Föstudagurinn langi Dauði á krossi
Litur: Fjólublár eða svartur.
Vers.
Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Jóh, 3.16
Kollekta:
Algóði, eilífi Guð, sem svo elskaðir heiminn, að þú gafst einkason þinn í dauðann fyrir okkur við biðjum þig að leysa okkur undan öllu valdi hins illa og frelsa okkur frá dauða til eilífs lífs fyrir dauða Drottins Jesú Krists sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Hós 6.1-6
Komið, hverfum aftur til Drottins
því að hann reif sundur en mun lækna oss,
hann særði en mun gera að sárunum.
Hann lífgar oss eftir tvo daga,
á þriðja degi reisir hann oss upp,
til þess að vér lifum fyrir augliti hans.
Vér skulum leita þekkingar,
sækjast eftir að þekkja Drottin.
Hann kemur jafn áreiðanlega og morgunroði,
eins og vorskúr sem vökvar jarðveginn.
Hvað á ég að gera við þig, Efraím,
hvernig að fara með þig, Júda?
Tryggð þeirra er eins og morgunþoka,
eins og dögg sem hverfur skjótt.
Þess vegna hegg ég þá með spámönnum,
veg þá með orðum munns míns
og réttur minn mun ljóma sem birta.
Miskunnsemi þóknast mér en ekki sláturfórn
og guðsþekking fremur en brennifórn.
Pistill: Heb 4.14-16
Er við þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum við halda fast við játninguna. Ekki höfum við þann æðsta prest er eigi geti séð aumur á veikleika okkar heldur þann sem freistað var á allan hátt eins og okkar en án syndar. Göngum því með djörfung að hásæti Guðs náðar. Þar finnum við miskunn og náð þegar við erum hjálparþurfi.
Guðspjall: Jóh 19.16-30
Þá seldi hann þeim hann í hendur og bauð að láta krossfesta hann.
Hermennirnir tóku þá við Jesú. Og hann bar kross sinn og fór út til staðar sem nefnist Hauskúpa, á hebresku Golgata. Þar krossfestu þeir hann og með honum tvo aðra hvorn til sinnar handar, Jesú í miðið. Pílatus hafði látið gera yfirskrift og setja á krossinn. Þar stóð skrifað: JESÚS FRÁ NASARET, KONUNGUR GYÐINGA. Margir Gyðingar lásu þessa áletrun því staðurinn, þar sem Jesús var krossfestur, var nærri borginni og þetta var ritað á hebresku, latínu og grísku. Þá sögðu æðstu prestar Gyðinga við Pílatus: „Skrifaðu ekki konungur Gyðinga, heldur að hann hafi sagt: Ég er konungur Gyðinga.“
Pílatus svaraði: „Það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað.“
Þegar hermennirnir höfðu krossfest Jesú tóku þeir klæði hans og skiptu í fjóra hluti og fékk hver sinn hlut. Þeir tóku og kyrtilinn en hann var saumlaus, ofinn í eitt ofan frá og niður úr. Þeir sögðu því hver við annan: „Rífum hann ekki sundur, köstum heldur hlut um hver skuli fá hann.“ Svo rættist ritningin:
Þeir skiptu með sér klæðum mínum
og köstuðu hlut um kyrtil minn.
Þetta gerðu hermennirnir.
En hjá krossi Jesú stóðu móðir hans og móðursystir, María, kona Klópa, og María Magdalena. Þegar Jesús sá móður sína standa þar og lærisveininn, sem hann elskaði, segir hann við móður sína: „Kona, nú er hann sonur þinn.“ Síðan sagði hann við lærisveininn: „Nú er hún móðir þín.“ Og frá þeirri stundu tók lærisveinninn hana heim til sín.
Jesús vissi að allt var þegar fullkomnað. Þá sagði hann til þess að ritningin rættist: „Mig þyrstir.“
Þar stóð ker fullt af ediki. Hermennirnir vættu njarðarvött í ediki, settu hann á ísópslegg og báru að munni honum. Þegar Jesús hafði fengið edikið sagði hann: „Það er fullkomnað.“ Þá hneigði hann höfuðið og gaf upp andann.
Sálmur: 129
Ó, höfuð dreyra drifið,
er drúpir smáð og pínt,
af höndum þræla þrifið
og þyrnum sárum krýnt,
ó, heilagt höfuð fríða,
er himnesk lotning ber,
en háðung hlaust að líða,
mitt hjarta lýtur þér.
Þú auglit allra skærast,
í upphæð vegsamað,
þú yndið engla kærast,
hví ertu hrækt og spjað?
Hví ertu þannig þjakað,
að þekkjast mátt ei nú?
Hví svo af böðlum blakað,
að blikna hlýtur þú?
Af blygð og harmi hrelldur
ég, Herra, játa má:
Mín syndasekt því veldur,
hún sárt þig lagðist á.
Sjá, hér ég er, sem hefi
þig hrakið, pínt og smáð.
Þín miskunn mér þó gefi,
að megi’ eg öðlast náð.
Æ, virstu við mig kannast,
svo vondur sem ég er,
og sauð þinn auman annast,
sem einatt villur fer.
Mér virstu særðum svala
í sálar þungri neyð,
æ, virstu við mig tala
og vísa’ á rétta leið.
Ég vil þar vera hjá þér,
er veit ég píndan þig,
og eigi fara frá þér.
Æ, fyrirlít ei mig.
Er dauðans svefn fær sigið
á signað auga þitt,
ég vil þitt höfuð hnigið
við hjartað leggja mitt.
Af hjarta þér ég þakka,
að þyngstan kvaladeyð
þú ljúft þér lést að smakka,
svo leystir mig úr neyð.
Lát, Kristur kærleiksríkur,
ei kulna trú hjá mér,
en loks er ævi lýkur,
mig lát þú deyja’ í þér.
Löwen – Gerhardt – Helgi Hálfdánarson