10. sunnudagur eftir þrenningarhátíð Gjafir andans / Góðir ráðsmenn
Litur: Grænn.Vers vikunnar: Slm 33.12
Sæl er sú þjóð sem á Drottin að Guði, þjóðin sem hann valdi sér til eignar.
Kollekta:
Guð, eilífi faðir, þú sem sýnir almætti þitt helst og fremst með því að þyrma og miskunna: Auðga okkur af náð þinni svo að við sem höfum fyrirheit þitt fyrir augum megum fá hlutdeild í himneskri blessun þinni. Fyrir son þinn Drottin Jesú Krist sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Lexía: Jer 18.1-10
Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: Farðu nú niður í hús leirkerasmiðsins. Þar mun ég láta þig heyra orð mín.
Ég gekk því niður til húss leirkerasmiðsins einmitt þegar hann var að vinna við hjólið. Mistækist kerið, sem hann var að móta úr leirnum, bjó hann til nýtt ker eftir því sem honum sýndist best.
Þá kom orð Drottins til mín: Get ég ekki farið með yður, Ísraelsmenn, eins og þessi leirkerasmiður gerir? segir Drottinn. Þér eruð í hendi minni, Ísraelsmenn, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins.
Stundum hóta ég einhverri þjóð eða konungsríki að uppræta það, brjóta það niður eða eyða því. En hverfi þessi þjóð, sem ég hef hótað, frá illri breytni sinni iðrast ég þeirrar ógæfu sem ég hafði ákveðið að senda yfir hana.
Stundum heiti ég einhverri þjóð eða konungsríki að endurreisa það eða gróðursetja en geri hún það sem illt er í augum mínum án þess að hlýða boðum mínum iðrast ég hins góða sem ég hafði heitið að gera henni.
Pistill: Róm 9.1-5
Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki, samviska mín, upplýst af heilögum anda, vitnar það með mér að ég hef mikla hryggð og sífellda kvöl í hjarta mínu og gæti óskað að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn, Ísraelsmenn. Þeir eiga frumburðarréttinn, dýrðina, sáttmálana,
löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin. Þeirra eru ættfeðurnir og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður að eilífu. Amen.
Guðspjall: Lúk 19.41-48
Og er Jesús kom nær og sá borgina grét hann yfir henni og sagði: „Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. Því að þeir dagar munu koma yfir þig að óvinir þínir munu gera virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín sem í þér eru og ekki láta standa stein yfir steini í þér vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“
Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: „Ritað er:
Hús mitt á að vera bænahús
en þér hafið gert það að ræningjabæli.“
Daglega var hann að kenna í helgidóminum en æðstu prestarnir og fræðimennirnir, svo og fyrirmenn þjóðarinnar, leituðust við að ráða hann af dögum en fundu eigi hvað gera skyldi því að allt fólkið vildi ákaft hlýða á hann.
Sálmur: 188
Jesús grætur, heimur hlær,
hismið auma síkátt lifir,
syndaþrællinn séð ei fær
sverð, er höfði vofir yfir,
sál hans viðjum vefjast lætur,
veröld hlær, en Jesús grætur.
Jesús grætur, hjartað hans
hrellir mannkyns bölið sára,
sálarglötun syndugs manns
séð fær gæskan ei án tára.
Vitnið dagar, vottið nætur,
veröld sekri: Jesús grætur.
Jesús grætur, orð hans er:
,,Ánauð þig, minn lýður, reyrir,
ó, að vissuð aumir þér,
yðar hvað til friðar heyrir!”
Munið, synir manna´og dætur:
meini´af yðar Jesús grætur.
Jesús grætur, grátið þér,
Guð er þrátt með brotum styggið.
Glötun búin yður er,
ef í synd þér fallnir liggið.
Heimur, á þér hafðu gætur.
Heimur, sjáðu: Jesús grætur.
Ingemann – Sb. 1871 – Helgi Hálfdánarson