Fyrsti sunnudagur í aðventu – Drottinn kemur / Hið nýja náðarár
Litur: Hvítur. Dýrðarsöngur/lofgjörð eru sungin.
Vers vikunnar: „Sjá, konungur þinn kemur til þín.“ (Sakaría 9.9)
Kollekta:.
Við biðjum þig, Drottinn: Kom í krafti þínum og veit okkur vernd svo að við losnum frá þeim háska sem yfir okkur vofir vegna syndanna og frelsumst fyrir hjálpræði þitt, því að þú lifir og ríkir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Jes 62.10-12
Gangið út, já, gangið út um hliðin,
greiðið götu þjóðarinnar.
Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon,
sjá, hjálpræði þitt kemur.
Sjá, sigurlaun hans fylgja honum
og fengur hans fer fyrir honum.“
Þeir verða nefndir heilagur lýður,
hinir endurleystu Drottins,
og þú kölluð Hin eftirsótta,
Borgin sem aldrei verður yfirgefin.
Pistill: Róm 13.11-14
Nú er okkur hjálpræðið nær en þá er við tókum trú. Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins. Lifum svo að sæmd sé að, því nú er dagur kominn, en hvorki í ofáti né ofdrykkju, hvorki saurlífi né svalli, ekki með þrætum eða öfund. Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi og leggið ekki þann hug á jarðnesk efni að það veki girndir.
Guðspjall: Matt 21.1-11
Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“
Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um:
Segið dótturinni Síon:
Konungur þinn kemur til þín,
hógvær er hann og ríður asna,
fola undan áburðargrip.
Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“
Þegar Jesús kom inn í Jerúsalem varð öll borgin í uppnámi og menn spurðu: „Hver er hann?“
Fólkið svaraði: „Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu.“
Slá þú hjartans hörpu strengi,
hrær hvern streng sem ómað fær.
Hljómi skært og hljómi lengi
hósíanna nær og fjær.
Hvert þitt innsta æðarslag
ómi’ af gleði þennan dag.
Konungurinn konunganna
kemur nú til sinna manna.
Ríki hans um allar álfur
ómælanda geimsins nær.
Hásætið er himinn sjálfur,
hallarprýði sólin skær,
fótskör hans hin fagra jörð,
fylgdin hans er englahjörð.
Skrúða ljóssins skrýddur er hann,
skíra lífsins krónu ber hann.
Hann, þótt æðst í hátign ljómi,
hógvær kemur als staðar.
Hjarta þitt að helgidómi
hann vill gjöra’ og búa þar.
Opna glaður hjartans hús,
hýs hinn tigna gestinn fús.
Getur nokkuð glatt þig fremur:
Guð þinn sjálfur til þín kemur.
Líknarár hann enn þá gefur,
ár, sem háð ei breyting er,
ár, er sumar ávallt hefur,
ávöxt lífs að færa þér.
Vetur, sumar, vor og haust
votti þakkir endalaust
konunginum konunganna,
krýndum vegsemd. Hósíanna.
Valdimar Briem