3. sd. í föstu (Okuli) – Fórnarvilji
3. sd. í föstu (Okuli) – Fórnarvilji
Vers vikunnar:
„En Jesús sagði við hann: „Enginn sem leggur hönd á plóginn og horfir aftur er hæfur í
Guðs ríki.““ (Lúk 9.62)
Litur fjólublár
Bæn dagsins / kollektan
Guð, uppspretta ljóssins. Þú opnar augu okkar svo að við getum séð í gegn um hið óútskýrða
og þorum að trúa þrátt fyrir óöryggi. Hjálpa þú okkur að taka eftir ljósinu sem lýsir okkur í
Jesú Kristi og hrekur hverskyns nótt á brott. Því að hann er ljós okkar að eilífu. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexían 2.Sam. 22.2-7,29-33,36
Drottinn, bjarg mitt og vígi, frelsari minn.
Guð minn, hellubjarg mitt þar sem ég leita hælis,
skjöldur minn og horn hjálpræðis míns,
háborg mín og hæli,
frelsari minn sem bjargar mér undan ofríki.
Lofaður sé Drottinn, hrópa ég
og bjargast frá fjandmönnum mínum.
Holskeflur dauðans umluktu mig,
eyðandi fljót skelfdu mig.
Bönd heljar herptust að mér,
snörur dauðans ógnuðu mér.
Í angist minni kallaði ég á Drottin,
til Guðs míns hrópaði ég.
Hann heyrði hróp mitt í helgidómi sínum,
óp mitt barst honum til eyrna.
Já, þú ert lampi minn, Drottinn.
Drottinn lýsir mér í myrkrinu.
Með þinni hjálp brýt ég borgarveggi,
með Guði mínum stekk ég yfir múra.
Vegur Guðs er lýtalaus,
orð Drottins er áreiðanlegt,
skjöldur er hann öllum sem leita hælis hjá honum.
Hver er Guð nema Drottinn?
Hver er bjarg nema Guð vor?
Guð er mitt trausta vígi,
hann greiddi mér götu sína.
Þú gerðir hjálp þína að skildi mínum,
heit þitt gerði mig mikinn.
Pistill Róm. 16.17-20
Ég minni ykkur, systkin, á að hafa gát á þeim sem vekja sundurþykki og tæla frá þeirri
kenningu sem þið hafið numið. Sneiðið hjá þeim. Slíkir menn þjóna ekki Drottni vorum
Kristi heldur eigin maga, og með blíðmælum og fagurgala blekkja þeir hjörtu hrekklausra
manna. En hlýðni ykkar er alkunn orðin. Því er ég glaður yfir ykkur og vil að þið séuð vitur í
því sem gott er en fákunnandi í því sem illt er. Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan
undir fótum ykkar.
Guðspjall Jóh 2.13-22
Nú fóru páskar Gyðinga í hönd og Jesús hélt upp til Jerúsalem. Þar sá hann í helgidóminum
þá er seldu naut, sauði og dúfur og víxlarana sem sátu þar. Þá gerði hann sér svipu úr köðlum
og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum
víxlaranna og hratt um borðum þeirra og við dúfnasalana sagði hann: „Burt með þetta héðan.
Gerið ekki hús föður míns að sölubúð.“ Lærisveinum hans kom í hug að ritað er: „Vandlæting
vegna húss þíns mun tæra mig upp.“
Ráðamenn Gyðinga[ sögðu þá við hann: „Hvaða tákn getur þú sýnt okkur um það að þú
megir gera þetta?“
Jesús svaraði þeim: „Brjótið þetta musteri og ég skal reisa það á þrem dögum.“
Þá sögðu þeir:[ „Þetta musteri hefur verið fjörutíu og sex ár í smíðum og þú ætlar að reisa það
á þrem dögum!“
En Jesús var að tala um musteri líkama síns. Þegar hann var risinn upp frá dauðum minntust
lærisveinar hans að hann hafði sagt þetta, og þeir trúðu ritningunni og orðinu sem Jesús hafði
talað.
Sálmur Sb 566
1 Frá þér er, faðir, þrek og vit,
öll þekking, ást og trú.
Kenn oss að þakka einum þér
það allt sem gefur þú.
2 Og allt sem hver úr býtum ber
er bróðurskerfur hans
sem bæta skal í þökk til þín
úr þörfum annars manns.
3 En lát þann dag oss ljóma brátt
er losna böndin hörð
og réttur þinn og ríki fær
öll ráð á vorri jörð.
4 Þá allt sem lifir lofar þig
og lýtur þinni stjórn
og brosir heiðum himni við
í helgri þakkarfórn.
T Charles Kingsley um 1871 – Sigurbjörn Einarsson – Sb. 1972