Æska Árbæjar og Ungverjalands sameinaðist um „ALL WE NEED IS LOVE“

Dagana 21.–28. júní 2025 stóð yfir ungmennaskiptaverkefni á vegum SaKÚL Æskulýðsfélags Árbæjarkirkju með styrk Landskrifstofu Erasmus+ á Íslandi. Þátttakendur voru 24 ungmenni frá Köszeg í Ungverjalandi og 24 einstaklingar frá Íslandi sem nutu gestrisni Ungverjanna í fyrra.
Hver dagur hófst á samhristingi og hópefli og ýmsum verkefnum en yfirskrift verkefnisins er „ALL WE NEED IS LOVE “. Þessi leggur er sá seinni en íslensku ungmennin ásamt djákna, æskulýðsleiðtogum og sóknarpresti sóttu Köszeg heim í Ungverjalandi í ágúst 2024. Skipuleggjendur fullyrða að vart sé hægt finna ólíkari staði en Köszeg. Miðaldabær við landamæri Austurríkis, með meðaltalshitastig upp í 35° samanborið við veðurfarið hér heima sem þarf auðvitað ekki að tíunda.
Markmið verkefnisins er að ungmennin kynnist lífi og staðháttum hvers annars eins og það er í raunveruleikanum. Til að gefa einhverja mynd af því sem gert var má nefna skilaboðaskjóðu sem búin er til í upphafi verkefnisins. Skjóðurnar eru merktar hverjum og einum þátttakenda og þannig geta ungmennin sent jákvæð skilaboð hvert til annars – nafnlaust.
Ungverjunum var boðið í kvöldverð hjá íslensku krökkunum (gestgjafafjölskyldum) og farið var í ratleik um miðborg Reykjavíkur. Listasöfn voru skoðuð og farið var í íslenska útileiki og á móti kenndu ungversku ungmennin hefðbundna ungverska leiki. Upplifun var fyrir ungversku ungmennin að sækja heim sundlaugar, að sögn aðstandenda. Verkefninu lauk svo á því að þátttakendur gerðu svokallaðan Youth Pass sem metur það sem þau hafa lært og þá þekkingu sem þau hafa öðlast í verkefninu út frá óhefðbundnum námsaðferðum.
Sem fyrr segir var verkefni styrkt af Landsskrifstofu Erasmus+ á Íslandi.