu að vera kirkja meðal Íslendinga erlendis.
Kirkjan á í góðu samstarfi við íslensku söfnuðina í Svíþjóð og Danmörku meðal annars í fermingarfræðslu.
Einnig er lögð rækt við samvinnu og samstarf við:
Þjóðkirkju Íslands
Biskupsstofu
Íslenska presta í Noregi
Sendiráð Íslands í Noregi
Norsku, Sænsku og Finnsku kirkjurnar í Noregi
Norges Kristne Råd
Tengiliði safnaðarins víðsvegar um Noreg
Íslenska kóra í Noregi
Íslendingafélög í Noregi
Kirkjan er fyrir alla, líka þau sem sækja ekki vanalega kirkju á Íslandi. Söfnuðurinn leggur áherslu á fjölbreytt starf sem höfðar til sem flestra og leitast við að vera sóknarkirkja og samkomustaður allra Íslendinga í Noregi.
Reglulega er í boði samvera og fræðsla fyrir allan aldur þó að í öndvegi séu börn og ungmenni, og þau sem komin eru yfir sextugt.
Virkir þátttakendur í starfi kirkjunnar eru frá öllum Noregi.
Kirkjan stendur fyrir reglulegu og lifandi safnaðarstarfi í Ósló, Stavanger, Bergen, Sandefjord, Kristiansand, Trondheim og Tromsø.
Prestþjónusta er veitt um allan Noreg.
Safnaðarstarfið er í miklum vexti og býður upp á skapandi nálgun í öfluguri teymisvinnu.
Boðið er upp á kærleiksþjónustu svo sem sálgæsluviðtöl og heimsóknir til aldraðra og langveikra.
Kirkjan rekur Ólafíusjóð sem er hjálparsjóður nauðstaddra Íslendinga í Noregi.
Í stjórn Ólafíusjóðs sitja 5 einstaklingar að sóknarpresti meðtöldum.
Íslenska kirkjan í Noregi leggur rækt við íslenska tungu og menningu í breiðum skilningi og stuðlar að listflutningi íslensks efnis t.d. tónlist, leiklist og styður félagslíf Íslendinga í Noregi á menningarlegum grundvelli.
Kirkjan leggur ríka áherslu á umhverfisvernd og meðvitaða stefnu í umhverfismálum, og leitast við að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag með ákvörðunartöku sinni og þjónustu.
Í sóknarnefnd kirkjunnar sitja 5 einstaklingar og 3 til vara.
Starfsfólk safnaðarins er sóknarprestur, skrifstofustjóri, menningarfulltrúi og æskulýðsfulltrúi auk fjölda leiðtoga um land allt.
Lögð er áhersla á teymishugsun og gott samstarf við fjölda aðila svo sem íslensku kórana, íslendingafélögin í Noregi og tengiliði um land allt.
Söfnuðurinn telur um 6500 manns.
Áherslur í starfi prests safnaðarins:
Starfið krefst ferðalaga þar sem þjónustusvæðið er allur Noregur.
Það fylgja því starfi prestsins talsverð ferðalög.
Mikilvægt er að presturinn sé kraftmikill og reiðubúinn að takast á við óvæntar aðstæður og krefjandi verkefni.
Leitað er að presti sem hefur:
Farsæla reynslu af kirkjulegu starfi og reynslu af því að starfa í fjölbreyttu starfsumhverfi og viðhorfi, og sé tilbúinn að laga sig að fjölbreyttum og síbreytilegum aðstæðum.
Starfið felur í sér mikla teymisvinnu og lögð er áhersla á reynslu og færni til að taka þátt í og hafa umsjón með teymisvinnu.
Jafnframt þarf viðkomandi að geta unnið sjálfstætt og leita skapandi leiða í safnaðarstarfinu.
Ríka aðlögunarhæfni og sé tilbúinn að vinna með sóknarnefndinni og fylgja eftir samþykktri stefnu og starfsáætlun kirkjunnar.
Mikilvægt að geta unnið samkvæmt skýrri starfsáætlun og haldið utanum og skipulagt reglubundið og hefðbundið helgihald og viðburði í samvinnu við sóknarnefnd.
Opinn huga fyrir nýjungum í safnaðaruppbyggingu og tilbúinn að prófa nýja hluti í samstarfi við sóknarnefnd og starfsfólk safnaðarins.
Skapandi hugsun og sköpunarkraft, er sveigjanlegur í starfi og tilbúinn að aðlaga þjónustu sína m.t.t. krefjandi aðstæðna.
Álagsstyrk í starfi, ábyrgðarkennd og sýni árvekni.
Reynslu af sálgæslu, sé góður hlustandi og góður að tjá sig, búi yfir jákvæðni og framsýni.
Góða skipulagshæfni og mikla samskiptahæfileika.
Sé hvetjandi og hafi jákvætt frumkvæði að samstarfi við samstarfsaðila.
Leiðtogahæfni og stjórnunarhæfileika, reynsla af stjórnun er æskileg þar sem hefð er fyrir því að presturinn sé jafnframt framkvæmdastjóri kirkjunnar.
Vilja til að ganga í ýmis verk á vinnustað þó ekki standi í starfslýsingu, m.a. því sem snýr að daglegum rekstri.
Grunnþekking í norsku eða skandinavísku er æskileg.
Áhuga á menningu, tónlist, og ræktun íslenskrar menningar og tungu.
Vilja til að aðlaga sig norsku samfélagi og menningu.
slg