Andlát

27. febrúar 2025

Andlát

Séra Vigfús Þór Árnason fyrrverandi sóknarprestur á Siglufirði og í Grafarvogi lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 27. febrúar.

Vigfús Þór fæddist í Reykjavík 6. apríl árið 1946 og ólst upp í Hlíðunum og síðan í Vogunum.

Ungur að árum starfaði hann mikið að æskulýðsmálum og var valinn fyrsti formaður Æskulýðsfélags Langholtskirkju, en þar var meðal annars haldin fyrsta svonefnda poppmessa, sem átti eftir að hafa heilmikil áhrif á æskulýðsstarf kirkjunnar hér á landi.

Í beinu framhaldi af starfi sínu í Langholtskirkju fór Vigfús Þór sem skiptinemi til Bandaríkjanna á vegum Þjóðkirkjunnar.

Hann dvaldi í Chicago og kynntist þar öflugu starfi kirkjunnar vestra, sem Vigfús Þór miðlaði svo áfram hér á landi.
Hann lauk kennaraprófi frá Kennaraskólanum árið 1969 og stúdentsprófi ári síðar.

Fimm árum síðar lauk Vigfús Þór embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands.

Hann stundaði svo árin 1975-76 framhaldsnám í félagslegri siðfræði og trúfræði við Ludwigs Maximilliam háskólann í Munchen í Þýskalandi.

Árin 1988-1989 stundaði Vigfús Þór framhaldsnám í trúfræði, prédikunarfræði, sálusorgun og fjölmiðlafræði við Pacific School of Religion við Berkley háskólann í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Vigfús Þór var vígður haustið 1976 til sóknarprestsþjónustu við Siglufjarðarprestakall og þjónaði þar um árabil.

Haustið 1989 var Vigfús Þór kjörinn fyrsti sóknarprestur í Grafarvogsprestakalli í Reykjavík og þjónaði þar til hann lét af störfum sökum aldurs árið 2016.

Á Siglufirði og í Grafarvogi vann Vigfús Þór meðal annars að uppbyggingu fjölþætts safnaðarstarfs og var hann vakinn og sofinn í þjónustu sinni við samferðafólk sitt alla tíð.

Vigfús Þór gegndi margvíslegum trúnaðar og félagsstörfum í gegnum tíðina en sá listi er langur.

Vigfús Þór sat til dæmis um tíma í bæjarstjórn Siglufjarðar og í bæjarráði, formaður Prestafélags Íslands um tíma, formaður Lionsklúbbs Siglufjarðar og síðar formaður Lionsklúbbsins Fjörgyn í Grafarvogi.

Hann var gerður að Melwin Jones félaga, sem er æðsta viðurkenning Lionshreyfingarinnar.

Vigfús Þór var mikill knattspyrnuunnandi og tengdist Knattspyrnufélaginu Val sterkum böndum. Vigfús Þór var virkur þátttakandi í starfi Frímúrarareglunnar á Íslandi.

Eftirlifandi eiginkona Vigfúsar Þórs er Elín Pálsdóttir.

Börn þeirra eru Árni Þór kvæntur Mariko Margréti Ragnarsdóttur, Björg gift Reimari Snæfells Péturssyni og Þórunn Hulda gift Finni Bjarnasyni.

Barnabörn Vigfúsar Þórs og Elínar eru átta talsins.


  • Andlát

Fulltrúar á samráðshelgi kirkjunnar á Norðurlöndum

Spennandi starf sóknarprests í Noregi

24. feb. 2025
...umsóknarfrestur framlengdur
Sr. Steinunn Anna

Sr. Steinunn Anna ráðin

22. feb. 2025
...prestur við Seljakirkju
Sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir

Andlát

18. feb. 2025
...sr. Hulda Hrönn M. Helgadóttir er látin