Síðasti sunnudagur kirkjuársins Eilífðarsunnudagur - Borgin eilífa
Síðasti sunnudagur kirkjuársins
Eilífðarsunnudagur - Borgin eilífa
Verið því gyrt um lendar og látið ljós yðar loga. Lúk. 12,35.
Litur grænn eða hvítur
Bæn dagsins / kollektan
Eilífi Guð, þegar þú kemur sem dómari munu orð okkar og verk verða að engu. Von okkar er
Kristur. Af því að hann hefur fórnað sér fyrir okkur og tekið á sig refsingu okkar biðjum við:
Lít til hans en ekki okkar og sýkna okkur hans vegna, Við tilbiðjum hann ásamt þér og
heilögum anda að eilífu. Amen.
Þriðja lestraröð
Lexían Sálmur 63. 2-9
Drottinn, þú ert minn Guð, þín leita ég.
Sál mína þyrstir eftir þér, hold mitt þráir þig,
í vatnslausu landi, skrælnuðu af þurrki.
Þannig hef ég litast um eftir þér í helgidóminum
til að sjá mátt þinn og dýrð.
Miskunn þín er mætari en lífið.
Varir mínar skulu vegsama þig.
Þannig mun ég lofa þig á meðan ég lifi,
hefja upp hendurnar í þínu nafni.
Ég mettast eins og af feitmeti
og með fagnandi vörum lofar þig munnur minn
þá er ég minnist þín í hvílu minni,
hugsa um þig á næturvökunum.
Því að þú komst mér til hjálpar,
í skugga vængja þinna fagna ég.
Sál mín heldur sér fast við þig,
hægri hönd þín styður mig.
Pistill 2. Kor. 5. 10
Því að öllum ber okkur að birtast fyrir dómstóli Krists til þess að sérhver fái það endurgoldið
sem hann hefur aðhafst í lifanda lífi, hvort sem það er gott eða illt.
Guðspjallið Matt, 22.23-33
Sama dag komu saddúkear til Jesú, en þeir neita því að upprisa sé til, og sögðu við
hann: „Meistari, Móse segir: Deyi maður barnlaus þá skal bróðir hans ganga að eiga konu
hans og vekja honum niðja. Hér voru með okkur sjö bræður. Sá fyrsti kvæntist og dó. Hann
átti engan niðja og eftirlét því bróður sínum konuna. Eins varð um næsta og þriðja og þá alla
sjö. Síðast allra dó konan. Kona hvers þeirra sjö verður hún í upprisunni? Allir höfðu þeir átt
hana.“
En Jesús svaraði þeim: „Þið villist því að þið þekkið ekki ritningarnar né mátt Guðs. Í
upprisunni kvænast menn hvorki né giftast. Þeir eru sem englar á himni. En um upprisu
dauðra ættuð þið að hafa lesið það sem Guð segir við ykkur: Ég er Guð Abrahams, Guð Ísaks
og Guð Jakobs. Ekki er hann Guð dauðra heldur lifenda.“ En mannfjöldinn hlýddi á og
undraðist mjög kenningu hans.
Sálmur Sb 586
Nú fagnar þú, fátæka hjarta,
já, fagna í Guði, mín önd,
og lauga þig ljósinu bjarta
frá lífsins og friðarins strönd.
Nú hverfur allt myrkur úr huga,
því hvað má þig lama og buga,
ef áttu Guðs hjarta og hönd?
Hann gefur í gæsku og mildi,
- þín gjöld eru minni en smá -
í Kristi hann vitja þín vildi
og vekja þig, fallandi strá.
Hvað megnar að særa og saka,
fyrst sjálfur þinn Drottinn vill taka
þinn vanda og vera þér hjá?
Sé himinn Guðs opinn þér yfir
svo auglit hans móti þér skín
í líkn, sem að eilífu lifir
og laðar og kallar til sín,
þá býr þér í barmi sá friður,
sem blessar þig, auðgar og styður
í köllun og þraut, sem er þín.
Sem fuglinn, er hrekkur á flótta
og fatast um stefnu og mið,
en flögrar í fáti og ótta
og fær ekki hæli né grið,
svo hrakin í voða af vegi
og vonlaus er sál þín, ef eigi
hún finnur sinn Guð og hans frið.
En eigir þú frið hans og frelsi,
þá færðu nýtt hjarta og mátt.
Þá ógnar ei hel eða helsi
né hillir neitt flekkað og smátt
en glaður þitt líf viltu gefa,
þú gefur þá fagnandi sefa
þig sjálfan og allt, sem þú átt.
Minn Jesús, þinn frið vil ég finna,
þinn fögnuð og líf, sem ei dvín,
með þér vil ég vaka og vinna
og vitna um stórmerki þín.
En trú mín er blaktandi blossi,
þín brást ei, hún sigraði á krossi.
Ó, trú þú og vak vegna mín.
Billing - Sigurbjörn Einarsson