Tveir nýir prestar koma til starfa

Biskup Íslands auglýsti nýlega eftir tveimur prestum til þjónustu við Fossvogsprestakall í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.
Sjö umsóknir bárust.
Laufey Brá Jónsdóttir sóknarprestur í Setberegsprestakalli og Sigríður Kristín Helgadóttir fyrrum sóknarprestur í Breiðabólsstaðarprestakalli hafa verið ráðnar.
Laufey Brá Jónsdóttir er fædd á Sólvangi í Hafnarfirði þann 22. júlí árið árið 1972.
Hún er dóttir hjónanna Jóns Víðis Steindórssonar og Rannveigar Sigríðar Guðmundsdóttur.
Laufey Brá er gift Jóni Inga Hákonarsyni bæjarfulltrúa í Hafnarfirði.
Hún er stúdent frá Flensborgarskólanum.
Að loknu stúdentsprófi lá leiðin í Leiklistarskóla Íslands þar sem hún útskrifaðist sem leikkona.
Laufey Brá hefur meistaragráðu í mannauðsstjórnun og er með menntun markþjálfa.
Hún er nú að klára diplómanám í sálgæslu auk guðfræðimenntunarinnar.
Starfsþjálfun tók Laufey Brá hjá Sigurði Arnarsyni sóknarpresti í Kópavogskirkju.
Laufey Brá vann í sex ár sem ráðgjafi í Kvennaathvarfinu.
Hún hefur einnig unnið sem leikstjóri og umsjónarkennari.
Laufey Brá hefur skrifað efni fyrir fræðslusvið Biskupsstofu og unnið með atvinnuleitendum í hruninu.
Hún vígðist þann 10. desember árið 2023 sem sóknarprestur í Setbergsprestakalli.
Sigríður Kristín Helgadóttir er fædd þann 19. september árið 1971 í Reykjavík.
Hún ólst upp í Hafnarfirði og dvaldi vestur á fjörðum sumarlangt sem barn og unglingur.
Hún býr í Hafnarfirði hefur starfað sem prestur í Fossvogsprestakalli í vetur.
Sigríður Kristín er gift Eyjólfi Einari Elíassyni matreiðslumanni sem starfar sem forstöðumaður framleiðslueldhúss á velferðarsviði Reykjavíkurborgar.
Þau eiga fjórar dætur, sem fæddar eru 1991, 1995, 1999 og 2000.
Hún tók stúdentspróf frá Kvennaskólanum í Reykjavík árið 1991 og embættispróf frá Guðfræðideild Háskóla Íslands árið 2000.
Árið 2011 lauk hún námi í fjölskyldumeðferð á meistarastigi frá Endurmenntun Háskóla Íslands.
Í starfsþjálfun þjóðkirkjunnar voru leiðbeinendur hennar sr. Bjarni Karlsson og sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir.
Sigríður Kristín stundaði nám við Tónlistarskóla Kópavogs 2004 -2005 og lærði söng hjá Önnu Júlíönu Sveinsdóttur.
Hún vígðist til prestsþjónustu þann 15. október árið 2000.
Þá hafði hún verið kölluð til starfa hjá Fríkirkjunni í Hafnarfirði og var sett í embætti þann 22. október sama ár.
Hún var ráðin til starfa sem sóknarprestur í Breiðabólstaðarprestakalli þann 13. júlí árið 2020.
Síðan var hún ráðin til starfa í afleysingu prests í Fossvogsprestakalli frá 1. ágúst árið 2024.
Hún hefur komið að starfi Sorgarmiðstöðvar í Lífsgæðasetri St. Jó., haldið fyrirlestra og leitt hópastarf vegna ótímabærs makamissis, systkinamissis og missis á meðgöngu.
Einnig hefur hún verið með fræðsluerindi fyrir börn bæði hjá Ljónshjarta og í Sorgarmiðstöðinni.
slg