Laust starf
.png?proc=NewsImage)
Biskup Íslands óskar eftir héraðspresti til þjónustu í Suðurprófastsdæmi.
Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst, eða í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að niðurstaða um ráðningu liggur fyrir.
Um val á umsækjendum er vísað til starfsreglna kirkjuþings um ráðningu í prestsstörf, nr. 17/2021-2022 og starfsreglna um presta nr. 6/2023-2024.
Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér þessar reglur.
Vísað er til þarfagreiningar héraðsnefndar prófastsdæmisins og sóknarnefnda Fellsmúlaprestakalls, varðandi frekari upplýsingar um starfið og starfsumhverfið.
Þarfagreining fyrir starfið er birt hér að neðan í framhaldi af auglýsingunni.
Allar gildar umsóknir fara til þriggja manna valnefndar sem fer yfir umsóknir og boðar umsækjendur til viðtals innan þriggja vikna frá lokum umsóknarfrests, sbr. 8. gr. framangreindra starfsreglna um ráðningu í prestsstörf.
Valnefnd skal ná samstöðu um einn umsækjenda en valið skal byggt á fyrirliggjandi þarfagreiningu og rökstutt á grundvelli hennar.
Í framhaldinu ræður biskup viðkomandi í starfið, að því gefnu að hann telji niðurstöður valnefndar reistar á lögmætum sjónarmiðum.
Valnefnd áskilur sér rétt til að hafna öllum umsóknum.
Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli og starfsreynslu og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.
Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.
Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og/eða þjálfun sem nýtist í starfi.
Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni.
Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi þjónustuna.
Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.
Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.
Tengil á eyðublaðið er að finna hér.
Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.
Er einkum vísað til starfsreglna um presta.
Presturinn hefur sérstakar skyldur við Fellsmúlaprestakall.
Jafnframt fylgja starfinu viðbótaskyldur við önnur prestaköll í prófastsdæminu, önnur prófastsdæmi, sem og við Þjóðkirkjuna og önnur kirkjuleg stjórnvöld.
Ofangreind þjónusta er auglýst laus til umsóknar með þeim fyrirvara að gerðar verði skipulagsbreytingar eins og biskupafundur hefur unnið að, t.d. með sameiningum en jafnframt er unnið að heildarendurskoðun á þjónustu Þjóðkirkjunnar.
Sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson, prófastur, veitir nánari upplýsingar um umfang og eðli starfsins í síma 856-1572 eða á netfangið oskar.hafsteinn.oskarsson@kirkjan.is.
Umsóknarfrestur er til miðnættis 28. mars 2025.
Sækja ber rafrænt um starfið á hér á vefnum og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.
Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, nr. 150/2020.
Vakin er athygli á því að hafi umsækjandi ekki óskað nafnleyndar verður nafn hans sem umsækjanda um starfið birt á vef kirkjunnar www.kirkjan.is að liðnum umsóknarfresti.
Hér er að finna eyðublað þar sem umsækjendur geta óskað nafnleyndar.
Þarfagreining héraðsnefndar Suðurprófastsdæmis vegna héraðsprests með sérstakar skyldur við Fellsmúlaprestakall.
Upplýsingar um prófastsdæmið:
Suðurprófastsdæmi nær frá Selvogi í vestri og að Stafafelli í Lóni í austri.
Prófastur er séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í Hrunaprestakalli.
Í prófastsdæminu starfa 11 sóknarprestar, 4 prestar, 2 héraðsprestar og djákni í 50% stöðu við Skálholtsprestakall.
Í prófastsdæminu eru 52 sóknir.
Skrifstofa prófastsdæmisins er í safnaðarheimili Oddasóknar að Dynskálum 8 á Hellu.
Þar er einnig góð fundaaðstaða.
Í héraðsnefnd sitja þrír og tveir til vara.
Nefndin fundar reglulega yfir árið og markar stefnu fyrir starfsemina á prófastsdæmisvísu og afgreiðir umsóknir um styrki til safnaðanna.
Prófastur stjórnar fundum nefndarinnar.
Helstu verkefni héraðsprests í Suðurprófastsdæmi með sérstakar skyldur við Fellsmúlaprestakall:
Héraðsprestur starfar með og undir stjórn prófasts að eftirtöldum verkefnum:
Starfsskyldur við Fellsmúlaprestakall (sjá þarfagreiningu þar að lútandi hér að neðan).
