21. sunnudagur eftir þrenningarhátíð
Litur: Grænn.Vers vikunnar:
„Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.“ (Róm 12.21)
Kollekta:
Drottinn Guð, vér biðjum þig: Varðveit söfnuð þinn með stöðugri föðurelsku, að hann megi í skjóli þínu óhultur vera fyrir öllum háska og vegsama með verkum sínum þitt heilaga nafn. Fyrir son þinn Jesú Krist, Drottin vorn, sem með þér lifir og ríkir í einingu heilags anda, einn sannur Guð um aldir alda.
Textaröð: A
Lexía: Jes 51.11-16
Hinir endurkeyptu Drottins snúa aftur
og koma fagnandi til Síonar.
Eilíf gleði fer fyrir þeim,
fögnuður og gleði fylgir þeim,
en sorg og sút leggja á flótta.
Ég hugga yður, ég sjálfur.
Hver ert þú þá sem óttast dauðlega menn
og mannanna börn sem falla sem grasið
en gleymir Drottni, skapara þínum,
sem þandi út himininn og lagði grunn að jörðinni?
Þú óttast heift kúgarans sérhvern dag,
að hann ákveði að eyða þér.
En hvar er þá heift kúgarans?
Brátt verður bandinginn leystur,
hann mun ekki deyja í dýflissu
og ekki skorta brauð.
Ég er Drottinn, Guð þinn,
sá sem æsir hafið svo að brimið gnýr.
Drottinn allsherjar er nafn hans.
Ég lagði þér orð mín í munn,
skýldi þér í skugga handar minnar,
þegar ég þandi út himininn,
grundvallaði jörðina
og sagði við Síon: Þú ert lýður minn.
Pistill: Ef 6.10-17
Að lokum: Styrkist í Drottni og krafti máttar hans. Klæðist alvæpni Guðs til þess að þið getið staðist vélabrögð djöfulsins. Því að baráttan sem við eigum í er ekki við menn af holdi og blóði heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum. Takið því alvæpni Guðs til þess að þið getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli þegar þið hafið sigrað allt.
Standið því gyrt sannleika um lendar ykkar og klædd réttlætinu sem brynju og skóuð á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðin um frið. Takið umfram allt skjöld trúarinnar sem þið getið slökkt með öll logandi skeyti hins vonda. Setjið upp hjálm hjálpræðisins og grípið sverð andans, Guðs orð.
Guðspjall: Jóh 4.46-53
Nú kom Jesús aftur til Kana í Galíleu þar sem hann hafði gert vatn að víni. Í Kapernaúm var konungsmaður nokkur sem átti sjúkan son. Þegar hann frétti að Jesús væri kominn frá Júdeu til Galíleu fór hann til hans og bað hann að koma niður eftir og lækna son sinn. En hann var dauðvona. Þá sagði Jesús við hann: „Þið trúið ekki nema þið sjáið tákn og stórmerki.“
Konungsmaður bað hann: „Drottinn, kom þú áður en barnið mitt andast.“
Jesús svaraði: „Far þú, sonur þinn lifir.“
Maðurinn trúði því sem Jesús sagði við hann og fór af stað. En meðan hann var á leiðinni ofan eftir mættu honum þjónar hans og sögðu að sonur hans væri á lífi.
Hann spurði þá hvenær honum hefði farið að létta og þeir svöruðu: „Í gær upp úr hádegi fór hitinn úr honum.“ Þá sá faðirinn að það var á þeirri stundu þegar Jesús hafði sagt við hann: „Sonur þinn lifir.“ Og hann tók trú og allt hans heimafólk.
Sálmur: 199
“Þinn sonur lifir,” sagði Jesús forðum,
og sveininn græddi’, er trúað var þeim orðum.
Hin sömu orðin sár míns hjarta græða,
er svíða’ og blæða.
Ó, hve ég gleðst, minn Guð og faðir blíði,
að gafstu mér þá trú í lífsins stríði,
að dauðanum vann son þinn sigur yfir:
Þinn sonur lifir.
Ó, gef þú, að á mér það rætast megi,
að megi’ eg vera þinn á nótt og degi
og lífs og dauðum sé það sagt mér yfir:
Þinn sonur lifir.
Og þegar berast burt af tímans straumi
vor börn oss fjær í heimsins mikla glaumi,
þá seg við oss það, sem vér gleðjumst yfir:
Þinn sonur lifir.
Og þegar blessuð börnin frá oss deyja,
í bæn og trú þá kenn þú oss að þreyja,
og seg við hvern, er sorgin þyrmir yfir:
Þinn sonur lifir.
Já, þegar sjálfir vér til heljar hnígum
og hinsta fetið lífsins þreyttir stígum,
í sjálfum dauða sagt það verði’ oss yfir:
Þinn sonur lifir.
Sb. 1886 – Valdimar Briem
Bæn dagsins:
Drottinn Guð, þú lætur sól þína renna upp yfir góða og vonda og villt að við elskum óvini okkar og andstæðinga. Gef okkur anda þinn, að við sigrum hið illa með góðu og dveljum í friði þínum í hverskyns átökum, fyrir Jesú Krist.