Nýr prófastur í Vesturlandsprófastsdæmi

Biskup Íslands hefur útnefnt sr. Maríu Guðrúnar. Ágústsdóttur sem prófast Vesturlandsprófastsdæmis.Tekur María við af sr. Gunnari Eiríki Haukssyni fráfarandi sóknarpresti á Stykkishólmi. María er sóknarprestur við Reykholtsprestakall í Borgarfirði.
María Guðrúnar. Ágústsdóttir er fædd þann 20. febrúar árið 1968 á Egilsstöðum, dóttir presthjónanna Guðrúnar L. Ásgeirsdóttur og Ágústs M. Sigurðssonar. Hún ólst upp ásamt bróður sínum Lárusi Sigurbirni á prestsetrinu Mælifelli í Skagafirði. Stúdentsprófi lauk María frá fornmáladeild Östre Borgerdydskole í Kaupmannahöfn vorið 1986, en foreldrar hennar þjónuðu söfnuðum Íslendinga í Danmörku og víðar um árabil. Samhliða menntaskólanáminu sótti María tíma í orgelleik og kórstjórn og spilaði undir söng íslenska kirkjukórsins í Kaupmannahöfn og á samkomum Íslendinga á Norðurlöndum.
María hóf nám í guðfræði við Kaupmannahafnarháskóla veturinn 1988-1989 og lauk síðan cand. theol. prófi frá Háskóla Íslands árið 1992. Prófi í uppeldis- og kennslufræði lauk hún frá sama skóla árið 1994. Þá hefur María sótt ýmis endurmenntunarnámskeið á sviði sálgæslu, stjórnunar, kennslufræði og helgihalds, auk námskeiða í breytingastjórnun og leiðtogafræðum við félagsvísindasvið Háskóla Íslands.
María hefur sinnt kennslustörfum í Hagaskóla í Reykjavík, við Starfs- og leikmannaskóla þjóðkirkjunnar og sem stundakennari í guðfræði við Háskóla Íslands og flutt fjölda erinda á kirkjulegum og akademískum vettvangi. Hún var formaður Nýrrar dögunar, samtaka um sorg og sorgarviðbrögð, í nokkur ár og leiddi fyrir hönd þjóðkirkjunnar samkirkjulegt starf á Íslandi í um aldarfjórðung. Þann 1. nóvember árið 2016 varði María doktorsritgerð sína í samstæðilegri guðfræði frá Háskóla Íslands. Rannsókn hennar beindist að tengslum á milli trúfélaga og á hvern hátt sé vænlegast að efla sátt og frið á milli ólíkra hópa.
Í rúm þrjátíu ár, allt til ársins 2024, starfaði María innan marka Reykjavíkurprófastsdæmis vestra. Hún vígðist til prestsþjónustu við Dómkirkjuna í Reykjavík þann 3. janúar árið 1993 og hafði umsjón með barna- og æskulýðsstarfi safnaðarins í fjögur ár. Þá starfaði María á fræðslusviði Biskupsstofu og sem prestur í Háteigskirkju og við Landspítalann þar til hún tók við þjónustu héraðsprests prófastsdæmisins árið 2000, lengst staðsett í Hallgrímskirkju. Loks var María um sjö ára skeið prestur og sóknarprestur í Grensásprestakalli, síðar Fossvogsprestakalli. Haustið 2024 fékk hún leyfi frá þjónustu sinni í Reykjavík til að leysa af í nokkra mánuði sem prestur í Glerárprestakalli á Akureyri. Þann 1. desember 2024 var María ráðin til að gegna starfi sóknarprests í Reykholtsprestakalli í Vesturlandsprófastsdæmi þar sem hún sinnir þjónustu við sex sóknir og annast helgihald í níu kirkjum og kapellum eftir því sem við verður komið.
María á fimm börn, þau Kolbein, Ragnhildi, Guðnýju Láru, Guðrúnu Maríu og Nínu Björgu, og tvö barnabörn. Eiginmaður Maríu er Bjarni Þór Bjarnason, sóknarprestur á Seltjarnarnesi.