Kirkjuþing sett í Dómkirkjunni

25. október 2025

Kirkjuþing sett í Dómkirkjunni

67. kirkjuþing var sett í Dómkirkjunni nú í morgun. Þingið er það síðasta á þessu kjörtímabili en kosningar til kirkjuþings fara fram snemma á næsta ári. Það er jafnframt síðasta kirkjuþing Drífu Hjartardóttur en hún lýkur nú sínu þriðja kjörtímabili á þinginu. Síðustu tvö kjörtímabil hefur Drífa setið sem forseti kirkjuþings. Drífa hefur tilkynnt að hún muni ekki gefa kost á sér til endurkjörs. 

Biskup Íslands, Guðrún Karls Helgudóttir, leiddi helgistund í upphafi athafnarinnar. Kammerkór Dómkirkjunnar söng undir stjórn og orgelspili Matthíasar Harðarsonar dómorganista.

Að helgihaldi loknu setti Drífa Hjartardóttir, forseti Kirkjuþings, þingið. Í setningarræðu sinni sagði Drífa m.a. að þrátt fyrir umrótartíma og miklar breytingar á stjórnsýslu kirkjunnar undanfarin ár hefði markverður árangur náðst. Þann árangur mætti meðal annars sjá í samstöðu biskups og kirkjuþings um mikilvæg málefni, t.d. á sviði æskulýðsmála. Þá gerði Drífa breytta stöðu kirkjunnar gagnvart hinu opinbera að umræðuefni og nefndi m.a. að kirkjan væri nú sjálfstæð í fjármálum og að staða fjárhags kirkjunnar væri traust, en að bág fjárhagsstaða safnaða Þjóðkirkjunnar væri enn áhyggjuefni.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra og biskup Íslands fluttu jafnframt erindi. Gerði dómsmálaráðherra m.a. stöðu kirkjunnar í samfélaginu sem sameinandi afl að umræðuefni sínu. Sagði hún jafnframt að ljóst væri að samstaða um mikilvægi kirkjunnar í samfélaginu væri að aukast sem sæist m.a. í aukinni kirkjusókn, ekki síst meðal ungs fólks.

Biskup Íslands vakti einnig athygli á aukinni kirkjusókn. „Við sjáum merki þess að ungt fólk sé í auknum mæli að sækja í kirkjuna, í helgihald, kirkjukóra og annað kirkjustarf, hvort sem það síðan skilar sér í auknum skráningum félaga eða ekki. Mér berast fréttir af ungu fólk sem hittist og les Biblíuna. Hér er hlutverk Þjóðkirkjunnar mikilvægt og ábyrgðin rík. Hér ber okkur að mæta unga fólkinu, sem og öllum öðrum, á þeim stað er þau eru stödd og ég veit að prestar og djáknar sem og allt æskulýðsstarfsfólk kirknanna sinna því hlutverki ákaflega vel,“ sagði biskup.

Nefndi hún jafnframt að aukin aðsókn í Guðfræðideild Háskóla Íslands gæfi vísbendingar um að prestaskortur sem nú ríkir gæti horfið eftir nokkur ár. Áhyggjuefni framtíðarinnar væri þó, eins og forseti kirkjuþings nefndi í sínu ávarpi, fjárhagur safnaða.

Að lokinni setningarathöfn var boðið til móttöku á Grand Hótel þar sem þingstörf fara fram næstu daga.

Á þriðja tug mála eru á dagskrá þingsins að þessu sinni. Þingið er öllum opið og hægt erað kynna sér þau mál sem bíða afgreiðslu þingsins á vef kirkjunnar. 


    Mari_a A_g.jpg - mynd

    Nýr prófastur í Vesturlandsprófastsdæmi

    15. okt. 2025
    María Guðrúnar. Ágústsdóttir er nýr prófastur á Vesturlandi.
    image0.jpg - mynd

    Hilda María ráðin

    10. okt. 2025
    Hilda María hefur verið ráðin prestur við Stykkishólmsprestakall. Sex sóknir tilheyra prestakallinu.
    b578676b-cfe9-48fa-a1b7-5534283b24dc.jpg - mynd

    Samstaða og samhugur með Úkraínu

    10. okt. 2025
    Heimsókn biskupa norðurlandanna hafði djúpstæð áhrif á þau.