4. sunnudagur í aðventu – Jólagleðin nálgast
4. sunnudagur í aðventu – Jólagleðin nálgastLitur: Rósbleikur eða rauðbleikur.
Dýrðarsöngur/lofgjörð ekki sungin.
Vers vikunnar:
„Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð.“ „Drottinn er í nánd.“ (Fil 4.4 og 5b)
Kollekta:
Við biðjum þig, Drottinn: Kom í krafti þínum og hjálpa okkur, svo að allt hið góða, sem syndir okkar hindra, megi framgang fá sakir náðar þinnar, þú sem lifir og rikir með Guði föður í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: B
Lexía: Sálm. 100
Öll veröldin fagni fyrir Drottni.
Þjónið Drottni með gleði,
komið fyrir auglit hans með fagnaðarsöng.
Játið að Drottinn er Guð,
hann hefur skapað oss og hans erum vér,
lýður hans og gæsluhjörð.
Gangið inn um hlið hans með þakkargjörð,
í forgarða hans með lofsöng.
Lofið hann, tignið nafn hans,
því að Drottinn er góður,
miskunn hans varir að eilífu
og trúfesti hans frá kyni til kyns.
Pistill: 1Jóh 1.1-4
Efni vort er það sem var frá upphafi, það sem við höfum heyrt, það sem við höfum séð með augunum, það sem við horfðum á og hendurnar þreifuðu á, það er orð lífsins. Og lífið var opinberað og við höfum séð það og vottum um það og boðum ykkur lífið eilífa sem var hjá föðurnum og var opinberað okkur. Já, það sem við höfum séð og heyrt það boðum við ykkur einnig, til þess að þið getið líka haft samfélag við okkur. Og samfélag vort er við föðurinn og við son hans Jesú Krist. Þetta skrifum við til þess að fögnuður vor verði fullkominn.
Guðspjall: Jóh 3.22-30
Eftir þetta fóru Jesús og lærisveinar hans út í Júdeuhérað. Þar dvaldist hann með þeim og skírði. Jóhannes var líka að skíra í Aínon nálægt Salím en þar var mikið vatn. Menn komu þangað og létu skírast. Þá var ekki enn búið að varpa Jóhannesi í fangelsi.
Nú varð deila um hreinsun milli lærisveina Jóhannesar og Gyðings eins. Þeir komu til Jóhannesar og sögðu við hann: „Rabbí, sá sem var hjá þér handan Jórdanar og þú barst vitni um, hann er að skíra og allir koma til hans.“
Jóhannes svaraði þeim: „Enginn getur tekið neitt nema Guð gefi honum það. Þið getið sjálfir vitnað um að ég sagði: Ég er ekki Kristur heldur er ég sendur á undan honum. Sá er brúðguminn sem á brúðina en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu. Hann á að vaxa en ég að minnka.“