Sigurður Flosason söngmálastjóri
.jpg?proc=NewsImage)
Biskup Íslands hefur valið Sigurð Flosason tónlistarmann, tónskáld og tónlistarkennara í starf söngmálastjóra.Hann tekur við af Guðnýju Einarsdóttur kantor.
Með nýjum söngmálastjóra fara fram breytingar á starfi Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem ennfremur hafa verið ráðnir deildarstjórar við nýjar deildir skólans.
Sigurður hefur sótt sér menntunar á sviði tónlistar bæði hérlendis og erlendis, m.a. einleikarapróf á saxafón, klassískan saxafónleik og í jazzfræðum, auk þess að hafa lokið einingum í kennslufræði háskólastigs.
Starfsreynsla hans er vel þekkt, en hann á að baki rúmlega 40 ára kennsluferil og hefur verið yfirmaður í íslenskum tónlistarskólum óslitið frá 1989. Þá hefur Sigurður unnið umtalsvert að kirkjutónlist, m.a. sem sálmatónskáld og með samstarfi við organista og kirkjukóra. Þá hefur hann unnið til fjölmargra verðlauna fyrir tónlist sína, gefið út fjölbreytt tónlistarefni og gegnt margvíslegum stjórnunar- og trúnaðarstörfum. Sigurður hefur verið framarlega í þróun rytmískrar tónlistarkennslu hér á landi og gegnt leiðandi störfum við Tónlistarskóla FÍH, Menntaskóla í tónlist og Listaháskóla Íslands.
Þjóðkirkjan býður Sigurð Flosason velkominn til starfa og þakkar jafnframt Guðnýju Einarsdóttur vel unnin störf og óskar henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.


