Sr. Sigurður Jónsson valinn sóknarprestur

19. apríl 2025

Sr. Sigurður Jónsson valinn sóknarprestur

Sr. Sigurður Jónsson

Nýlega sagði kirkjan.is frá því að Guðbjörg Jóhannesdóttir sóknarprestur í Laugardalsprestakalli hefði verið valin prófastur í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Þá lét hún af störfum sem sóknarprestur og hefur tekið við störfum prests í sama prestakalli.

Sigurður Jónsson sem áður var prestur í prestakallinu hefur nú tekið við stöðu sóknarprests.

Sigurður er fæddur þann 24. apríl árið 1960 á Haukagili í Hvítársíðu og uppalinn þar.

Hann lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 1982 og embættisprófi í guðfræði, cand. theol. frá Háskóla Íslands árið 1988.

Hann var við nám sem gestanemandi (Gasthörer) í sálgæslu í Kirchliche Hochschule í Bethel í Bielefeld í Vestur Þýskalandi sumarmisserið 1989.

Hann var einnig gestanemandi (Visiting scholar) við Luther Seminary í St. Paul, Minnesota í Bandaríkjunum veturinn 2003-2004.

Hann lauk grunnnámi í klínískri sálgæslu, Clinical Pastoral Education (CPE), við Veteran Affairs Medical Center sjúkrahúsið í Minneapolis, Minnesota, vorið 2004.

Vetrarmisserið 2024-2025 var hann við nám við guðfræðideild Universität Leipzig í Þýskalandi og sótti þar fyrirlestra í kirkjusögu.

Sigurður lauk námi frá Leiðsöguskólanum sem svæðisleiðsögumaður á Suðurlandi árið 2001, og lauk prófi í húsasmíði frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti árið 2019.

Sigurði var veitt Patreksfjarðarprestakall í Barðastrandarprófastsdæmi árið 1988 og hlaut prestsvígslu þann 3. júlí sama ár.

Þar þjónaði hann sem sóknarprestur til ársins 1991, og gegndi helming þess tíma aukaþjónustu í Sauðlauksdalsprestakalli og í Tálknafjarðarprestakalli.

Frá árinu 1991 til 2006 þjónaði hann sem sóknarprestur í Oddaprestakalli í Rangárvallaprófastsdæmi.

Honum var veitt Ásprestakall í Reykjavíkurprófastsæmi vestra árið 2006 og var þjónandi sóknarprestur þar uns prestakallið var sameinað Langholtsprestakalli og Laugarnesprestakalli undir heitinu Laugardalsprestakall haustið 2020.

Hann hefur síðan verið þjónandi prestur í því prestakalli.

Frá árinu 2006 hefur hann einnig verið þjónandi heimilisprestur á hjúkrunarheimilinu Skjóli.

Sigurður starfaði sem stundakennari í ellefu ár, fyrst við Seljaskóla í Reykjavík eitt ár, svo Grunnskólann á Patreksfirði í þrjú ár og loks í sjö ár við Grunnskólann á Hellu.

Einnig hefur hann verið leiðsögumaður í hjáverkum.

Eiginkona hans er Jóhanna Friðriksdóttir, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á Landspítalanum, Landakoti.

Þau eiga þrjú uppkomin börn og sjö barnabörn.

 

slg


  • Prestar og djáknar

  • Prófastur

  • Sálgæsla

  • Starf

  • Þjóðkirkjan

  • Kirkjustaðir

477730743_3904126276524324_423667161409772734_n.jpg - mynd

Gleðilega páska

20. apr. 2025
Þjóðkirkjan óskar landsmönnum öllum gleðilegrar páskahátíðar.
Sr. Jón Ómar

Sr. Jón Ómar ráðinn

16. apr. 2025
...prestur við Neskirkju
Sr. Guðbjörg Jóhannesdóttir

Sr. Guðbjörg valin prófastur

08. apr. 2025
...í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra