2. sunnudagur í föstu (Reminiscere) Trúarbaráttan / Gefin mönnum á vald
2. sunnudagur í föstu (Reminiscere)Trúarbaráttan / Gefin mönnum á vald
Vers vikunnar:
„En Guð auðsýnir kærleika sinn til okkar í því að Kristur dó fyrir okkur þegar við vorum enn syndarar.“ (Róm 5.8)
Kollekta:
Drottinn Guð. Þú veist, að við megnum ekkert af sjálfum okkur. Varðveit okkur hið ytra og innra, ver okkur vernd og skjól gegn öllu því, sem saurgar hug og hjarta. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: 2M 33.12-14
Móse sagði við Drottin: „Þú sagðir við mig: Leiddu þetta fólk upp eftir. En þú hefur ekki sagt mér hvern þú ætlar að senda með mér. Samt sagðir þú sjálfur: Ég þekki þig með nafni og þú hefur fundið náð fyrir augum mínum. Hafi ég nú fundið náð fyrir augum þínum skýrðu mér þá frá vegum þínum svo að ég megi þekkja þig og hljóta náð fyrir augum þínum. Minnstu þess að þetta fólk er þjóð þín.“ Drottinn svaraði: „Auglit mitt mun fara með þér og ég mun veita þér hvíld.“
Pistill: Heb 5.7-10
Á dögum jarðvistar sinnar bar Jesús með sárum andvörpum og tárum bænir fram fyrir þann sem megnaði að frelsa hann frá dauða og hann var bænheyrður sakir trúar sinnar. Þótt hann væri sonur Guðs lærði hann að hlýða með því að þjást. Þegar hann hafði fullnað allt varð hann öllum, sem honum fylgja, sá sem gefur eilíft hjálpræði, af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.
Guðspjall: Mrk 10.46-52
Þeir komu til Jeríkó. Og þegar Jesús fór út úr borginni ásamt lærisveinum sínum og miklum mannfjölda sat þar við veginn Bartímeus, sonur Tímeusar, blindur beiningamaður. Þegar hann heyrði að þar færi Jesús frá Nasaret tók hann að hrópa: „Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!“ Margir höstuðu á hann að hann þegði en hann hrópaði því meir: „Sonur Davíðs, miskunna þú mér!“
Jesús nam staðar og sagði: „Kallið á hann.“
Þeir kalla á blinda manninn og segja við hann: „Vertu hughraustur, statt upp, hann kallar á þig.“
Blindi maðurinn kastaði frá sér yfirhöfn sinni, spratt á fætur og kom til Jesú.
Jesús spurði hann: „Hvað vilt þú að ég geri fyrir þig?“
Blindi maðurinn svaraði honum: „Rabbúní, að ég fái aftur sjón.“
Jesús sagði við hann: „Far þú, trú þín hefur bjargað þér.“
Jafnskjótt fékk hann sjónina og fylgdi honum á ferðinni.