Andlát
Sr. Gylfi Jónsson var fæddur í Helgamagrastræti 13 á Akureyri þann 28. apríl árið 1945. Foreldrar hans voru Jón Helgason skósmíðameistari og verkstjóri á Akureyri og Petronella Pétursdóttir húsfreyja á Akureyri.
Gylfi varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri þann 17. júní árið 1965 og varð því 60 ára stúdent nú í sumar. Hann tók kennarapróf frá Kennaraskóla Íslands árið 1966 og varð cand. theol. frá Guðfræðideild Háskóla Íslands þann 26. maí árið 1973. Hann tók framhaldsnám í trúarlífsfélagsfræði frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð veturinn 1973-1974. Á þeim tíma þjónaði hann jafnframt sem sóknarprestur við Gottsundaförsamling í Uppsölum. Hann sótti nám í kennimannlegri guðfræði við Kircheliche Hochschule í Bethel í Bielefeld í Þýskalandi veturinn 1998-1999 og var í starfsþjálfun við Hospice heimilið í Bethel frá janúar til júní árið 1999. Auk þess sótti hann námskeið í sálgæslu aldraðra og vinnu með syrgjendum og deyjandi við Seelesorg Institut í Bethel.
Gylfi var stundakennari við Álftamýrarskóla og Hvassaleitisskóla 1966-1970. Hann var settur sóknarprestur í Staðarfellsprestakalli í Köldukinn frá júní 1973 og vígður á þjóðhátíðardaginn 17. júní sama ár. Honum var veitt Bjarnanesprestakall 18. nóvember árið 1974 og þjónaði þar til 1. júlí árið 1982 þegar hann var skipaður rektor Lýðháskólans í Skálholti. Síðar varð Gylfi aðstoðarprestur í Seljasókn 1985-1986 og varð heimilisprestur á Elli og hjúkrunarheimilinu Grund 1986-1988. Gylfi starfaði þá sem framkvæmdastjóri Öldrunarráðs Íslands árin 1987-1988 og varð svo ráðinn safnaðarprestur við Grensásprestakall 1988 og þjónaði þar til ársins 1994.
Meðframt þessum störfum þjónaði Gylfi á ýmsum öldrunarstofnunum m.a. í Múlabæ, Sjúkrahóteli Rauða kross Íslands og Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hann þjónaði frá 1994-2000. Hann sat í stjórn Æskulýðssamband kirkjunnar í Hólastifti 1963-1965, Æskulýðssambands Íslands 1970-1972, var formaður Félags guðfræðinema 1970-1971.
Hann var formaður Rauða kross deildar Austur-Skaftafellssýslu og Lionsklúbbsins Hænis á Hornafirði 1976-1977. Hann var umdæmisstjóri Lionshreyfingarinnar veturinn 1979-1980. Þá var hann stofnandi Lionsklúbbsins Geysis í Biskupstungum 1984 og fyrsti formaður hans 1984-1985. Hann var í Ellimálanefnd Þjóðkirkjunnar frá 1990 og formaður Nýrrar dögunar frá 1998.
Tónlist, hljóðfæraleikur og söngur var líf hans og yndi bæði í lífi og starfi.
Fyrri eiginkona Gylfa var Þorgerður Sigurðardóttir, dóttir sr. Sigurðar Guðmundssonar fyrrum vígslubiskups á Hólum og Aðalbjargar Halldórsdóttur. Sonur þeirra er Jón Gunnar.
Eftirlifandi eiginkona hans er sr. Solveig Lára Guðmundsdóttir, fyrrum vígslubiskup á Hólum. Börn hennar eru Benedikt Hermann Hermannsson, Kristín Anna Hermannsdóttir og Viktor Mar Hermannsson.
Barnabörnin eru þrjú Guðmundur Ari Benediktsson, Þorlákur Benediktsson og Huldar Kristínarson Cederborg.
Útförin fer fram í Seltjarnarneskirkju mánudaginn 8. september kl. 15:00.