Skólavist

Nám í Tónskóla Þjóðkirkjunnar miðar að því að undirbúa orgelleikara til starfa í kirkjum. Víða eru komin í kirkjur vönduð hljóðfæri og í verkahring organista er að sjá um tónlist við messur, útfarir, giftingar og aðrar athafnir.  Einnig er falin í starfi þeirra söngstjórn og þjálfun kóra. Iðulega þurfa organistar að leika með söngvurum og hljóðfæraleikurum sem fengnir eru til að koma fram við athafnir. Starf organistans er því bæði fjölbreytt og gefandi við margvíslegar aðstæður.

Fjölbreytt og víðtæk menntun

Til að gegna starfi organista þarf fjölbreytta og víðtæka tónlistarmenntun. Fyrst og fremst þarf að læra orgelleik en einnig píanóleik og söng. Aðrar mjög mikilvægar námsgreinar eru kórstjórn og liturgískt orgelspil, en þar kemur til þjálfunar almenn hljómborðsfærni og spuni, sem miðar að því að orgelið veiti sem bestan stuðning við helgihaldið. Auk þess þarf staðgóða undirstöðu í öllum tónfræðigreinum. Aðrar sérgreinar sem kenndar eru við Tónskólann eru sálma & helgisiðafræði, kirkjusöngfræði, kirkjufræði og orgelsmíði.

Námsskrá Tónskólans

Umsókn um skólavist

Inntökuskilyrði

Inntökuskilyrði fyrir Kirkjuorganistapróf er miðstig í píanói auk viðtals við skólastjóra. Námsskrá

Inntökupróf er fyrir nám í Kantorsnámi. Námsskrá.

Inntökupróf er fyrir nám til BA-gráðu. Sjá nánar hér:

Inntökupróf er fyrir nám í einleiksáfanga.

Til að sækja um kórstjórn sem aðalfag þarf viðkomandi að jafnaði að hafa nokkra undirstöðu og einhverja reynslu.

Kennarar

Björn Steinar Sólbergsson skólastjóri stundaði nám við Tónlistarskólann á Akranesi og Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Meðal kennara hans þar voru Fríða Lárusdóttir og Haukur Guðlaugsson. Framhaldsnám í orgelleik stundaði hann á Ítalíu (James E. Göettsche) og í Frakklandi (Suasan Landale) þar sem hann útskrifaðist með einleikararpróf í orgelleik (Prix de virtuosité) árið 1986. Hann starfaði sem organisti við Akureyrarkirkju frá árinu 1986 en starfar nú auk skólastjórastarfa sem organisti við Hallgrímskirkju. Björn Steinar hefur haldið fjölda tónleika hér heima og erlendis, og leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammerhljómsveit Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Sinfóníuhljómsveit Stavanger og The Cleveland Institute of Music Orchestra.

Eyþór Ingi Jónsson er organisti við Akureyrarkirkju. Hann kennir jafnframt við Tónlistarskólann á Akureyri og hefur einnig kennt á námskeiðum í Barrokktónlist. Hann lauk kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar stundaði síðan framhaldsnám við Tónlistarháskólann í Piteå, hjá Hans-Ola Ericsson, Gary Verkade og Erik Westberg þar sem hann lauk námi í kirkjutónlist og orgelleik.

Guðný Einarsdóttir er organisti í Hjallakirkju. Hún lauk námi frá Tónlistarskólanum í Reykjvík og Tónskóla Þjóðkirkjunnar þar sem kennari hennar var Marteinn H. Friðriksson.Vorið 2006 lauk hún mastersprófi í kirkjutónlist frá Det Kongelige Danske Musik-konservatorium í Kaupmannahöfn þar sem kennarar hennar voru Lasse Ewerlöf, Hans Ole Thers og Bine Bryndorf.

Guðrún Óskarsdóttir kennir tölusettan bassa. Að loknu píanókennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1986 nam hún semballeik hjá Helgu Ingólfsdóttur. Framhaldsnám stundaði hún hjá Anneke Uittenbosch við Sweelinck Conservatorium í Amsterdam, hjá Jesper Böje Christensen í Scola Cantorum í Basel og hjá Francoise Lengellé í París. Guðrún hefur leikið inn á hljómdiska og komið fram sem einleikari, meðleikari eða sem þátttakandi í kammertónlist á fjölmörgum tónleikum á Íslandi og víða í Evrópu og í Japan. Hún er meðlimur í kammerhópnum Nordic Affect, Bach-sveitinni í Skálholti og Caput-hópnum.

