Tvöfalt afmæli á hjúkrunarheimilinu Grund

17. mars 2025

Tvöfalt afmæli á hjúkrunarheimilinu Grund

Kristín Waage, Kristján Valur, Kristján Búason og Margrét Bóasdóttir

Sunnudaginn 16. mars var hátíðarmessa í Hátíðarsal Hjúkrunarheimilisins Grundar í tilefni af því að liðin voru sjötíu ár frá því Ásmundur Guðmundsson biskup vígði kapelluna í enda salarins fyrsta sunnudag í níuviknaföstu þann 6.febrúar árið 1955.

Jafnframt var þess minnst að Félag fyrrum þjónandi presta og prófasta sem stofnað var 14.október 1939 hélt sinn fyrsta félagsfund á Grund þann 13.mars árið 1955 í boði séra Sigurbjarnar Ástvaldar Gíslasonar, stofnanda Grundar.

Það leiddi til þess að félagið hóf að annast guðsþjónustu á Grund einu sinni í mánuði í tengslum við félagsfundinn.

Allt síðan þá, eða í sjötíu ár, hefur félag gömlu prestanna sem borið hefur nokkur nöfn frá stofnun félagsins þann 14.október árið 1939, annast messur mánaðarlega á Grund.

Þannig hefur þessi helgidómur Grundarheimilisins verið sameiginleg kirkja prestanna sem lokið hafa opinberri þjónustu embætta sinna og tengt þá saman.

Saga þessa félags í áttatíu og fimm ár hefur ekki verið rituð en væri þess sannarlega virði að henni væri gaumur gefinn.

Félagið ber nú nafnið Félag fyrrum þjónandi presta og maka sem byggir á samstarfi félags prestanna og Prestkvennafélagsins sem ekki starfar sjálfstætt lengur.

Í messunni söng Margrét Bóasdóttir einsöng við undirleik organistans Kristínar Waage.

Sr. Kristján Búason og Kristján Valur Ingólfsson fyrrum vígslubiskup í Skálholti önnuðust prestsþjónustuna.

Að lokinni messu var veglegt kaffisamsæti í boði Grundar, eins og verið hefur einnig í sjötíu ár.

Þar flutti Gísli Páll Pálsson stjórnarformaður Grundarheimilanna erindi um samstarf Grundar og prestanna og einnig um yfirstandandi uppbyggingarverkefni og framtíðaráform í þjónustunni við sjúka og aldraða.

Ýmsir fleiri tóku til máls og rifjuðu upp minningar tengdar Grund og starfinu þar.

slg


  • Messa

  • Prestar og djáknar

  • Samfélag

  • Samstarf

  • Tónlist

  • Vígslubiskup

  • Fundur

Sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir

Sr. Guðbjörg valin prófastur

08. apr. 2025
...í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra
Sr. Lilja Kristín

Sr. Lilja Kristín ráðin

07. apr. 2025
...við Íslenska söfnuðinn í Noregi
logo.png - mynd

Laust starf

19. mar. 2025
...prófasts í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra