Andlát

Sr. Yrsa Þórðardóttir er látin, 63 ára að aldri.
Hún fæddist í Reykjavík þann 7. apríl árið 1962.
Foreldrar hennar eru sr. Auður Eir Vilhjálmsdóttir og Þórður Örn Sigurðsson.
Yrsa útskrifaðist frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1980.
Sama ár fluttist hún til Frakklands og stundaði nám við hótelrekstur til ársins 1982.
Árið 1983 hóf Yrsa nám í guðfræði við Háskóla Íslands og lauk þaðan cand. theol. prófi árið 1987.
Í kjölfarið lá leið hennar í Fnjóskadalinn, þar sem hún tók við stöðu sóknarprests á Hálsi.
Þjónaði hún þar til ársins 1989.
Yrsa fluttist til Strasbourg í Frakklandi árið 1989 og hóf störf hjá Evrópuráðinu.
Árið 1994 sneri hún aftur til Íslands og nú lá leiðin til Fáskrúðsfjarðar, þar sem hún starfaði sem æskulýðsfulltrúi Þjóðkirkjunnar.
Einnig kenndi hún um tíma við grunnskóla Fáskrúðsfjarðar, en eiginmaður hennar, sr. Carlos Ari Ferrer, var sóknarprestur á Fáskrúðsfirði til ársins 2001.
Þá lá leið þeirra aftur til Reykjavíkur.
Þar gegndi hún meðal annars starfi framkvæmdarstjóra ÆSKR og sinnti afleysingu héraðsprests Kjalarnessprófastsdæmis.
Fyrir austan hóf Yrsa einnig nám í sálgreiningu og opnaði í kjölfarið eigin stofu í Reykjavík.
Hún varð síðan prestur í Digraneskirkju til ársins 2011, en þá lágu leiðir Yrsu aftur út fyrir landsteinana.
Yrsa tók við embætti sóknarprests í Strasbourg í Frakklandi árið 2011, og þjónaði þar til ársins 2014.
Það ár fluttist hún til Sviss þar sem hún starfaði sem prestur í frönskumælandi hluta landsins og í afleysingum í þeim þýskumælandi.
Frá árinu 2021 varð hún sóknarprestur í Morges og sinnti því embætti þangað til hún fór í leyfi sökum heilsubrests á þessu ári.
Eiginmaður Yrsu er, eins og áður var getið, sr. Carlos Ari Ferrer.
Eiga þau þrjú uppkomin börn: Tuma, Ingibjörgu, og Mörtu.
Barnabörnin eru Kolbeinn Þinur og Þórbergur Váli.
Útför verður auglýst síðar.
slg