Dagur Jóhannesar postula og guðspjallamanns – Þriðji jóladagur – 27. desember
Þriðji jóladagur. 27.desember. Dagur Jóhannesar postula og guðspjallamanns.Vers vikunnar:
„Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans sem friðinn kunngjörir, gleðitíðindin flytur, hjálpræðið boðar og segir við Síon: „Guð þinn er sestur að völdum.““ (Jes 52.7)
Kollekta:
Miskunnsami Drottinn: Þú sem í postulanum Jóhannesi hefur sent kirkju þinni trúfastann vott sannleikans, vér biðjum þig: Upplýs kirkju þína í náð og fullkomna hana í ljósi þínu. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Pistill: 1Jóh 1.1-10
Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem við höfum heyrt, það sem við höfum séð með augunum, það sem við horfðum á og hendurnar þreifuðu á, það er orð lífsins. Og lífið var opinberað og við höfum séð það og vottum um það og boðum ykkur lífið eilífa sem var hjá föðurnum og var opinberað okkur. Já, það sem við höfum séð og heyrt það boðum við ykkur einnig, til þess að þið getið líka haft samfélag við okkur. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist. Þetta skrifum við til þess að fögnuður vor verði fullkominn.
Og þetta er boðskapurinn sem við höfum heyrt af honum og boðum ykkur: „Guð er ljós og myrkur er alls ekki í honum.“ Ef við segjum: „Við höfum samfélag við hann,“ og göngum þó í myrkrinu, þá ljúgum við og iðkum ekki sannleikann. En ef við göngum í ljósinu, eins og hann sjálfur er í ljósinu, þá höfum við samfélag hvert við annað og blóð Jesú, sonar hans, hreinsar okkur af allri synd.
Ef við segjum: „Við höfum ekki synd,“ þá blekkjum við sjálf okkur og sannleikurinn er ekki í okkur. Ef við játum syndir okkar, þá er hann trúr og réttlátur svo að hann fyrirgefur okkur syndirnar og hreinsar okkur af öllu ranglæti. Ef við segjum: „Við höfum ekki syndgað,“ þá gerum við hann að lygara og orð hans er ekki í okkur.
Guðspjall: Jóh 21.20-24
Pétur sneri sér við og sá lærisveininn, sem Jesús elskaði, fylgja á eftir, þann hinn sama sem hallaðist að brjósti hans við kvöldmáltíðina og spurði: „Drottinn, hver er sá sem svíkur þig?“ Þegar Pétur sér hann segir hann við Jesú: „Drottinn, hvað um þennan?“
Jesús svarar: „Ef ég vil að hann lifi þangað til ég kem, hverju skiptir það þig? Fylg þú mér.“ Því barst sá orðrómur út í söfnuðunum að þessi lærisveinn mundi ekki deyja. En Jesús hafði ekki sagt Pétri að hann mundi ekki deyja. Hann sagði: „Ef ég vil að hann lifi þangað til ég kem, hverju skiptir það þig?“
Þessi er lærisveinninn sem vitnar um allt þetta og hefur skrifað þetta. Og við vitum að vitnisburður hans er sannur.
Sálmur: 93
Í upphafi var orðið fyrst,
það orð var Guði hjá.
Það játum vér um Jesú Krist,
:,: er jörðu fæddist á. :,:
Hann var það lífsins ljósið bjart,
er lýsir upp hvern mann,
en svo var manna myrkrið svart,
:,: að meðtók það ei hann. :,:
Hann kom til sinna, kom með frið,
hann kom með líkn og náð,
en þeir ei kannast vildu við
:,: síns vinar líknarráð. :,:
En hver, sem tekur honum við
og hýsir Drottin sinn,
fær náð og sigur, sæmd og frið
:,: og síðast himininn. :,:
Já, Guðs son kom í heiminn hér
og hann varð mönnum jafn,
að Guðs börn aftur verðum vér
:,: og vegsömum hans nafn. :,:
Valdimar Briem
Bæn dagsins:
Guð sem elskar. Þú sem lést son þinn Jesú Krist verða manneskju hér á jörð, og hefur með orðum Jóhannesar guðspjallamanns kynnt hann sem ljós heimsins: Gef að einmitt það ljós renni upp í hjörtum okkar, líkt og þegar sólin rís að morgni og gefur birtu og yl og glæðir lífið, svo að við getum með Jóhannesi borið vitni um ljós heimsins. Þess biðjum við í nafni þess sama sonar þíns Jesú Krists, bróður okkar og Drottins. Amen.