Starfsskyldur á samstarfssvæði með Oddaprestakalli og Breiðabólsstaðarprestakalli.
Afleysingar fyrir presta víðar í prófastsdæminu.
Ýmiss konar fræðslustarf og skipulag.
Önnur verkefni sem upp kunna að koma.
Starfsaðstæður:
Héraðsprestur hefur aðgang að funda og skrifstofuaðstöðu í safnaðarheimili Oddasóknar á Hellu en gert er ráð fyrir að hann hafi skrifstofuaðstöðu á heimili sínu einnig.
Hæfniskröfur:
Manneskja með góða félagslega færni og leikni í mannlegum samskiptum, er jákvæð og fær í að laga sig að ólíkum aðstæðum.
Héraðsprestur þarf að hafa þekkingu og færni í helstu messuformum kirkjunnar.
Héraðsprestur þarf að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum og taka frumkvæði til nýsköpunar.
Góð kunnátta í talaðri og skrifaðri íslensku er áskilin ásamt hefðbundinni tölvukunnáttu.
Fellsmúlaprestakall
Lýsing á Fellsmúlaprestakalli:
Prestakallið tilheyrir Suðurprófastdæmi og er á samstarfssvæði með Oddaprestakalli og Breiðabólsstaðarprestakalli.
Það samanstendur af fimm sóknum: Árbæjarsókn, Skarðssókn, Hagasókn, Marteinstungusókn og Kálfholtssókn.
Íbúar eru samtals 839.
Einnig fylgir prestakallinu lögregluvakt sem prestarnir í gömlu Rangárvalla og Árnessýslum skipta með sér.
Þéttbýliskjarni er á Laugalandi í Holtum en þar er grunnskóli og leikskóli.
Lítil verslun og bensínafgreiðsla er á Landvegamótum.
Þá er stutt í þjónustu bæði á Hellu og á Selfossi.
Prestakallið er landbúnaðarsamfélag með vaxandi ferðaþjónustu.
Þá er búist við auknum íbúafjölda í prestakallinu samfara umfangsmiklum virkjanaframkvæmdum sem eru í farvatninu.
Einnig liggur mikill straumur ferðamanna um svæðið sem m.a. leggur leið sína inn á hálendið og til dvalar í sumarbústöðum sem þar eru.
---------------------------------------
Reglulegar guðsþjónustur eru í kirkjum prestakallsins en á síðustu árum hafa þær verið u.þ.b. 30 yfir árið og um 30 barnasamverur ásamt öðrum helgistundum.
Þá hefur fjöldi fermingarbarna í prestakallinu verið á bilinu 8-15 síðustu árin.
Kirkjukórar eru starfandi við kirkjurnar og organistar eru fjórir talsins.
Fermingarfræðsla hefur verið starfrækt á Laugalandi.
Kirkjum er vel við haldið, sem og öll umhirða kirkjugarða.
Ráðdeild er alls staðar í rekstri.
Sóknarnefndir eru jákvæðar fyrir fjölbreyttu safnaðarstarfi og almennt eru góð tengsl kirkjunnar við söfnuðina.
Helstu starfsáherslur:
Mikilvægt er að gott samstarf sé á milli allra sem starfa í kirkjunum.
Því er nauðsynlegt að nýr prestur hafi áhuga og skýran vilja til samstarfs og samtals um það og hafi frumkvæði að nýjungum í helgihaldi og safnaðarstarfi.
Hann sé reiðubúinn að sinna með sem fjölbreyttustum hætti almennu safnaðarstarfi í samvinnu við sóknarfólk.
Þá er lögð áhersla á:
Að prestur hafi vald á messuformum kirkjunnar.
Að prestur hafi þekkingu og getu til að sinna sálgæslu við flestar aðstæður.
Að prestur hafi frumkvæði, metnað og vilja til að efla barna og æskulýðsstarf.
Að prestur haldi reglulegar guðsþjónustur og helgistundir í kirkjum prestakallsins.
Að prestur sé þátttakandi í samfélaginu á gleði og sorgarstundum fólksins sem og þeirra hversdagslega lífi og gefi sér tíma til að sinna íbúum samfélagsins, bæði ungum sem öldnum.
Ekki hvílir búsetuskylda á presti, en æskilegt er að hann sé búsettur í héraðinu.
Umsóknarfrestur er til 28.mars árið 2025
slg