Laust starf

19. mars 2025

Laust starf

Biskup Íslands óskar eftir prófasti í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Miðað er við að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst, eða í síðasta lagi þremur mánuðum eftir að niðurstaða um ráðningu liggur fyrir.

Umsækjendur eru hvattir til að kynna sér starfsreglur kirkjuþings um prófasta, nr. 7/2023/2024. 

Vakin er athygli á því að kirkjuþing hefur nýlega samþykkt breytingu á starfsreglum um prófasta, 38. mál, kirkjuþings 2025-2026, sjá hér.

Uppfærðar starfsreglur um prófasta má finna hér.

Með umsókn sinni staðfesta umsækjendur að þeir hafi átt þess kost að kynna sér reglurnar.

Um helstu verkefni prófasts eru að hafa í umboði biskups, tilsjón með kirkjulegu starfi í prófastsdæminu, embættisfærslum presta, þjónustu vígðra og starfi sóknarnefnda.

Prófastur er næsti yfirmaður presta í prófastsdæminu og trúnaðarmaður biskups.

Hann annast ráðgjöf, sáttaumleitanir innan prófastsdæmisins og fyrirsvar fyrir prófastsdæmið varðandi ýmis sameiginleg málefni þess, er formaður héraðsnefndar og formaður stjórnar héraðssjóðs, tekur við erindum og fyrirspurnum til úrlausnar og annast að öðru leyti þá stjórnsýslu sem honum er falin samkvæmt erindisbréfi og starfsreglum.


Upplýsingar um prófastsdæmið:

Reykjavíkurprófastsdæmi vestra nær frá Seltjarnarnesi í vestri til Elliðaáa í austri.

Í prófastsdæminu búa 84.000 manns.

Í prófastsdæminu starfa 16 sóknarprestar og prestar í söfnuðum, sex djáknar, 14 sérþjónustuprestar, tveir prestar og djákni á Biskupsstofu og þrír prestar við íslensku söfnuðina á Norðurlöndum.

Í prófastsdæminu eru tíu kirkjur:

Seltjarnarneskirkja, Neskirkja, Dómkirkjan, Hallgrímskirkja, Háteigskirkja, Laugarneskirkja, Langholtskirkja, Áskirkja, Grensáskirkja og Bústaðakirkja.

Við kirkjurnar starfa um 40 starfsmenn í launuðum störfum auk sjálfboðaliða.

Sóknarnefndir eru tíu með 131 mann í sóknarnefndum.

Prófastsdæmið er í samstarfi við Reykjavíkurprófastsdæmi eystra um rekstur eldriborgararáðs og í samstarfi við Reykjavíkurprófastsdæmi eystra og Kjalarnesprófastsdæmi um stöðu svæðisstjóra æskulýðsmála.

Í héraðsnefnd sitja þrír aðilar og tveir til vara.

Nefndin fundar einu sinni í mánuði og markar stefnu fyrir starfsemi á prófastsdæmisvísu og afgreiðir umsóknir um styrki til safnaðanna.

Prófastur stjórnar fundum nefndarinnar.

Menntunar- og hæfniskröfur:

Þekking og farsæl reynsla af kirkjustarfi.

Framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum.

Reynsla og áhugi af stjórnunar og skipulagsstörfum.

Áhugi og reynsla af sálgæslu, framhaldsnám er kostur en ekki skilyrði.

Reynsla af mannauðsstörfum.

Vakin er athygli á því að prófastar í Reykjavíkurprófastsdæmum eystra, vestra og Kjalarnessprófastsdæmis geta ekki gegnt stöðu sóknarprests samhliða starfi prófasts.

Biskup Íslands ræður í starfið að fenginni umsögn vígðra þjóna, sóknarnefndarfólks og ráðgjafarnefndar biskups í mannauðsmálum.

Umsækjendur skulu gera skriflega grein fyrir starfsferli, samskiptahæfileikum og öðru því sem þeir óska eftir að taka fram.

Umsókn ber að fylgja staðfest afrit af prófskírteini, svo og upplýsingar um starfsþjálfun eftir því sem við á.

Einnig skal fylgja staðfesting á annarri menntun og þjálfun sem nýtist í starfi.

Til að umsækjandi teljist hæfur í starfið þarf viðkomandi að hafa lokið mag.theol/cand.theol prófi frá Háskóla Íslands ásamt starfsþjálfun hjá Þjóðkirkjunni.

Umsækjendum ber að skila greinargerð, að hámarki 500 orð, um framtíðarsýn sína og væntingar varðandi starfið.

Þá skulu umsækjendur fylla út eyðublað þar sem biskupi er heimilaður aðgangur að tilteknum upplýsingum úr sakaskrá um viðkomandi umsækjanda, sbr. 4. gr. starfsreglnanna.

Skal undirrituð heimild þar um fylgja umsókninni.

Tengil á eyðublaðið er að finna hér.

Um starfið gilda lög um þjóðkirkjuna nr. 77/2021, kjara- og ráðningarsamningar, siðareglur, starfsreglur er kirkjuþing setur og samþykktir um innri málefni kirkjunnar.

Er einkum vísað til starfsreglna um prófasta.

Sækja ber rafrænt um starfið á vef kirkjunnar  og leggja fram tilskilin fylgigögn á rafrænu formi ásamt öðrum þeim gögnum er umsækjandi kann að vilja leggja fram.

Vísað er til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna nr. 150/2020.

Öll kyn eru hvött til að sækja um.

Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, veitir frekari upplýsingar um starfið, gudrun@kirkjan.is sem og Ragnhildur Ásgeirsdóttir, skrifstofu og mannauðsstjóri, ragnhilduras@kirkjan.is.

Umsóknarfrestur er til miðnættis 1. apríl 2025.

 

slg


  • Kirkjustaðir

  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Biskup

Neskirkja í Reykjavík

Laust starf

18. mar. 2025
...prests við Neskirkju í Reykjavík
Kristín Waage, Kristján Valur, Kristján Búason og Margrét Bóasdóttir

Tvöfalt afmæli á hjúkrunarheimilinu Grund

17. mar. 2025
...kapellan á Grund 70 ára
Dómkirkjan í Reykjavík

Laust starf

17. mar. 2025
...dómorganista í Reykjavík