Mikjálsmessa og allra engla 29.september
Mikjálsmessa og allra engla 29.september
Litur hvítur eða rauður.
Vers.
Engill Drottins setur vörð kringum þá sem óttast hann og frelsar þá. (Sálm. 34.8)
Bæn dagsins / kollektan
Almáttugi Guð, á undursamlegan hátt tekur þú engla og menn í þjónustu þína til þess að
fullna verk þitt. Við biðjum þig: Lát mátt þinn verða sýnilegan og í lífi okkar svo að við á
góðum sem vondum tímum megum finna og sjá vernd englanna, fyrir Jesú Krist son þinn
sem með þér og heilögum anda lifir og ríkir frá eilífð til eilíðar.
Lexía. Jós. 5. 13-15
Einu sinni er Jósúa var staddur við Jeríkó og varð litið upp kom hann auga á mann sem stóð
andspænis honum með brugðið sverð í hendi. Jósúa gekk til hans og spurði: „Hvort ert þú
okkar maður eða fjandmannanna?“ Hann svaraði: „Ég er hershöfðingi Drottins og var að
koma.“
Jósúa féll þá til jarðar fram á ásjónu sína, laut honum og spurði: „Hvað skipar þú, herra, þjóni
þínum?“ Hershöfðingi Drottins svaraði Jósúa: „Drag skó af fótum þér því að staðurinn, sem
þú stendur á, er heilagur.“ Og Jósúa gerði svo.
Pistill. Opb.12.7-12.
Þá hófst stríð á himni: Mikael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn og englar
hans börðust á móti en fengu eigi staðist og héldust heldur ekki lengur við á himni. Og
drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi sem heitir djöfull og Satan og
afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina og englum hans var
varpað niður með honum.
Og ég heyrði rödd mikla á himni segja:
Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors
og veldi hans Smurða.
Því að þeim sem stóð frammi fyrir Guði dag og nótt og ákærði þau sem trúa
hefur verið steypt niður.
Og þau hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins
og fyrir orð vitnisburðar síns
og eigi var þeim lífið svo kært að þeim ægði dauði.
Fagnið því, himnar og þér sem í þeim búið.
Vei sé jörðunni og hafinu
því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð
því að hann veit að hann hefur nauman tíma.
Guðspjall. Lúk. 10.17-20
Nú komu þeir sjötíu og tveir[ aftur með fögnuði og sögðu: „Drottinn, jafnvel illir andar hlýða
okkur þegar við tölum í þínu nafni.“
En Jesús mælti við þá: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu. Ég hef gefið yður vald að
stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun gera yður
mein. Gleðjist samt ekki af því að illu andarnir hlýða yður, gleðjist öllu heldur af hinu að
nöfn yðar eru skráð í himnunum.“
Sálmur Sb. 559
1 Til þín, Drottinn hnatta’ og heima,
hljómar bæn um frið.
Veittu hrjáðum, hrelldum lýðum
hjálp í nauðum, sekum grið.
Þegar skjálfa skorðuð fjöllin
skeika flest hin dýpstu ráð,
lát oss veika fá að finna
fasta bjargið, þína náð.
2 Mara kvíðans mannkyn treður,
mætt af þungri synd.
Þjökuð veröld velkist milli
vöku’ og svefns með augu blind.
Lát hinn mikla lúður gjalla,
leiftur sundra þokuhjúp,
geisla þinnar sannleikssólar
sindra’ um myrkvuð hugardjúp.
3 Bjartir englar betri heima,
biðjið fyrir oss.
Þú sem fyrir þjáða bræður
þyrnikrýndur barst þinn kross,
lát oss við hann fá og finna
friðarathvarf, líknarskjól.
Miskunn veit oss, mönnum sekum,
mikli Guð, við dómsins stól.
T Páll V.G. Kolka – Sb. 1972