1. sunnudagur í föstu (Invokavit) Freistingin / Prófið
1. sunnudagur í föstu (Invokavit)Freistingin / Prófið
Vers vikunnar:
„Nálægið ykkur Guði og þá mun hann nálgast ykkur.“ (Jak 4.8a)
Kollekta:
Drottinn, við biðjum þig: Lít þú mildilega til lýðs þíns og vík í miskunn frá honum öllu því, sem gegn honum rís. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 1M 4.3-7
Einhverju sinni færði Kain Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði einnig fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. Drottinn gaf gaum að Abel og fórn hans en leit ekki við Kain og fórn hans. Þá reiddist Kain mjög og varð þungur á brún. Drottinn sagði við Kain: „Hví reiðist þú og ert þungur á brún? Er ekki svo að þú getur verið upplitsdjarfur ef þú gerir rétt, en gerir þú rangt þá liggur syndin við dyrnar? Hún girnist þig en þú getur sigrast á henni.“
Pistill: Jak 1.12-16
Sæll er sá maður sem stenst freistingu og reynist hæfur. Guð mun veita honum kórónu lífsins sem hann hefur heitið þeim er elska hann. Enginn má segja er hann verður fyrir freistingu: „Guð freistar mín.“ Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns. Það er eigin girnd sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir. Þegar girndin síðan er orðin þunguð elur hún synd og þegar syndin er orðin fullþroskuð leiðir hún til dauða.
Villist ekki, elskuð systkin.
Guðspjall: Lúk 22.31-34
“Símon, Símon, Satan krafðist að fá að sælda yður eins og hveiti svo að hismið kæmi í ljós. En ég hef beðið fyrir þér að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú trúsystkin þín þegar þú ert snúinn við.“
En Símon sagði við hann: „Drottinn, ég er reiðubúinn að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða.“
Jesús mælti: „Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag munt þú þrisvar hafa neitað því að þú þekkir mig.“