Hreinn S. Hákonarson kennir kirkjufræði. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1981 og var síðan við nám og störf í eitt ár hjá Nordiska Ekumeniska Institutet (Kirknasamband Norðurlanda) í Sigtuna í Svíþjóð. Vígður haustið 1982 til Söðulsholtsprestakalls á Snæfellsnesi og var þar sóknarprestur til ársins 1993 en þá tók hann við embætti fangaprests þjóðkirkjunnar. Situr í stjórn Skálholtsútgáfunnar – útgáfufélags þjóðkirkjunnar og á einnig sæti í Úrskurðarnefnd þjóðkirkjunnar. Þá er hann og formaður fangahjálparinnar Verndar og er ritstjóri Verndarblaðsins. Skrifstofa hans er í Grensáskirkju við hlið Tónskólans. Sjá einnig vefsíðu fangaprests: http://kirkjan.is/fangaprestur

Jón Helgi Þórarinsson kennir sálma og helgisiðafræði. Hann lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1983 og mastersprófi frá Edinborgarháskóla 1994 í guðfræði og kirkjutónlist og hefur stundað nám í orgelleik. Jón Helgi var vígður prestur 1983 og er nú sóknarprestur í Hafnarfjarðarprestakalli, en þjónaði áður við Fríkirkjuna í Hafnarfirði, í Dalvíkurprestakalli og Langholtsprestakalli. Jón Helgi hefur kennt við guðfræðideild Háskóla Íslands, verið formaður stjórnar Tónskóla Þjóðkirkjunnar, formaður Prestafélags Íslands og setið á Kirkjuþingi. Hann hefur unnið að útgáfu barna- og unglingasöngbóka fyrir kirkjuna, starfað í sálmabókarnefnd síðan 1985 og er núverandi formaður sálmabókarnefndar.

Jónas Þórir Þórisson
er organisti í Bústaðakirkju. Hann lauk tónmenntanámi við Tónlistarskólann í Reykjavík, Kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar og hefur starfað við margvísleg tónlistarstörf.

Laufey Helga Geirsdóttir söngkennari stundað söngnám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Elísabetu Erlingsdóttur. Hún lauk burtfararprófi frá Nýja tónlistarskólanum árið 2005 þar sem Jón Þorsteinsson var kennari hennar. Auk þess nám við Lichtenberg Institiut í Þýskalandi þar sem hún lærði kennsluaðferð í hljóm og hljómmyndun.
Hún hefur starfað sem söngkennari við Söngskóla Sigurðar Dements og Tónskóla Þjóðkirkjunnar. Þar að auki hefur hún starfað við raddþjálfun ýmissa kóra.

Lenka Mátéová er fædd í Tékkóslóvakíu. Hún lauk kantorsprófi frá Konservatóríunni Kromeriz og masternámi við Tónlistarakademíuna í Prag. Á námsárunum vann hún til margra verðlauna í heimalandi sínu en hefur leikið einleik í Rússlandi og Þýskalandi.
Lenka hefur starfað á Íslandi frá árinu 1990, fyrst á Stöðvarfirði, árin 1993-2007 sem kantor við Fella- og Hólakirkju og nú við Kópavogskirkju. Hún hefur einnig tekið þátt í kammer- og kórtónleikum hér á landi og komið fram sem einleikari.
Auk starfa sinna við kirkjur hefur Lenka verið organisti með Karlakór Reykjavíkur, Drengjakór Reykjavíkur og Hljómeyki. Hún hefur spilað undir með þeim á tónleikum, í upptökum fyrir sjónvarpið, útvarpið og á hljómdiska.

Magnús Ragnarsson stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík, Tónskóla Þjóðkirkjunnar og Tónlistarháskólann í Gautaborg. Þá stundaði hann framhaldsnám í kórstjórn hjá Stefan Parkman við Háskólann í Uppsölum. Magnús starfar sem organisti í Langholtskirkju. Hann hefur stjórnað Söngsveitinni Fílharmóníu frá janúar 2006 og stjórnaði sönghópnum Hljómeyki árin 2006-2012. Hann hefur lagt áherslu á flutning nýrrar kórtónlistar og frumflutt mörg íslensk kórverk. Hann hefur stjórnað ballettum og kammeróperum, stjórnað Lutoslawski Fílharmóníuhljómsveitinni í Póllandi og átt farsælt samstarf við Sinfóníuhljómsveit Íslands.