Komum saman til að lesa, lofa, syngja og biðja...

Mánudaginn 29. september, sem er Mikjálsmessa, verður aðalfundur Ísleifsreglunnar haldinn í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar í Reykjavík, kl. 17:00.
Stofndagur Ísleifsreglunnar var þriðjudagurinn 8. júlí árið 1980 í Skálholti og voru félagar í reglunni það sumar nær 60 talsins, bæði úr hópi organista, presta og leikmanna.
Síðustu ár hefur starfsemi verið hverfandi og nú hyggjast félagar bæta úr því með að blása lífi í starfsemina og kjósa nýja stjórn, auk hefðbundinna aðalfundarstarfa.
Ísleifsreglan er félag áhugamanna um klassískan kirkjusöng í messunni og við bænastundir og tíðagjörð.
Markmið reglunnar hefur alla tíð verið að endurheimta hinn gregorska messusöng og byggja upp nýja tíðasöngshefð.
Með handbókinni frá árinu 1981 og útgáfu Sálmabókarinnar með nótum árið 1997 náðist nokkuð af þeim markmiðum í tilbeiðslu og helgihaldi íslensku Þjóðkirkjunnar.
Nú stendur vinna við nýja handbók yfir.
Samkvæmt ákvörðunum biskups Íslands og samþykktum Presta- og djáknastefnu verður gregorskur messusöngur áfram ein af meginstoðum messuhalds í kirkjum landsins, auk þess sem öðrum messusöng og litúrgískum sálmum verður lyft upp í samhengi bænalífs og trúariðkunar.
Ísleifsreglan vill í samhengi nýrrar handbókar vinna að því að víkka og auðga aðgengi safnaðanna að gregorskum messusöng sem tengir við fornar rætur og er mikilvægur andardráttur messuhalds og tilbeiðslu.
Ísleifsreglan heitir eftir Ísleifi Gissurarsyni (1006-1080), fyrsta biskupi í Skálholti og á Íslandi.
Hann nam í nunnuklaustri í Herfurðu á Saxlandi, sneri vígður prestur til Íslands og var vígður til biskups árið 1056.
Hann sat Skálholtsstað og stofnaði þar skóla þar sem framtíðar prestar og biskupar íslensku kirkjunnar hlutu menntun og mótun, í messuhaldi og kirkjusöng.
Fundurinn er öllum opinn.
Kirkjutónlistarfólk og organistar, prestar, djáknar og guðfræðinemar eru hvattir til að slást í hópinn.
slg