1. sunnudagur eftir þrettánda – Guðssonurinn
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn.“ (Róm 8.14)
Kollekta:
Vér biðjum þig, Drottinn: Heyr þú í himneskri mildi þinni bænir vorar, svo að vér sjáum, hvað oss ber að gera og gefist styrkur til að framkvæma það. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: Slm 42.2-3
Eins og hindin þráir vatnslindir
þráir sál mín þig, ó Guð.
Sál mína þyrstir eftir Guði, hinum lifanda Guði,
hvenær mun ég fá að koma og sjá auglit Guðs?
Pistill: Róm 12.1-5
Því brýni ég ykkur, systkin, að þið vegna miskunnar Guðs bjóðið fram sjálf ykkur að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn. Það er sönn guðsdýrkun af ykkar hendi. Fylgið ekki háttsemi þessa heims. Látið heldur umbreytast með hinu nýja hugarfari og lærið svo að skilja hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.
Fyrir þá náð sem mér er gefin segi ég ykkur öllum: Enginn hugsi hærra um sjálfan sig en hugsa ber heldur í réttu hófi, og hver og einn haldi sér við þann mæli trúar sem Guð hefur úthlutað honum.
Við höfum á einum líkama marga limi en limirnir hafa ekki allir sama starfa. 5Eins erum við, þótt mörg séum, einn líkami í Kristi en hvert um sig annars limir.
Guðspjall: Lúk 2.41-52
Foreldrar Jesú ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni. Þegar hann var tólf ára fóru þau upp þangað eins og þau voru vön og tóku Jesú með sér. Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem og vissu foreldrar hans það eigi. Þau hugðu að hann væri með samferðafólkinu og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja. En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.
Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá. En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum. Og er þau sáu hann þar brá þeim mjög og móðir hans sagði við hann: „Barn, hví gerðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.“
Og hann sagði við þau: „Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki að mér ber að vera í húsi föður míns?“ En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.
Og Jesús fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér. Og Jesús þroskaðist að visku og vexti og náð hjá Guði og mönnum.
Sálmur: 250
Til mín skal börnin bera,
svo býður lausnarinn,
þeim athvarf vil ég vera
og veita kærleik minn.
Ég fæddist fátækt í
sem barn, að börn þess njóti
og blessun alla hljóti
af ástarundri því.
Vor Jesús börnin blíður
að brjósti leggur sér
og þeim hið besta býður,
það borgarréttur er
með himins helgri þjóð,
hann erfð þeim æðsta veitir
og allri sælu heitir
sitt fyrir blessað blóð.
Til Krists því koma látið,
þér kristnir, börnin smá,
og hæsta heill það játið,
að hans þau fundi ná.
Ó, berið börn til hans,
hann virðist við þeim taka,
þau voði má ei saka
í faðmi frelsarans.
Becker – Sb. 1886 – Helgi Hálfdánarson
Bæn dagsins:
Guð ljóssins, við þökkum þér fyrir komu Jesú Krists í heiminn, hann sem er ljós heimsins takmark þess sem leitar, og vegvísir hins villta. Við þökkum þér að við megum koma til hans með börnin okkar og okkur sjálf, og þiggja blessun hans í heilagri skírn, hlýða á hann og fylgja honum að eilífu Amen.