Miðvikudagur í kyrruviku
Á miðvikudegi í kyrruviku er lesin píslarsagan samkvæmt Lúkasi. (Lúk 22.1 – 23. 49)Textaröð: A
Pistill: Mík 3.9-12
Heyrið þetta, leiðtogar Jakobs ættar,
höfðingjar Ísraels ættar,
þér sem hafið andstyggð á réttlæti
og hallið hverju því sem rétt er,
þér sem byggið Síon með blóði
og Jerúsalem með ódæðisverkum.
Höfðingjar hennar þiggja mútur fyrir dóma sína,
prestar hennar fé fyrir ráð sín
og spámenn hennar spá gegn gjaldi.
Þó reiða þeir sig á Drottin og segja:
„Er Drottinn ekki með oss?
Engin ógæfa hendir oss.“
Af yðar sökum
verður Síon plægð sem akur,
Jerúsalem verður að rúst
og musterisfjallið að kjarrivaxinni hæð.
Guðspjall: Lúk 22.1-6
Nú fór í hönd hátíð ósýrðu brauðanna, sú er nefnist páskar. Og æðstu prestarnir og fræðimennirnir leituðu fyrir sér hvernig þeir gætu ráðið Jesú af dögum því að þeir voru hræddir við fólkið.
Þá fór Satan í Júdas sem kallaður var Ískaríot og var í tölu þeirra tólf. Hann fór og ræddi við æðstu prestana og varðforingjana um það hvernig hann skyldi framselja þeim Jesú. Þeir urðu glaðir við og hétu honum fé fyrir. Hann gekk að því og leitaði færis að framselja hann þeim þegar fólkið væri fjarri.
Sálmur: 41
Víst ertu, Jesús, kóngur klár,
kóngur dýrðar um eilíf ár,
kóngur englanna, kóngur vor,
kóngur almættis tignarstór.
Ó, Jesús, það er játning mín,
ég mun um síðir njóta þín,
þegar þú, dýrðar Drottinn minn,
dómstól í skýjum setur þinn.
Frelsaður kem ég þá fyrir þinn dóm,
fagnaðarsælan heyri’ eg róm.
Í þínu nafni útvaldir
útvalinn kalla mig hjá sér.
Kóng minn, Jesús, ég kalla þig,
kalla þú þræl þinn aftur mig.
Herratign enga’ að heimsins sið
held ég þar mega jafnast við.
Jesús, þín kristni kýs þig nú,
kóngur hennar einn heitir þú.
Stjórn þín henni svo haldi við,
himneskum nái dýrðar frið.
Hallgrímur Pétursson (Ps. 27)
Bæn dagsins:
Guð gæskunnar og miskunnsemdanna. Sonur þinn Jesús Kristur þoldi þjáningu og dauða til þess að við mættum eignast hlutdeild í þínu lífi. Gef okkur að hugleiða fórn hans á þessum dögum kyrruvikunnar og styrkjast í samfélaginu við hann , sem er bróðir okkar og Drottinn. Amen.