4. sd. í föstu - Laetare, Brauð lífsins / Fyrir ykkur
4. sd. í föstu - Laetare,
Brauð lífsins / Fyrir ykkur
Ég er hið lifandi brauð sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði mun lifa að
eilífu. Og brauðið er líkami minn sem ég gef heiminum til lífs.“ Joh. 6.51
Litur fjólublár
Bæn dagsins / kollektan
Drottinn Guð, gleðjast munu þau öll í þér, sem tilheyra þér. Gef þú okkur saðningu með
brauði lífsins, svo að við lifum í krafti sonar þíns og mætum hvert öðru í kærleika. Þess
biðjum við í nafni Jesú Krists. Amen.
Þriðja textaröð
Lexían 2Kon. 4.42-44
Einu sinni kom maður frá Baal Salísa og færði guðsmanninum tuttugu byggbrauð,
frumgróðabrauð. Dálítið af nýju korni hafði hann einnig í poka sínum. Elísa sagði: „Gefðu
fólkinu þetta.“ „Hvernig get ég gefið þetta hundrað mönnum?“ svaraði þjónn hans. En hann
sagði: „Gefðu fólkinu þetta að eta því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa.“ Síðan
bar hann þetta fyrir þá og þeir átu og leifðu eins og Drottinn hafði sagt.
Pistill Post. 27:33 -36
Undir dögun hvatti Páll alla til að neyta matar og sagði: „Þið hafið nú þraukað hálfan mánuð
fastandi og matarlausir. Það er nú mitt ráð að þið matist. Þess þurfið þið ef þið ætlið að
bjargast. En enginn ykkar mun einu hári týna af höfði sér.“ Að svo mæltu tók hann brauð
gerði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. Urðu nú allir hressari og fóru líka að
matast.
Guðspjallið Jóh. 6.52-58
Nú deildu Gyðingar hver við annan og sögðu: „Hvernig getur þessi maður gefið okkur líkama
sinn að eta?“
Þá sagði Jesús við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins
og drekkið blóð hans þá er ekki líf í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt hefur
eilíft líf og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða og blóð mitt er sannur
drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt er í mér og ég í honum. Eins og hinn
lifandi faðir sendi mig og veitir mér líf, svo mun ég láta þann lifa sem mig etur. Þetta er það
brauð sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið sem feðurnir átu enda dóu þeir.
Sá sem etur þetta brauð mun lifa að eilífu.“
Sálmur Sb 101
1. Brauð til saðnings svöngum gefa
sól og mold og haf af náð.
Svo sem alvalds elskan býður,
orðið frá hans vörum líður,
fylla undrin lög og láð.
2. Brauð af himni, saðning sanna,
son Guðs, Jesús Kristur, er.
Himnum frá hann fór að leita
föllnum að og þeim að veita
líkn og eilíft líf með sér.
3. Brauð á helgu borði þínu
blessar, Jesús, návist þín
þar sem systkin saman finna
svölun guðdómslinda þinna,
líf, sem aldrei deyr né dvín.
4. Brauð þitt viltu veröld gefa,
vilt oss senda með þinn auð
handa þeim sem hungur líða
hjálp að veita, með þér stríða
móti heimsins myrku nauð.
5. Brauð, sem endist öllum snauðum,
er það til? Því svarar þú:
Miðlið, jafnið mínum auði,
misréttið er allra dauði,
verið mínum vilja trú.
Per Lönning . Sigurbjörn Einarsson