Skírdagur
Kollekta:Drottinn Jesús Kristur, sem hefur látið oss eftir minningu písla þinna í heilögu sakramenti: Gef oss þá hlutdeild í himneskum gjöfum líkama þíns og blóðs, að ávextir endurlausnar þinnar verði augljósir í lífi voru. Þú sem lifir og ríkir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: Slm 116.12-19
Hvað á ég að gjalda Drottni
fyrir allar velgjörðir hans við mig?
Ég lyfti bikar hjálpræðisins
og ákalla nafn Drottins.
Ég greiði Drottni heit mín
og það í augsýn alls lýðs hans.
Dýr er í augum Drottins
dauði dýrkenda hans.
Drottinn, víst er ég þjónn þinn,
ég er þjónn þinn, sonur ambáttar þinnar,
þú leystir fjötra mína.
Ég færi þér þakkarfórn,
ákalla nafn Drottins.
Ég greiði Drottni heit mín
og það í augsýn alls lýðs hans,
í forgörðum húss Drottins,
í þér, Jerúsalem,
Hallelúja.
Pistill: 1Kor 11.23-29
Því að ég hef meðtekið frá Drottni það sem ég hef kennt ykkur: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: „Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.“ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.“
Hvert sinn sem þið etið þetta brauð og drekkið af bikarnum boðið þið dauða Drottins þangað til hann kemur. Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins á óverðugan hátt verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins. Hver maður prófi sjálfan sig áður en hann etur af brauðinu og drekkur af bikarnum. Því að sá sem etur og drekkur án þess að gera sér grein fyrir að það er líkami Drottins, hann etur og drekkur sér til dómsáfellis.
Guðspjall: Jóh 13.1-15
Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi að stund hans var komin og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá uns yfir lauk.
Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi, syni Símonar Ískaríots, að svíkja Jesú. Jesús vissi að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara aftur til Guðs. Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig. Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum sem hann hafði um sig. Hann kemur þá að Símoni Pétri sem segir við hann: „Drottinn, ætlar þú að þvo mér um fæturna?“
Jesús svaraði: „Nú skilur þú ekki hvað ég er að gera en seinna muntu skilja það.“
Pétur segir við hann: „Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína.“ Jesús svaraði: „Ef ég þvæ þér ekki áttu enga samleið með mér.“ Símon Pétur segir við hann: „Drottinn, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið.“
Jesús segir við hann: „Sá sem laugast hefur þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þið eruð hreinir, þó ekki allir.“ Hann vissi hver mundi svíkja hann og því sagði hann: „Þið eruð ekki allir hreinir.“
Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og sest aftur niður sagði hann við þá: „Skiljið þér hvað ég hef gert við yður? Þér kallið mig meistara og Drottin og þér mælið rétt því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur. Ég hef gefið yður eftirdæmi að þér breytið eins og ég breytti við yður.
Sálmur: 228
Tunga mín af hjarta hljóði
helgan leyndardóm um þann,
líkam Krists og blessað blóðið,
bót sem öllum heimi vann,
konungs þjóða þá hins góða
það á krossi’ úr æðum rann.
Oss var gefinn, oss var fæddur
öllum helgri meyju af,
meðan hér var holdi klæddur,
heimi náðarorðið gaf,
ævi sína svo lét dvína.
Sjá hér Drottins kærleiks haf.
Síðstu nótt, þá sat að borði
sjálfur Kristur bræðrum með
lögmáls gjörla eftir orði -
engin máltíð dýrri’ er séð -
höndum hreinum sínum sveinum
sig til fæðu gefa réð.
Hold í brauði, blóð í víni
bauð sitt væri Drottinn kær.
Miskunn slík þótt manna’ ei skíni
myrkum skilning, trúum vær.
Trúin eina hjarta hreinu
huggun, gleði’ og styrkleik fær.
Helgidóm svo háan allir
heiðra skulum alla tíð.
Gamlar lögmálsfórnir falli
fyrir Drottins nýjum sið.
Trúin mæta best má bæta
brestinn skilnings kristnum lýð.
Sönnum Guði, son getanda,
syni getnum fyr’ir upphaf,
huggaranum, helgum anda,
hinum tveim sem kemur af,
æ skal syngja sérhver tunga
sanna vegsemd, dýrð og lof.
Aquinas – Sb. 1589 – Stefán Thorarensen
Bæn dagsins:
Jesús Kristur, brauð lífsins. Í brauði og víni gefur þú okkur hlutdeild í guðlegum leyndardómi lífs þíns, yfirbugar aðskilnaðinn sem synd okkar veldur og tekur okkur með þína leið, þinn veg, fórnar og þjáningar til eilífs lífs svo að við séum hjá þér eins og þú ert hjá okkur að eilífu. Amen.