Skírdagur Máltíð hins nýja sáttmála
SkírdagurMáltíð hins nýja sáttmála
Vers dagsins
„En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Róm 5.8)
Kollekta:
Drottinn Jesús Kristur sem hefur látið okkur eftir minningu písla þinna í heilögu sakramenti: Gef okkur þá hlutdeild í himneskum gjöfum líkama þíns og blóðs að ávextir endurlausnar þinnar verði augljósir í lífi okkar. Þú sem lifir og ríkir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 2M 12.1-4, 11, 14
Drottinn sagði við Móse og Aron í Egyptalandi: „Þessi mánuður er upphafsmánuður hjá ykkur. Hann skal teljast fyrsti mánuður ársins hjá ykkur. Ávarpið allan söfnuð Ísraels og segið: Á tíunda degi þessa mánaðar skal sérhver húsbóndi velja lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hverja fjölskyldu. Ef einhver fjölskylda er of lítil fyrir heilt lamb skal hún velja lamb með næstu nágrannafjölskyldu sinni. Þið skuluð skipta lambinu eftir fjölda fólksins, eftir því hvað hver etur.
Þannig skuluð þið neyta þess: Þið skuluð vera gyrtir um lendar, með skó á fótum og stafi í höndum. Þið skuluð eta það í flýti. Þetta eru páskar [ Drottins.
Þessi dagur skal verða ykkur minningardagur. Þið skuluð halda hann sem hátíð fyrir Drottin. Kynslóð eftir kynslóð sé það ævarandi regla að þið haldið þessa hátíð.
Pistill: 1Kor 11.23-29
Því að ég hef meðtekið frá Drottni það sem ég hef kennt ykkur: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: „Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.“ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.“
Hvert sinn sem þið etið þetta brauð og drekkið af bikarnum boðið þið dauða Drottins þangað til hann kemur. Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins á óverðugan hátt verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins. Hver maður prófi sjálfan sig áður en hann etur af brauðinu og drekkur af bikarnum. Því að sá sem etur og drekkur án þess að gera sér grein fyrir að það er líkami Drottins, hann etur og drekkur sér til dómsáfellis.
Guðspjall: Lúk 22.14-20
Og er stundin var komin gekk Jesús til borðs og postularnir með honum. Og hann sagði við þá: „Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður áður en ég líð. Því ég segi yður: Eigi mun ég framar neyta hennar fyrr en hún fullkomnast í Guðs ríki.“
Þá tók hann kaleik, gerði þakkir og sagði: „Takið þetta og skiptið með yður. Því ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins fyrr en Guðs ríki kemur.“
Og hann tók brauð, gerði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: „Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Gerið þetta í mína minningu.“ Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði sem fyrir yður er úthellt.