14. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans.“ (Slm 103.2b)
Kollekta:
Drottinn, eilífi Guð, án þín hljóta dauðlegir menn að falla: Vér biðjum þig að varðveita kirkju þína í trúfastri miskunn þinni. Kom til hjálpar, vík frá öllum voða og leið oss á vegi hjálpræðis þíns. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: Slm 146
Hallelúja.
Lofa þú Drottin, sála mín.
Ég vil lofa Drottin á meðan ég lifi,
lofsyngja Guði mínum meðan ég er til.
Treystið eigi tignarmönnum,
mönnum sem enga hjálp geta veitt.
Þegar öndin skilur við þá
verða þeir aftur að moldu
og áform þeirra verða að engu.
Sæll er sá sem á Jakobs Guð sér til hjálpar
og setur von sína á Drottin, Guð sinn,
hann sem skapaði himin og jörð,
hafið og allt sem í því er,
hann sem er ævinlega trúfastur.
Hann rekur réttar kúgaðra,
gefur hungruðum brauð.
Drottinn leysir bandingja,
Drottinn opnar augu blindra,
Drottinn reisir upp niðurbeygða,
Drottinn elskar réttláta,
Drottinn verndar útlendinga,
hann annast ekkjur og munaðarlausa
en óguðlega lætur hann fara villa vegar.
Drottinn er konungur að eilífu,
Guð þinn, Síon, frá kyni til kyns.
Hallelúja.
Pistill: Gal 5.16-24
En ég segi: Lifið í andanum og þá fullnægið þið alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru til þess að þið gerið ekki það sem þið viljið. En ef þið leiðist af andanum þá eruð þið ekki undir lögmáli.
Holdsins verk eru augljós: frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég ykkur fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki.
En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki. En þeir sem trúa á Krist hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.
Guðspjall: Lúk 17.11-19
Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“
Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir.
En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“
Sálmur: 192
Á meðan engin mætir neyð,
á meðan slétt er ævileið,
vér göngum þrátt með létta lund
og leitum ei á Jesú fund.
En þegar kemur hregg og hríð
og hrelling þjakar, neyð og stríð,
í dauðans angist daprir þá
vér Drottinn Jesú köllum á.
Hann harmakvein vort heyrir vel
og hastar á hið dimma él
og sveipar skýjum sólu frá,
öll sorg og kvíði dvínar þá.
En gjafarinn oss gleymist þrátt,
þótt gæsku reynum hans og mátt.
Af gjöfum Drottins gleðjumst vér,
en gleymum, að oss þakka ber.
Sjá, ævin hefur enga bið,
þó enn er tími’ að snúa við,
að flytja þakkir þeim, sem gaf,
ei það má gleymast héðan af.
Því jafnvel skynlaus skepnan sér,
hve skaparanum þakka ber,
um himingeiminn, lög og láð
hún lofar Drottins miklu náð.
Ó, stöndum eigi eftir þá,
en aftur snúum þökk að tjá,
og látum hljóma lífs með hjörð
hans lof og dýrð með þakkargjörð.
Sb. 1886 – Valdimar Briem
Bæn dagsins:
Guð, þú sem ert brunnur og lind náðarinnar. Allt hið góða kemur frá þér, og af því gefur þú okkur ríkulega. Opna þú hjörtu okkar svo að við sjáum og skiljum það, og lærum að þakka þér fyrir gæsku þína og miskunnsemi svo lengi sem við lifum. Fyrir Drottin Jesú Krist, son þinn, og bróður okkar, sem með þér og heilögum anda lifir og gefur líf að eilífu.