Skálholtshátíð kallar með gleði í tali, göngu og tónum

18. júlí 2025

Skálholtshátíð kallar með gleði í tali, göngu og tónum

Skálholtshátíð 2025 stendur yfir þessa helgi og er óhætt að fullyrða að framundan sé einkar þétt og glæsileg dagskrá. Má meðal dagskrárliða nefna hátíðartónleika, hátíðarmessu í sól og sumri og hátíðardagskrá þar sem Jón Kalman Stefánsson rithöfundur flytur hátíðarerindið umvafinn tónlist og ávörpum. 

Á laugardeginum heldur Stofnun dr. Sigurbjörns Einarssonar málþing um játningar kirkjunnar í 1700 ár til okkar daga með dr. Dirk G. Lange frá Lútherska heimssambandinu og fleiri fyrirlesurum og Skálholtsfélagið heldur málþing um Brynjólf biskup Sveinsson og Ragnheiði á föstudeginum sem endar með Ragnheiðargöngu Friðriks Erlingssonar Einnig eru á dagskrá Forneifaskóli barnanna á laugardeginum, ör-pílagrímaganga barnanna á hlaðinu heima á sunnudeginum og löng pílagrímaganga frá Reynivöllum til Skálholts. Í hátíðarmessunni verður vígður nýr Steinway D konsertflygill, Bókhlaða Skálholts verður opnuð formlega og tekið er við stórri gjöf til minningar um dr. Sigurbjörn biskup Einarsson

 „Skálholtshátíð kallar til sín fólk víða að vegna þess að hún er þriggja daga fjölbreytt og hátíðleg dagskrá.“ segir sr. Kristján Böjrnsson vígslubiskup. „Hún er fyrir alla sem vilja gleðjast í kirkjunni og syngja saman og njóta sín á sögufrægum stað. Hún er um það hvernig við öll erum eitt í Kristi og er það þemað: Á eina bókina – Eitt í Kristi,“ bætir Kristján við sem segist jafnframt hlakka mikið til helgarinnar.

Umgjörðin hátíðarinnar er falleg og kirkjan í einstaklega góðu formi eftir gagngerar endurbætur á síðustu árum. Í kirkjunni er einstakur hljómur og hefur það sannast enn og aftur á Sumartónleikunum í Skálholti sem haldnir voru núna í 50. sinn í þrjár vikur samfellt undir stjórn Benedikts Kristjánssonar. Hljómurinn er nýttur til fulls á hátíðartónleikum laugardagsins með Skálholtskórnum og góðu tónlistarfólki sem Jón Bjarnason, organisti, hefur kallað saman, en einnig á Bach-orgeltónleikum Jóns Bjarnasonar.

Hátíðarmessan með fjölda flytjenda og þjóna og hefst kl. 14 sunnudaginn 20. júlí. Að kirkju kirkjukaffi í boði staðarins loknu er hátíðardagskrá kl. 16. Kvölds og morgna er sungin tíðargjörð og eru það félagar í Ísleifsreglunni sem leiða hana. Á laugardagsmorgninum kl. 9 er gengið til útimessu við Þorlákssæti. Þar er lesið úr Ritningunni og gengið til altaris úti og þar setur vígslubiskup, sr. Kristján Björnsson, hátíðina. Skálholtshátíð er slitið í lok hátíðardagskrár sunnudagsins og þá safnast saman upp við altarið þau sem vilja syngja Te Deum. Rétt er að minna einnig á göngustígana á Þorláksleið sem hægt er að ganga frjálslega eða hjóla.

Hátíðin er árlega haldin í nánd við Þorláksmessu á sumar sem hefur verið 20. júlí frá því um 1200 en þann dag 1198 voru bein Þorláks tekin upp og lögð í hið sögufræga Þorláksskrín. Um aldir var hún stærsta hátíð ársins og fjölsótt. Hún kemur fyrir í nýjum og gömlum bókmenntum vegna atburða sem áttu sér stað einsog við er að búast þegar margir koma saman á helgum stað og fagna. 

„Sjálfsagt þykir að sækja einn og einn viðburð í dagskránni,“ segir vígslubiskup og býður alla velkomna. Aðgangseyrir er enginn. Alla dagskrá og viðburði er að finna á www.skalholt.is

    Margrét Rut Valdimarsdóttir

    Margrét Rut Valdimarsdóttir ráðin

    11. júl. 2025
    ...prestur í Húnavatnsprestakalli
    Addis9.jpg - mynd

    Vottar vonar og réttlætis: Árlegur stjórnarfundur Lútherska heimssambandsins

    23. jún. 2025
    Árlegur stjórnarfundur Lútherska heimssambandsins fór fram dagana 12.–16. júní í höfuðborg Eþíópíu.
    Sr. Pétur Ragnhildarson

    Sr. Pétur Ragnhildarson ráðinn sóknarprestur

    13. jún. 2025
    ...í Breiðholtsprestakalli